Gripla - 20.12.2018, Page 187
187
England valda því bæði Hákoni og Eiríki vandræðum; hvorugur þeirra nær
fullkomnu valdi á þeim.
í Ágripi af Nóregskonunga sǫgum, sem ritað er um 1190, er svipuð frá-
sögn og í Historia Norvegiae. Þegar synir Haralds hárfagra eru taldir upp
er nefndur meðal þeirra „Hákon í yngsta lagi, er Aðalsteinn Englands
konungr tók í sonar stað“.61 Hér er Hákon talinn yngsti sonur Haralds
en ekkert segir um það í hinum konungasögunum. Síðan kemur fram
að Eiríkur hafi tekið við ríki eftir lát Haralds „en Hákon bróðir hans var
vestr í Englandi með Aðalsteini konungi, er faðir hans lífs hafði hann
sendan til fóstrs.“ Síðan segir frá því er „vitrir menn“ kölluðu Hákon aftur
heim og hann tók við konungdómi í stað bróður síns.62 Líkt og í Historia
Norvegiae er sagt að Hákon hafi vikið frá kristnum siðum en hér er sagt
að það hafi verið vegna heiðinnar konu sinnar. Þó hafi Hákon fastað á
föstudögum og haldið sunnudaginn heilagan. Eftir að hann fékk sár það
er leiddi hann til bana kemur fram að Hákon hafi iðrast „mótgerða við
guð. Vinir hans buðu hónum at fœra lík hans til Englands vestr ok jarða at
kirkjum. „Ek em eigi þess verðr, kvað hann“. Um Eirík segir sem fyrr að
hann hafi haldið til Englands „ok beiddisk miskunnar af Englands konungi,
sem Aðalsteinn konungr hafði hónum heitit; en hann þá af konunginum
jarlsríki á Norðimbralandi.“63 Hér er gefið í skyn að Englandskonungur
sem tók við Eiríki geti hafa verið einhver af eftirmönnum Aðalsteins
fremur en hann sjálfur. Segir svo á sama veg og í Historia Norvegiae frá því
að Eiríkur var hrakinn frá Englandi og féll á Spáni.
Sagan um jarlsríki Eiríks blóðaxar á Norðimbralandi er áhugaverð
að því leyti að til var Eiríkur Haraldsson sem ríkti yfir Norðimbralandi,
en hann var hrakinn frá því ríki árið 954. í samtímaheimildum er þó
ekkert sagt um að hann hafi áður verið konungur í Noregi eða sonur
Noregskonungs.64 Ekki er útilokað að höfundar Noregskonungasagna hafi
rekist á rit þar sem þessi Eiríkur var nefndur því að getið er um hann víða í
enskum sagnaritum. Þeir gætu hafa tengt Eirík blóðöx við Norðimbraland
61 Ágrip af Nóregskonunga sǫgum. Fagrskinna – Nóregs konunga tal, útg. Bjarni Einarsson,
íslenzk fornrit XXIX (reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 1985), 5.
62 Sama rit, 7.
63 Sama rit, 11–12.
64 um Eirík og heimildir um hann sbr. alex Woolf, „Eric Bloodaxe revisited,“ Northern
History 34 (1998): 189–193; Clare Downham, „Eric Bloodaxe – axed? the Mystery of the
Last Viking King of York,“ Mediaeval Scandinavia 14 (2004): 51–77.
KEnnILEItI SJÁLfSMYnDar