Gripla - 20.12.2018, Blaðsíða 263
263
Hér verða færð rök fyrir því að vísan sé nær örugglega eftir Magnús
ólafsson og enn fremur sýnt fram á að hún hafi ekki verið ort sem
lausavísa heldur sem niðurlag lengra kvæðis, þar sem skáldið felur nafn sitt.
Jafnframt verður kvæðið gefið út og þar með er alllöngu kvæði, sem nú á
dögum er óþekkt, aukið við útgefið heildarsafn skáldsins.
2 Lausavísa eða lokaorð tækifæriskvæðis
Eins og kemur fram í tilvitnun í athugasemdir Faulkes að ofan, þá veltir
hann því fyrir sér hvort yfirskriftin eigi hugsanlega við aðra vísu, sem
skrifuð er næst á undan þessari, og hefur verið eignuð Magnúsi í fleiri
handritum. Ekki finnst mér tilefni til að draga þá ályktun.
Strikað er undir lokaorð langs kvæðis sem endar á bl. 103r og þar
fyrir neðan er yfirskriftin „Wysa“ fyrir vísu Magnúsar „Snaknaudar snaka
hrijder vijda“. Þá er ofanrituð yfirskrift, „Vysa sera M. o. S: var j Laufase“,
afmörkuð milli tveggja lína. Ef hún á við efri vísuna þá hefur sú tvær fyr-
irsagnir, bæði á undan og eftir, en neðri vísan enga (sjá mynd að framan).
Þótt lausavísur hafi ekki alltaf fyrirsagnir í handritum er líklegra að neðri
fyrirsögnin eigi við hana fremur en að hún sé baktitill fremri vísunnar. Hitt
er þó nokkuð víst, að skáldið hefur heitið Magnús, því nafnið er bundið
með því að nota heiti rúnastafa í vísunni:
M Öfug eik. Ef rúninni sem stendur fyrir ýr [ᛦ], sem er trjáheiti, er
snúið við er komin rúnin sem stendur fyrir mann, M [ᛘ].
A Gæfa óska beðju þorska: Óski er Óðinsheiti. Beðja hans er Jörð.
Þorskar jarðar eru ormar. Gæfa orma er sumar og „ár“ er gott sumar
(„gumna góði“) eins og segir í íslenska rúnakvæðinu, þ.e. a, Á.4
G Sniðinn úlfur beins búðar. Búð beins er húð. úlfur húðar er kaun,
þ.e. k („kaun er beggja barna böl“ segir í rúnakvæðinu), en sniðin kaun er
sködduð rún, þ.e. k breytist í G.
N Bak þvingað dif þaka: dif þaka er sennilega misritun fyrir dufþaka.
Dufþakur var þræll Hjörleifs fóstbróður Ingólfs Arnarsonar eins og segir í
Landnámabók.5 Bakþvingað: ánauð eða nauð, þ.e. n, eins og segir í rúna-
kvæðinu: „nauð gerir (k)nappa kosti“.
4 Íslenska rúnakvæðið er prentað í Páll Eggert Ólason, „fólgin nöfn í rímum,“ Skírnir 89
(1915), 119‒121.
5 Íslendingabók. Landnámabók, útg. Jakob Benediktsson, Íslenzk fornrit I (reykjavík: Hið
íslenzka fornritafélag, 1968), 42−43.
UNDANVILLINGUR REKINN HEIM