Morgunblaðið - Sunnudagur - 13.01.2019, Síða 16
16 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 13.1. 2019
MINNING
N
ei, ert þetta þú vinur. Ég hélt að
þú tækir bara myndir af ís-
björnum,“ sagði Tryggvi
Ólafsson þegar Ragnar Ax-
elsson vatt sér inn úr dyrunum
í Galleríi Fold eitt vorsíðdegið árið 2015 til að
taka mynd af honum. Ragnar skellti upp úr og
áréttaði að hann myndaði annað veifið mann-
fólk líka – alla vega ennþá – og það væri sannur
heiður að fá að mynda Tryggva. „Heiðurinn er
alfarið minn,“ svaraði Tryggvi. „Hann tekur
stórkostlegar ljósmyndir þessi drengur.“
Þetta snarpa en meinfyndna samtal náði vel
utan um Tryggva Ólafsson; hann var í senn
hnyttinn, alþýðlegur og auðmjúkur. Skemmti-
legri viðmælanda er varla hægt að hugsa sér,
það þekki ég af eigin raun, átti við hann ófá við-
tölin gegnum tíðina, spekin rann fram eins og
lækur og húmorinn var aldrei langt undan.
Orðheppnari maður en Tryggvi Ólafsson er
vandfundinn.
Myndirnar á sýningunni í Galleríi Fold þetta
vor vísuðu hingað og þangað en Tryggvi sagði
verk sín eigi að síður alltaf fjalla um það sama –
lífið og tilveruna. „Allir hlutir hanga saman í
þessu lífi. Gróður jarðarinnar, ástin og lífið. Það
er minn grundvöllur. Ég er algyðistrúarmaður
og hef mikla trú á speki Aristótelesar. Hann
þekkti enga hormóna en skildi það samt allt.
Það er ótrúlegt hvað hann skildi sá maður.“
Hann kvaðst líka vera rómantíker. „Mér lík-
ar vel að skoða hluti og hlusta á tónlist, mest
djass, en það er heldur ekki dónalegt að heyra
sellósvítur Bachs. Það er ekki síst spuninn sem
heillar mig. Ferðin á laglínunni er að einhverju
leyti sú sama og í málverkinu. Margir af þess-
um djassistum eru snillingar og það fer í sálina
á mér. Mikið er það fallegt.“
Að dómi Tryggva kom innblástur bara úr
vinnunni. „Maður byrjar bara að mála og þá fer
eitthvert ferli í gang. Það er einmitt svo spenn-
andi. Annað mottó mitt í lífinu hef ég fengið frá
dönskum grínista, Storm Petersen: Ef ég
stranda þá held ég ótrauður áfram. Á Íslandi
hafa menn lengi sagt: Þeir fiska sem róa. Ef ég
fæ einhvern ódrátt á færið fer það bara í bréfa-
körfuna. Síðan þarf maður bara að eiga konu og
kaffisopa. Áður var það kona og rauðvín en það
hefur fjarað út. Það er heldur ekki verra að
eiga kött. Öll spenna líður úr manni þegar mað-
ur klappar ketti.“
Á ég að vera eins og Beethoven?
Tæpum tveimur árum áður bar fundum okkar
Tryggva líka saman í Galleríi Fold og þá fékk
annar ljósmyndari, Ómar Óskarsson, að reyna
spéið á eigin skinni.
„Á ég að vera eins og Beethoven? Hann var
alltaf svo alvarlegur á myndum,“ spurði
Tryggvi Ómar sem smellti af honum í gríð og
erg. „Það hefur alltaf þótt fínt að vera í fýlu á
Íslandi. Þykir svo gáfulegt. Verst að ég nenni
því ekki.“
Iðjuleysi er böl málarans og Tryggvi var
þarna í skýjunum með að vera kominn á skrið
að nýju eftir alvarlegt slys sem hann lenti í árið
2007. „Sjáðu til, það er eins með sköpunarþörf-
ina og kvensemina. Hún fer ekkert. Þörfin
verður alltaf til staðar. Þetta er allt af sömu rót-
um runnið, karlmaðurinn hefur bara þrjá fasta
punkta í sinni tilveru: Fæðingu, konu og dauða.
Þá er ég ekki bara að tala um málara, þurfi
menn að syngja eða spila á fiðlu tengist það líka
hormónunum. Það hundskammaði mig einu
sinni kona í partíi í Danmörku fyrir að halda
þessu fram en ég er enginn dólgur og dóni. Ég
meina þetta.“
Hann hélt áfram: „Eftir slysið átti ég ekki
von á því að komast af stað aftur. Ég ræð ekki
almennilega við að mála en grafíkin hentar
ágætlega. Ég er að vísu hálfgerður aumingi og
þarf hjálp við þetta, tæknin er orðin flóknari í
dag en hún var í gamla daga og leiðin frá teikn-
ingu yfir á pappír lengri. Hér áður var það bara
krít á stein og þaðan beint á pappír. Eftir að
tölvurnar komu til sögunnar er ferlið miklu
lengra. Það er mikilvægt að hafa aðgang að
mönnum sem maður treystir og það hef ég.“
Þúsund eða fleiri
Haustið 2009 sótti Einar Falur Ingólfsson,
blaðamaður og ljósmyndari, Tryggva heim
vestur á Granda og spurði meðal annars um
fjölda málverka sem eftir hann lægju.
„Elskan mín, ætli þau séu ekki þúsund eða
fleiri,“ svaraði Tryggvi. „Ég málaði svona 40,
50 á ári í mörg ár. Mér líður best þegar gengur
undan mér. Ég get ekki verið með svoleiðis
harðlífi að vera í heilt ár að mála eina eða tvær
myndir. Ég vil frekar henda mynd og byrja upp
á nýtt. Ég hef málað yfir margar myndir um
dagana. Ég veit ekki hvort það er aldurinn, en
nú er mér orðið alveg sama hvaða myndefni ég
nota. Fyrir mér er allt opið. Ég get fengið hug-
myndir í barnaherbergjum og á klósettum og
alls staðar.“
Á þessum tíma var Tryggvi nýfluttur heim
eftir að hafa búið í áratugi í Danmörku.
„Margt hefur breyst hér. Ég fór út til Kaup-
mannahafnar 21 árs gamall og kom aftur 68
ára. Þetta eru tvö ólík ríki. Í gamla daga þekkti
ég marga sem eru dánir: Vilhjálmur frá Ská-
holti, Ási í Bæ, Flóki og Jóhannes Geir, allir
þessir vinir mínir og fleiri höfðu mikil áhrif á
mig. Og ég hef alltaf hugsað til þeirra. Svo kem-
ur maður núna til landsins og þá er fyr-
irmyndin orðin möppudýr með háskólagráðu
sem rænir bankana. Að vera útrásarvíkingur
og stela sparifé af ensku fólki þótti voða fínt.
Þetta er voðalega þreytt lýðveldi.
Það sem hefur batnað er hvað Reykjavík og
Ísland eru orðin græn. Ég held að fáir menn
hafi séð annan eins árangur ævi sinnar og Sig-
urður Blöndal og aðrir skógræktarmenn. Þeir
hafa gert kraftaverk. Trén ná líka að fela mikið
af þessum ljóta arkitektúr í Reykjavík.“
Vinna og aftur vinna
Í samtali okkar Tryggva árið 2004 bar ég undir
hann goðsögnina um það að listamenn gætu að-
eins unnið þegar „andinn“ kæmi yfir þá. Hann
kannaðist við goðsögnina en þekkti hana þó
ekki af eigin raun.
„Það getur vel verið að til séu listamenn af
þessu tagi en þetta á ekki við um mig. Það dug-
ar ekki að horfa upp í loftið. Hvað ef Mozart
hefði bara setið og drukkið rauðvín? Þá hefðu
öll þessi ódauðlegu tónverk aldrei orðið til.
Auðvitað þarf ástríðan að vera til staðar. Og
áhuginn. Það eru hlutir sem vont er að skil-
greina. En síðan er þetta bara vinna. Og aftur
vinna.“
Hann tók dæmi. „Ég er ekki fæddur teikn-
ari. Var óttalegur þurs í teikningu og þurfti að
læra hana. Meira að segja núna, þá teikna ég til
hádegis á hverjum degi. Ég er hins vegar fædd-
ur með einhverja litamaníu og hún hefur komið
sér vel.“
Spurður hvort tjáningarþörfin væri alltaf
jafn rík svaraði Tryggvi:
„Já, það er einhver forvitni sem rekur mann
áfram. Ef ég vissi hvernig mynd væri frá upp-
hafi til enda myndi ég ekki nenna þessu. Alveg
eins og skytta sem veit fyrirfram hvað hún
kemur til með að fá margar rjúpur mun aldrei
nenna af stað í veiði. Ég segi stundum: Láttu
það í friði sem lætur þig í friði! Ef ég fæ nóg af
því að mála þá mun ég fá mér aðra vinnu en
þessi della ætlar að duga mér fyrir lífstíð.“
Þar hafði hann lög að mæla.
Þessi della ætlar að
duga mér fyrir lífstíð
Tryggvi Ólafsson listmálari lést á dögunum, 78 ára að aldri. Hann var afkastamikill í listsköpun sinni og naut virðingar
langt út fyrir landsteinana. Tryggvi var líka orðheppinn með afbrigðum, svo sem fjölmörg viðtöl hér í blaðinu vitna um.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Morgunblaðið/Golli
Tryggvi Ólafsson ásamt aldavini sínum og kollega Braga Ásgeirssyni í Gall-
eríi Fold árið 2013, þar sem þeir sýndu saman. Þeir eru nú báðir fallnir frá.
Morgunblaðið/Ómar „Þetta er allt af sömu rótum runnið, karlmaðurinn hefur bara þrjá fasta
punkta í sinni tilveru: Fæðingu, konu og dauða,“ sagði Tryggvi Ólafsson.
Þetta verk var á yfirlitssýningu í Gerðarsafni árið 2000.
Tryggvi Ólafsson á heimili sínu árið 2014. Eftir
alvarlegt slys árið 2007 vann hann mest í grafík.