Morgunblaðið - 19.01.2019, Side 23
FRÉTTIR 23Erlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 19. JANÚAR 2019
Talið er að um 245 milljónir krist-
inna manna sæti miklum ofsóknum
vegna trúar sinnar í 50 ríkjum sem
eru á nýjum lista hreyfingarinnar
Open Doors yfir lönd þar sem staða
kristinna manna er álitin verst. Þeim
sem sæta miklum ofsóknum fjölgaði
um 30 milljónir á einu ári, að sögn
hreyfingarinnar.
Þetta er 27. árið sem Open Doors
birtir slíkan lista og hann byggist á
rannsóknum hreyfingarinnar á
stöðu kristinna manna í heiminum.
Þær benda til þess að einn af hverj-
um níu kristnum mönnum í heim-
inum sæti ofsóknum og að þær hafi
aukist mest í Asíu á síðustu fimm ár-
um. Talið er að þriðji hver kristinn
maður í Asíu sæti miklum ofsóknum,
að sögn Open Doors.
Ofsóknirnar hafa aukist í tveimur
fjölmennustu löndum heims, Kína og
Indlandi. Hreyfingin rekur versn-
andi stöðu kristinna manna í Kína til
hertra reglna um trúariðkun og her-
ferða yfirvalda sem leggi kapp á að
uppræta hvers konar starfsemi sem
geti ógnað einræðisvaldi Xi Jinping,
forseta landsins. Auknar ofsóknir
gegn kristnu fólki á Indlandi eru aft-
ur á móti raktar til þjóðernissinn-
aðra hindúa sem hafa fært sig upp á
skaftið og beitt trúarminnihlutahópa
ofbeldi. Vaxandi þjóðernishyggja
hefur einnig leitt til aukinna ofsókna
gegn kristnu fólki og öðrum trúar-
minnihlutahópum í löndum á borð
við Búrma, Nepal og Bútan.
Ofsóknarnar eru álitnar mestar í
Norður-Kóreu sem hefur verið í
efsta sæti á listanum í átján ár.
Meira en 4.300 drepin
Að sögn Open Doors voru 4.305
kristnir menn drepnir í heiminum
vegna trúar sinnar á liðnu ári. Þar af
voru rúmlega 3.700 morðanna fram-
in í norður- og miðhluta Nígeríu þar
sem kristið fólk hefur þurft að flýja
þorp sín vegna árása vopnaðra
manna sem hafa lagt þau undir sig.
Heilu fjölskyldurnar hafa verið
myrtar. Til að mynda voru nær 2.000
kristnir menn drepnir í Plateau-fylki
í árásum múslíma. Þing Nígeríu hef-
ur skilgreint vígin sem „hópmorð“.
Heimild: NGO Open Doors (gögn frá nóv. 2017 - okt. 2018)
Meira en 4.000 kristnir menn drepnir vegna trúar sinnar
3.066
4.305
7.106
Fjöldi kristinna manna sem voru
drepnir vegna trúar sinnar
1
3
1011
4
6
8
7
10
29
5
Sómalía
AfganistanÍran
Pakistan
Súdan
Jemen
Eritrea
Líbíagífurlegar
mjög miklar
miklar
IndlandSýrland
Norður-Kórea
171
Búrma*
100
100
Kína*
Rúanda
98Indland
40Mexíkó
28Pakistan
569
Nígería
1.847
Kirkjur sem voru eyðilagðar,
skemmdar eða bannaðar
1.207
Nígería
Sómalía
Austur-Kongó
Mósambík
Suður-Súdan
Önnur
Eþíópía
Eftir löndum
4.305 Alls
Hreyfingin Open Doors hefur birt lista
yfir lönd þar sem kristið fólk sætti
mestum ofsóknum á liðnu ári
Mið-Afríkulýðv.
Önnur
3.731
146
232
50
43
42
31 30
741
2015 2016 2017 2018
*Áætlað
Vaxandi ofsóknir
gegn kristnu fólki
Bogi Þór Arason
bogi@mbl.is
Stefan Löfven, leiðtogi Sósíaldemó-
krataflokksins í Svíþjóð, myndar nýja
minnihlutastjórn í næstu viku eftir að
hafa náð kjöri í embætti forsætisráð-
herra á þinginu í gær, 131 degi eftir
þingkosningar. Niðurstaðan var álitin
sigur fyrir Löfven, sem hefur getið sér
orð fyrir að vera slyngur samninga-
maður, en sigurinn gæti þó reynst hon-
um dýrkeyptur vegna tilslakana sem
hann féllst á til að halda völdunum.
Andreas Norlén, forseti þingsins,
hafði tilnefnt Löfven í forsætisráð-
herraembættið og tilnefningin fékk
nægan stuðning á þinginu þótt hún
fengi ekki meirihluta atkvæða. Aðeins
115 þingmenn greiddu atkvæði með
tilnefningunni, 153 voru á móti, 77
þingmenn sátu hjá og fimm þingmenn
voru ekki viðstaddir atkvæðagreiðsl-
una. Tilnefningin þurfti ekki að fá
meirihluta atkvæða, en hefði fallið ef
meirihluti þingmanna hefði greitt at-
kvæði gegn henni.
Mjög erfiðar viðræður
Löfven hafði náð samkomulagi um
að Sósíaldemókratar og Umhverfis-
flokkurinn mynduðu minnihlutastjórn
með stuðningi Miðflokksins og Frjáls-
lynda flokksins sem hafa verið í banda-
lagi með hægriflokknum Moderaterna
og Kristilega demókrataflokknum.
Stuðningur Miðflokksins og Frjáls-
lynda flokksins dugði þó ekki því að
Löfven þurfti einnig að semja við
Vinstriflokkinn um að hann greiddi
ekki atkvæði gegn tilnefningunni.
Stjórnarmyndunarviðræðurnar
voru mjög erfiðar vegna þess að hvor-
ug gömlu fylkinganna í sænskum
stjórnmálum fékk meirihluta þingsæta
í kosningunum 9. september. Sósíal-
demókratar, Umhverfisflokkurinn og
Vinstriflokkurinn fengu einu þingsæti
meira en bandalag hægri- og miðflokk-
anna fjögurra. Þjóðernisflokkurinn
Svíþjóðardemókratarnir styrkti odda-
stöðu sína á þinginu, varð þriðji stærsti
flokkurinn og fékk 17,6% atkvæðanna.
Niðurstaða stjórnarmyndunarvið-
ræðnanna endurspeglar þá niðurstöðu
kosninganna að mikill meirihluti þing-
mannanna er andvígur því að mynda
ríkisstjórn með þjóðernisflokknum.
Hann á rætur að rekja til nasistahreyf-
inga og er talinn eiga langt í land með
að þvo af sér öfgastimpilinn, m.a. vegna
hatursfullra yfirlýsinga fulltrúa hans á
samfélagsmiðlum um innflytjendur.
Stjórnmálaskýrendur segja að Löf-
ven hafi náð tveimur helstu markmið-
um sínum í viðræðunum: að halda völd-
unum og kljúfa bandalag mið- og
hægriflokkanna fjögurra. Það geti þó
reynst honum dýrkeypt og komið
Sósíaldemókrötum í koll í næstu kosn-
ingum sem eiga að fara fram árið 2022.
Fimmtán síðna stjórnarsáttmáli, sem
samþykktur var í vikunni sem leið,
endurspeglar að miklu leyti stefnu
Miðflokksins og Frjálslynda flokksins
og tilslakanir Löfvens gætu orðið til
þess að Sósíaldemókratar misstu
stuðning vinstrimanna sem hafa kosið
flokkinn. „Til að halda embætti for-
sætisráðherra þurfti Löfven að greiða
fyrir það með frjálslyndum umbótum,“
sagði sænska dagblaðið Dagens
Nyheter. Á meðal þeirra tilslakana
sem Löfven féllst á voru skattalækk-
anir, tillaga um að leigjendur greiddu
markaðsverð fyrir nýtt leiguhúsnæði
og breytingar á vinnulöggjöfinni – allt
tillögur sem forsætisráðherrann hafði
hafnað fyrir kosningarnar.
Vatn á myllu Vinstriflokksins?
Þótt Jonas Sjöstedt, leiðtogi Vinstri-
flokksins, féllist á að flokkurinn greiddi
ekki atkvæði gegn Löfven í gær hótaði
hann að leggja fram vantrauststillögu
gegn stjórninni ef hún reynir að ná
fram breytingum á vinnulöggjöfinni
eða húsaleigulögum. Talið er þó ólík-
legt að Vinstriflokkurinn standi við
þessa hótun. Hann er aðeins með 28
sæti á þinginu og til að vantrauststil-
laga verði tekin til afgreiðslu þurfa
a.m.k. 35 þingmenn að styðja hana. Til
að knýja fram vantrauststillögu þyrfti
Vinstriflokkurinn að leita eftir stuðn-
ingi þingmanna Moderaterna, Kristi-
legra demókrata eða Svíþjóðardemó-
kratanna. Stjórnmálaskýrendur telja
að það myndi jafngilda „pólitísku
sjálfsmorði“ ef Vinstriflokkurinn felldi
stjórn Sósíaldemókrata og Umhverfis-
flokksins í samstarfi við hægriflokk-
ana.
Talið er líklegt að tilslakanir Löf-
vens verði til þess að fylgi Vinstri-
flokksins aukist á kostnað Sósíaldemó-
krata í næstu kosningum.
Sigurinn gæti reynst dýrkeyptur
Stefan Löfven þurfti að fallast á miklar tilslakanir í viðræðum við Miðflokkinn og Frjálslynda flokk-
inn til að halda völdunum Mikill meirihluti á þinginu andvígur stjórnarmyndun með þjóðernissinnum
AFP
Myndar minnihlutastjórn Stefan Löfven (t.h.) brosir eftir að hafa náð kjöri
í embætti forsætisráðherra með minnihluta atkvæða á sænska þinginu.
Óseyrarbraut 12, 220 Hafnarfirði | Klettagörðum 5, 104 Reykjavík | stolpigamar@stolpigamar.is
Gámaleiga
Er gámur lausnin fyrir þig?
Við getum líka geymt gáminn fyrir þig
568 0100
stolpigamar.is
HAFÐU
SAMBAND
Búslóðageymsla z Árstíðabundinn lager z Lager z Sumar-/vetrarvörur
Frystigeymsla z Kæligeymsla z Leiga til skemmri eða lengri tíma