Morgunblaðið - 17.01.2019, Blaðsíða 22
22 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 17. JANÚAR 2019
BAKSVIÐ
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Sífellt fleiri kalla eftir því að lokið
verði við síðasta áfanga Arnarnes-
vegar. Um er að ræða 1,5 kílómetra
kafla frá Rjúpnadal í Kópavogi að
Breiðholtsbraut í Reykjavík.
Í þeirri samgönguáætlun sem nú
er til umfjöllunar á Alþingi á að veita
1.500 milljónir króna í framkvæmd-
ina á árunum 2024-2028.
„Staðan í efri byggðum Kópavogs
er óviðunandi hvað varðar viðbragðs-
tíma,“ sagði Jón Viðar Matthíasson,
slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuð-
borgarsvæðisins bs., í viðtali við
Morgunblaðið sl. mánudag. Hann
sagði að út frá faglegu sjónarmiði
væri tvennt mikilvægast til að bæta
viðbragðstímann í Kópavogi, annars
vegar að ljúka við Arnarnesveg og
hins vegar flutningur á stöð slökkvi-
liðsins við Tunguháls á lóð nálægt
Arnarnesvegi, sem er á fram-
kvæmdaáætlun árið 2021. Með Arn-
arnesvegi aukist umferðarflæðið, en
mikið álag sé orðið á gatnakerfinu.
Í sérstökum umræðum um Arnar-
nesveg á Alþingi fyrir jól sagði Sig-
urður Ingi Jóhannsson samgöngu-
ráðherra m.a. að ágreiningur hefði
verið milli sveitarfélaganna, Reykja-
víkurborgar og Kópavogs, um ná-
kvæma útfærslu á því hvort þarna
ættu að vera mislæg gatnamót eða
ekki. „Það er eitt af því sem valdið
hefur seinkunum á framkvæmdum,“
sagði ráðherra.
Anna meiri umferð
Gatnamótin sem um er að ræða
eru við Breiðholtsbrautina. Kópa-
vogsbær og Vegagerðin vilja mislæg
gatnamót á þessum stað en Reykja-
víkurborg, sem hefur skipulags-
valdið, vill aðra útfærslu, þ.e. ljósa-
stýrð gatnamót. Sérfræðingar
Vegagerðarinnar telja að mislæg
gatnamót muni anna mun meiri um-
ferð og séu þar að auki miklu örugg-
ara mannvirki.
Þetta deilumál hefur ekki verið á
dagskrá lengi, að sögn G. Péturs
Matthíassonar, upplýsingafulltrúa
Vegagerðarinnar. „En nú er það
komið í ósamþykktu samgönguáætl-
unina þannig að þegar hún verður af-
greidd frá Alþingi má reikna með að
við tökum þetta mál upp við Reykja-
víkurborg að nýju.“
Í vinnu við Aðalskipulag Reykja-
víkur (2010-2030) voru felld niður
mislæg gatnamót Breiðholtsbrautar
og væntanlegs Arnarnesvegar, sam-
kvæmt upplýsingum Jóns Halldórs
Jónassonar, upplýsingafulltrúa hjá
Reykjavíkurborg. Við þá niðurfell-
ingu var settur almennur fyrirvari
vegna samræmis við gildandi svæð-
isskipulag með vísan í svæðisskipulag
2024. Núgildandi svæðisskipulag
2040 setur hins vegar ekki fram bind-
andi stefnu um mislæg gatnamót við
Breiðholtsbraut -Arnarnesveg.
Vegagerðin lagðist í umsögn sinni
frá 5. júní 2013 gegn því að mislæg
gatnamót yrðu felld út á þessum stað
og Kópavogur gerði jafnframt form-
lega athugasemd á auglýsingatíma,
en sá kafli Arnarnesvegar sem eftir
er að leggja, liggur á mörkum sveit-
arfélaganna tveggja.
Vegagerðin og Kópavogsbær skip-
uðu umferðaröryggishóp sem skilaði
skýrslu árið 2009. Í niðurstöðu hóps-
ins sagði m.a: „Vegna mikilvægis
vegamótanna fyrir samgöngur á höf-
uðborgarsvæðinu og þar sem allt of
stutt vegalengd er frá vegamótum
Arnarnesvegar við Breiðholtsbraut
að vegamótum við Vatnsendaveg
mælir öryggishópur með að vegamót
Arnarnesvegar við Breiðholtsbraut
verði þegar gerð mislæg enda tryggir
sá kostur öryggi vegfarenda betur en
ljósastýrð vegamót. Þar sem hring-
torg er mun öruggari kostur en ljósa-
vegamót mælir öryggishópur með að
hringtorg verði á vegamótum Arnar-
nesvegar og Vatnsendavegar á með-
an það annar umferð.“
Þessa vikuna standa yfir nefnda-
dagar á Alþingi. Umhverfis- og sam-
göngunefnd þingsins fjallar m.a. um
fimm ára samgönguáætlun 2019-2023
og samgönguáætlun 2019-2033 og
fær til sín gesti. Stefnt er að því að af-
greiða samgönguáætlunina í þessum
mánuði.
Samgönguráðherra hefur sagt á
Alþingi að ef áform um veggjöld
ganga eftir væri vonandi hægt að
flýta framkvæmdum við síðasta kafla
Arnarnesvegar umtalsvert. Því er
ljóst að Vegagerðin og Reykjavíkur-
borg þurfa að ræða saman fyrr en
seinna og semja um útfærslu gatna-
móta Arnarnesvegar og Breiðholts-
brautar.
Ósammála um útfærslu gatnamóta
Vegagerðin vill að gatnamót Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar verði mislæg er Reykjavíkur-
borg vill að þau verði ljósastýrð Alþingi ræðir samgönguáætlun Þrýst á að verkinu verði flýtt
Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Arnarnesvegur Vegurinn mun liggja frá Rjúpnadal, fyrir ofan golfvöllinn, og niður á Breiðholtsbrautina. Hann mun liggja á sveitarfélagamörkum Reykja-
víkur og Kópavogs. Vinstra megin á myndinni eru einbýlishús í Seljahverfi og hægra megin einbýlishús í Kórahverfi. Efst eru möstur á Vatnsendahæð.
Möguleg gatnamót Svona hugsa sérfræðingar sér bestu útfærsluna á mislægum gatnamótum. Myndin er frá árinu
2003 og mikið hefur verið byggt síðan þá í nágrenninu. Neðst á myndinni má sjá fjölbýlishúsin í Fellahverfi.
Tölvumynd/VSO ráðgjöf