Morgunblaðið - 19.01.2019, Síða 26
26 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 19. JANÚAR 2019
Seint á jólaföstu birt-ist frétt á vef RÚVþar sem stóð með-al annars:
„Árlega deyja um það bil
300 þúsund börn undir 5
ára vegna sýkinga sem eru
ollnar af þessari bakteríu
þannig að hún getur verið
mjög skaðleg …“
Sá mikli fróðleikur sem
hér var miðlað fór fyrir ofan
garð og neðan hjá mörgum
vegna orðalagsins „eru
ollnar“. Málfarspistlar og spjallþræðir loguðu. Ýmsir töldu þetta
orðalag hreinlega rangt; eðlilegt væri að tala um sýkingar sem er
valdið af bakteríunni. Aðrir reyndu að réttlæta orðfærið en gekk þó
brösuglega.
Spurningin er hvort um er að ræða sögnina valda eða vella. Út frá
merkingu má búast við valda; bakterían veldur sýkingum. Meinið er
að lýsingarháttur þátíðar af valda er venjulega valdið og í nefnifalli
fleirtölu í kvenkyni þá vænt-
anlega „valdnar“ en ekki
„ollnar“. Orðmyndin sjálf
bendir fremur til sagn-
arinnar vella ‘sjóða, krauma’
og út af fyrir sig er ollnar
rétt mynd af lýsingarhætti
þeirrar sagnar. Það er þó
erfitt að sjá fyrir sér að baktería „velli“ sýkingu. Hér virðast orðmynd
og merking stangast illilega á.
Glöggur maður kvað upp úr með að engin leið væri að fá botn í um-
rætt orðalag með sögninni vella. Hins vegar skildist setningin ef um
væri að ræða valda. Fyrir utan hina sérkennilegu orðmynd ollnar er
þó að auki sá hængur á að valda stýrir þágufalli (valda einhverju); hún
ætti því ekki að mynda þolmynd af þessum toga (rétt væri sýkingum
er valdið eða ollið en ekki sýkingar eru ollnar).
Er þetta þá tómt rugl? Kannski – en það er regla í óreiðunni. Við
þurfum að átta okkur á tvennu. Í dæminu að ofan er ekki bara notuð
óvenjuleg mynd af lýsingarhættinum (ollnar) heldur birtist þar líka
nefnifallshneigð eða nefnifallssýki. Nefnifallssýki lætur lítið yfir sér
enda hefur ekki verið amast við henni eins mikið og þágufallssýkinni
alræmdu (t.d. mér langar í stað mig langar). Nefnifallssýki er þó tals-
vert algeng með mörgum sögnum, t.d. úthluta, eins og þegar sagt er
aflaheimildir voru úthlutaðar í stað aflaheimildum var úthlutað.
Dæmið má þá útskýra svona: Hliðarmynd við lýsingarháttinn valdið
er ollið (sem er væntanlega orðin til fyrir áhrif frá þátíðinni olli, ollum/
ullum). Hjá þeim sem hafa hliðarmyndina ollið er lýsingarháttur þá-
tíðar í nefnifalli fleirtölu í kvenkyni rétt myndaður sem ollnar. Þar
sem valda stýrir þágufalli hefði verið unnt að segja sýkingum er ollið.
En sá sem setningin er höfð eftir er greinilega líka með nefnifallssýki
og því víkur þágufallið fyrir nefnifalli þegar það gegnir hlutverki
frumlags í þolmynd. Þar af leiðandi er alveg rökrétt (miðað við málfar
mælandans) að segja sýkingar eru ollnar (og sýkingar sem eru ollnar).
Þetta gefur augaleið þegar búið er að benda á það, ekki satt? Eða
eins og virtur málfræðingur sagði eitt sinn í mín eyru: „Allt sem er
sagt er rétt – nema það sem er augljóslega vitlaust.“
Málsvörn
málvillunnar
Tungutak
Þórhallur Eyþórsson
tolli@hi.is
Nefnifallssýki virðist ónæm fyrir sýklalyfjum.
Þar sem ég sat á morgunfundi Landsvirkjunarsl. þriðjudagsmorgun þar sem fjallað var umorkumarkaði í mótun varð mér hugsað tilfyrstu ára minna á Morgunblaðinu, þar sem
ég hóf störf á sama ári og Landsvirkjun var stofnuð.
Þá var eitt mál öðrum fremur reglulega á dagskrá í
umræðum á ritstjórninni: Stórvirkjanir og stóriðja.
Landsvirkjun var að verða til, Búrfellsvirkjun til um-
ræðu svo og viðræður við Svissneska álfélagið um
byggingu álversins í Straumsvík.
Ráðamönnum þjóðarinnar var orðið ljóst að sjávar-
útvegurinn einn gat ekki staðið undir nútíma þjóð-
félagi á Íslandi. Það varð að skjóta fleiri stoðum undir
rekstur þjóðarbúsins. Og við blasti að það hlaut að
vera nýting á annarri mestu auðlind þjóðarinnar á
þeim tíma, orku fallvatnanna. Ekki voru allir sammála
um það eins og við mátti búast. Það urðu harðar deilur
á Alþingi um hvort byggja ætti stórvirkjun við Búrfell
og hvort reisa ætti fyrsta álverið á Íslandi.
Utan þings voru tveir kraftmiklir baráttumenn fyrir
þeirri stefnubreytingu, sem þarna var í mótun í at-
vinnumálum Íslendinga. Það voru
Jóhannes Nordal, sem þá var orðinn
seðlabankastjóri og stjórnar-
formaður Landsvirkjunar, og Eyj-
ólfur Konráð Jónsson, einn af þrem-
ur ritstjórum Morgunblaðsins.
Með því að hlusta á umræður
þeirra í milli varð mér ljóst að þeir
sóttu innblástur í þessari baráttu til Einars Benedikts-
sonar, skálds, sem einna fyrstur manna sá fyrir sér
mikil orkuver rísa á Íslandi. Þeir Jóhannes og Eykon
voru að berjast fyrir því að hugsjónum hans yrði hrint
í framkvæmd.
Skáldið kom hins vegar ekki við sögu á morgunfundi
Landsvirkjunar á dögunum en ekki úr vegi að fyrir-
tækið haldi því til haga að rætur þess má rekja rúm-
lega hundrað ár aftur í tímann, til hugsjóna Einars
Benediktssonar.
Næstu áratugi urðu áfram harðar deilur um stór-
virkjanir og stóriðju en smátt og smátt breyttust for-
sendur fyrir þeim deilum og þar kom að umhverfis-
málin urðu meginálitaefnið en ekki hvort við værum að
hleypa erlendum auðhringum inn í landið og selja
þeim orku á of lágu verði.
Eftir að sigur vannst í þorskastríðunum við Breta
var farið að huga meira að uppbyggingu fiskistofnanna
við landið og kannski má segja að aðhald umhverfis-
verndarsinna í umræðum um stórvirkjanir hafi verið
slíkt uppbyggingarstarf í annarri mynd vegna þess að
óspillt náttúra landsins er auðvitað undirstaðan að því
að á þessari öld hefur orðið til nýr undirstöðu-
atvinnuvegur, sem er ferðaþjónustan.
Á ráðstefnu um sjávarútvegsmál í Hörpu um miðjan
nóvember sl. varð ljóst að sjávarútvegurinn hefur
gengið í endurnýjun lífdaga og er allt önnur og
breiðari atvinnugrein en áður.
Upplifunin á ráðstefnu Landsvirkjunar á dögunum
var sú, að það sama væri að gerast í orkugeiranum,
þar væru að verða breytingar, sem væru að breikka
mjög og efla þennan þátt í atvinnulífi þjóðarinnar.
Um þann þátt var fjallað í Viðskiptablaði Morgun-
blaðsins í fyrradag. Þar var rætt við Stefaníu G. Hall-
dórsdóttur, framkvæmdastjóra hjá Landsvirkjun, um
raforkusölu til gagnavera, sem nú kaupa um 6% þeirr-
ar orku, sem fer til svokallaðra stórnotenda. Um
gagnaverin segir Stefanía í þessu viðtali:
„Við höfum lengi átt viðskiptasamband við mjög
stóra og trausta kaupendur. Nú hafa bæst fleiri fyrir-
tæki á listann og þau hafa aðrar þarfir. Þau þurfa
meiri sveigjanleika í viðskiptum við okkur og einkenni
á þessari starfsemi er að þau byrja gjarnan smátt, t.d.
í 10 MW í fyrsta áfanga en færa sig á nokkrum árum
upp í 50-60 MW.“
Gagnaverin koma greinilega víða við sögu því að
Stefanía segir:
„...en gagnaverin hér á Íslandi
eru t.d. nýtt í bílaiðnaði en einnig í
lyfjahermum sem notast er við í
stað lyfjaprófana á fólki. Þar er um
að ræða svokallaða ofurtölvureikn-
inga sem alþjóðleg stórfyrirtæki
nýta í sífellt meira mæli.“
Ráðstefna Landsvirkjunar sýndi að við erum ber-
sýnilega á réttri leið í uppbyggingu margvíslegs iðn-
aðar, sem byggist á orku fallvatnanna og að það er
hægt að nota hana til fleiri þarfa en að knýja álver.
Fyrir samfélag okkar er gríðarlega mikilvægt að
svo mikil endurnýjun skuli hafa orðið og standa yfir
bæði í sjávarútvegi og orkuiðnaði. Og augljóst að hún
byggist að verulegu leyti á nýjum kynslóðum Íslend-
inga, sem hafa haft meiri og betri tækifæri til mennt-
unar en eldri kynslóðir. Menntunin er að skila sér.
Á næstu árum hlýtur athyglin að beinast í stór-
auknum mæli að ferðaþjónustunni, sem er að slíta
barnsskónum. Þar eru alls konar byrjunarvandamál á
ferð, sem takast þarf á við strax, en þegar horft er yfir
atvinnulífið allt er ástæða til bjartsýni.
Það er mikilvægt vegna þess að það er orðið brýnt
að takast á við annars konar vandamál, sem tengjast
bæði félagslegum þáttum og líka því, sem kalla má sál-
arlífi þjóðarinnar. Þar eru á ferð viðfangsefni, sem
hafa verið vanrækt og snúa ekki sízt að yngri kyn-
slóðum.
Vandamál æsku Íslands á 21.öldinni eru annars kon-
ar en áður hafa verið til staðar en ekki auðveldari við-
ureignar. Og kannski er svolítið erfitt fyrir eldri kyn-
slóðir að skilja þau.
En einmitt þess vegna er það átak í barnamálum,
sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barna-
málaráðherra, setti af stað í upphafi ráðherraferils
síns og Erna Kristín Blöndal, lögfræðingur, leiðir, um
snemmtæka íhlutun í málefnum barna, líklega miki-
vægasta mál, sem er á dagskrá núverandi ríkis-
stjórnar.
Orkugeirinn í endurnýjun
Landsvirkjun á að
halda hlut Einars skálds
Benediktssonar til haga.
Af innlendum
vettvangi …
Styrmir Gunnarsson
styrmir@styrmir.is
Vel færi á því í íslenskri tungu aðkalla það, sem Þjóðverjar nefna
Wohlfartsstaat og Bretar welfare
state, farsældarríki, en nafnið vel-
ferðarríki er líklega orðið hér rót-
fast, þótt af því sé erlendur keimur.
Átt er við ríki, þar sem margvíslegur
bótaréttur hefur tekið við af hefð-
bundinni fátækraframfærslu. En
hvað sem króginn er kallaður, leikur
enginn vafi á um faðernið. Þýski
járnkanslarinn Otto von Bismarck
er jafnan talinn faðir velferðarríkis-
ins.
Bismarck varð kanslari hins sam-
einaða þýska keisaraveldis í janúar
1871 og tók þegar til við að treysta
ríkisheildina og berja niður þá, sem
hann taldi ógna völdum sínum.
Fyrst sneri hann sér að kaþólsku
kirkjunni, sem laut að hans dómi er-
lendu valdi, leysti upp Kristmunka-
regluna, sleit stjórnmálasambandi
við Páfagarð, hóf eftirlit með trúar-
bragðafræðslu í skólum, skyldaði
fólk til að ganga í borgaralegt hjóna-
band og varpaði jafnvel nokkrum
óhlýðnum biskupum í fangelsi.
Kirkjan tók snarplega á móti, en eft-
ir margra ára þóf náði járnkanslar-
inn samkomulagi við hana.
Næst sneri Bismarck sér að sósí-
alistum, en þýski jafnaðarmanna-
flokkurinn hafði verið stofnaður
1875, og hlaut hann 9% atkvæða í
kosningum til þýska Ríkisdagsins
1877. Notfærði Bismarck sér, að árið
1878 var tvisvar reynt að ráða keis-
arann af dögum, og takmarkaði með
lögum ýmsa starfsemi flokksins.
Voru þau lög í gildi næstu tólf ár. En
jafnframt reyndi Bismarck að kippa
stoðunum undan jafnaðarmönnum
með því að taka sjálfur upp ýmis
baráttumál þeirra. Árið 1883 voru
sjúkratryggingar teknar upp í
Þýskalandi og árið 1884 slysatrygg-
ingar. Elli- og örorkutryggingar
voru teknar upp 1889, ári áður en
Bismarck hrökklaðist frá völdum.
Fóru mörg önnur ríki næstu áratugi
að fordæmi Þjóðverja.
Ekki varð hinum grálynda kansl-
ara að þeirri von sinni, að í velferðar-
ríkinu þryti jafnaðarmenn erindi.
Þeir uxu upp í að verða um skeið
stærsti flokkur Þýskalands. Og af-
kvæmi hans, velferðarríkið, óx líka
ört á tuttugustu öld. Er það líklega
víða orðið ósjálfbært, og rætist þá
vísuorðið: Í draumi sérhvers manns
er fall hans falið.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is
Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð
Faðir velferðar-
ríkisins
Norðurgrafarvegur 4 - 116 Kjalarnes
Lager- og iðnaðarhúsnæði við Norðurgrafarveg 4 á
Esjumelum. 150 m2 iðnaðarbil, þar af ca 50 m2
milliloft, til leigu við Norðurgrafarveg. Frágangur á
húsinu er mjög góður, málað gólf, burðarmikið
milliloft, hitablásari í lofti, 3ja fasa rafmagn til
staðar og salerni. Niðurföll eru í gólfi. Háar
innkeyrsludyr eru á húsnæðinu (4,8 m).
Góð aðkoma. Laust strax.
Fallegt ca 206 m2 raðhús með bílskúr, þar af
eru ca 60 m2 óskráðir í ósamþykktum kjallara.
Eignin skiptist í fjögur svefnherbergi, forstofu,
baðherbergi, gestasnyrtingu/þvottahús, eldhús,
sjónvarpshol, stofu, borðstofu og bílskúr. Í
kjallara er stórt gluggalaust herbergi, geymsla
og þvottahús með sturtuaðstöðu. Eignin hefur
verðið mikið endurnýjuð á síðustu árum. Eignin
er skráð hjá Þjóðskrá Íslands 146,6 m2, þar af
íbúð 118,6 m2 og bílskúr 28 m2. Kjallari er
óskráður. V. 67,9 m.
Einar Páll Kjærnested, löggiltur fasteignasali
Þverholti 2 // Mosfellsbæ // Sími 586 8080
fastmos.is // fastmos@fastmos.is
Svanþór Einarsson
Löggiltur fasteignasali
S. 698 8555
Sigurður Gunnarsson
Löggiltur fasteignasali
S. 899 1987
Opið hús í dag laugardag frá kl. 15:00 til 15:30
Stóriteigur 19 - 270 Mosfellsbær
Til
leigu