Gripla - 20.12.2018, Page 186
GRIPLA186
Þórir munkur var líklega menntaður í Frakklandi og lagði áherslu á
að tengja norska sögu við almenna sögu kristindómsins. Þar höfðu tengsl
norskra konunga við hinn kristna Englandskonung mikilvægu hlutverki
að gegna, enda þótt Þórir segi ekki frá þeim í löngu máli. í riti hans verður
saga noregs hluti Evrópusögunnar á sama tíma, ekki einungis þegar
dregnar eru hliðstæður á milli sögu Noregskonunga og almennrar sögu,
heldur einnig þar sem segir frá tengslum Noregskonunga við vel þekkta
konunga í eigin samtíma. Að þessu leyti sló Þórir tóninn í sagnaritun um
Noregskonunga, en aðrir sagnaritarar sigldu í kjölfarið.
Sú saga sem sögð var í Noregskonungasögum sem fjölluðu um forna
tíma var ekki skipulagslaus upprifjun á munnlegri geymd heldur ber
hún einkenni menningarlegs minnis, eins og það er skilgreint af Jan
Assmann. í Historia de antiquitate regum Norwagiensium birtist Aðalsteinn
sem kennileiti sem hefur hlutverki að gegna í sköpun sjálfsmyndar. Í
gegnum fóstur Hákonar hjá Aðalsteini tengist Noregur hinu kristna evr-
ópska miðaldasamfélagi og verður hluti af því. Sagan af aðalsteini sem þar
er sögð þjónar sama markmiði og öll sagnaritun Þóris, að tengja saman
sögu Noregskonunga og almenna heimssögu. Eiríkur bróðir Hákonar er
fulltrúi hins heiðna Noregs og hann þolir siðmenningu Englands svo illa
að þegar hann kemur þangað deyr hann samdægurs. Þannig einkennist
forsaga Noregs, fyrir kristnitökuna, af andstæðum kristni og heiðni, þar
sem Aðalsteinn er í lykilhlutverki.
Svipuð saga, en þó ólík, er sögð í Historia Norvegiae, öðru konunga-
sagnariti sem líklega er frá svipuðum tíma eða aðeins yngra. Þar segir að
aðalsteinn (adalstanus) Englandskonungur hafi ættleitt Hákon (sibi in
filium adoptauit) en helstu ráðgjafar Noregs hafi kallað hann aftur heim
vegna ofríkis Eiríks, sem í þessum texta er nefndur blóðöx (sanguinea se-
curis). Eiríkur hafi flúið til Englands og fengið góðar móttökur af kennara
bróður hans (a pædagogo fratris sui) en ekki er lengur haldið fram að hann
hafi látist sama dag og hann kom til Englands heldur hafi Eiríkur tekið
skírn og verið gerður að greifa (comes) yfir Norðimbralandi. Þar hafi verið
gerð uppreisn gegn ofríki hans og hann hafi því haldið til Spánar og látist
þar. Hákon hafi hins vegar tekið við ríki í Noregi en gengið af trú þó að
hann hafi fengið rækilega leiðsögn hjá afar kristnum konungi á Englandi (a
christianissimo rege in Anglia officiossime educatus).60 Tengslin við hið kristna
60 Monumenta historica Norvegiæ, 104–106.