Gripla - 20.12.2018, Page 272
GRIPLA272
5 Kvæði Magnúsar ólafssonar í erfiljóðahefðinni
Bragarhættir og skáldamál íslenskra erfiljóða frá 17. öld draga oftast dám
af sálmum og öðrum trúarlegum textum.32 Þó eru nokkur dæmi um slík
kvæði undir dróttkvæðum hætti eða einhvers konar afbrigði hans.33 Sum
erfiljóðaskáld sóttu þannig til íslenskra miðaldabókmennta þegar þau ortu
erfikvæði, einkum hvað varðar form en einnig að einhverju leyti skáldamál.
Sparlega er oftast farið með heiti og kenningar í kvæðunum og tilvísanir
í goðsögur eru ekki algengar, en þó eru dæmi um mikla notkun slíkra
stílbragða, eins og kvæði Magnúsar ólafssonar um Björn Benediktsson er
dæmi um. Hið sama má segja um erfiljóð hans eftir séra Einar Sigurðsson
í Eydölum og kvæðið um Guðbrand biskup, þótt dæmin séu heldur færri
en í kvæðinu sem hér er til umfjöllunar.34 í kvæðinu er notaður fjöldi heita
fyrir karla, konur og fólk almennt, svo sem ʻsprundʼ, ʻfljóðʼ, ʻsnótʼ, ʻsvanniʼ,
ʻvífʼ, ʻfirðarʼ, ʻseggirʼ, ʻvirðarʼ, ʻdróttʼ og ʻmengiʼ. Kenningar eru flestar
tvíliðaðar, eins og ʻhrannar jórʼ (skip), ʻhyggju staðurʼ (brjóst), ʻlægis hesturʼ
(skip); oftast standa þær fyrir karl eða konu, svo sem ʻhringa hreitirʼ, ʻbauga
baldurʼ, ʻrunnar jöfursʼ, ʻskjalda týrʼ, ʻfýfu fleygirʼ, ʻhrund gullsʼ, ʻhringa
niftʼ, ʻtróður tvinnaʼ, ʻmenja eikʼ, ʻnjótar gullsʼ, ʻsilki bríkʼ, ʻfald gefnʼ o.s.frv.
Einstaka kenningar eru margliðaðar, svo sem ʻlundur nöðru grundarʼ,
ʻdróttir drupnis dreyraʼ og ʻfriggjar hadda runnurʼ. Þá bregður einnig
fyrir þekkingu skáldsins á klassískum bókmenntum. Hann vísar í grískar
goðsögur þar sem fjallað er um missinn sem andlát Björns olli: „verður
hrings var hirðir / að halda nestors aldri / því ára eðlið fleiri / unna hefði
kunnað“ (41. er.). nestor var konungur í Pýlos og var manna elstur í
herferðinni til Tróju. Þeir sem sakna Björns hefðu gjarnan viljað hafa hann
lengur ofan moldu, þótt hann væri orðinn aldraður. „Orðið Nestor er oft
notað um þann sem er elstur og reyndastur í einhverri grein eða hópi“35 og
gæti tilvísunin einnig falið það í sér um Björn. Mikið er því lagt í kvæðið
og það er með lengri erfiljóðum sem varðveist hafa frá 17. öld, alls 68 erindi.
32 Þórunn Sigurðardóttir, Heiður og huggun, 57.
33 Sjá sama rit, 57. – Við lauslega athugun á skrá yfir erfiljóð og harmljóð frá 17. öld (í Þórunn
Sigurðardóttir, Heiður og huggun, 345−407) telst mér til að slík kvæði séu tólf talsins af 155
kvæðum skrárinnar.
34 Erfiljóðið um Einar Sigurðsson í Eydölum er prentað í anthony faulkes, Magnúsarkver,
87−97, en kvæðið um Guðbrand í Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar
í Hítardal II (reykjavík: Sögufélag, 1911−1915), 280−309.
35 Íslenska alfræðiorðabókin II (reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur, 1990), 564.