Morgunblaðið - Sunnudagur - 17.02.2019, Page 34
34 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17.2. 2019
LESBÓK
Jane Austen á meðal kvenna“ er yfirskrift fyrirlesturs sem AldaBjörk Valdimarsdóttir, dósent í
almennri bókmenntafræði við
Háskóla Íslands, heldur í Veröld á
þriðjudag kl. 16.30. Þar ræðir hún
um nýútkomna bók sína Jane Austen
og ferð lesandans – Skáldkonan í
þremur kvennagreinum samtímans,
en verk Austen hafa aldrei verið vin-
sælli en nú á tímum. Bókin byggist
að stórum hluta á doktorsrannsókn
Öldu um Austen, en hún lauk dokt-
orsnámi frá Háskóla Íslands 2014. Í
bókinni beinir Alda sjónum sínum að
því hvernig ímynd Austen lifir áfram
innan þriggja bókmenntagreina sem
löngum hafa verið tengdar konum og
njóta gríðarlegrar hylli, þ.e. í ástar-
sögum, skvísusögum og sjálfshjálp-
arritum. Hún fjallar um þessar þrjár
bókmenntagreinar og hvernig hver
um sig tekur upp afmarkaða þætti úr
verkum skáldkonunnar um leið og
þær einfalda og skýra ímynd hennar.
„Í fyrirlestrinum mun ég beina
sjónum mínum sérstaklega að sjálfs-
hjálparmenningunni og hlutverki
Austen sem leiðbeinanda, aðallega í
lífi kvenna. Í sjálfshjálparbókunum
sem ég rannsakaði er horft til Austen
um ráðleggingar í samskiptum
kynjanna og leitinni að ástinni,“ segir
Alda og bendir á að sjónarmið höf-
unda hafi verið að bækur Austen
væru hentugar fyrir nútímakonuna
þrátt fyrir að vera skrifaðar fyrir 200
árum. „Enda eru sjálfshjálparbækur
í eðli sínu oft íhaldssamar þegar
kemur að samskiptum kynjanna,“
segir Alda og tekur fram að hún
skoði líka sjálfshjálparbækur þar
sem lífssýn Austen auðveldar ein-
staklingum að öðlast sjálfsþekkingu.
„Leitin að sjálfsþekkingu og ást-
inni fer reyndar oft saman. Þetta eru
bækur þar sem Austen er lesin sem
viskubrunnur hjá fólki sem á í erfið-
leikum í lífi sínu. Þetta eru sjálfs-
ævisögur og skáldsögur sem miðla
leit að tilgangi, ekki síður en ferða-
sögur þar sem farið er á slóðir Aust-
en eða á tökustaði kvikmynda og
sjónvarpsþáttaraða svo að hægt sé
að komast í nánari tengsl við skáld-
konuna Jane Austen með því t.d. að
fara í sömu göngutúra og hún eða
snerta borðið sem hún skrifaði við,“
segir Alda og bendir á að í slíkum
bókum er lesandinn að styrkja
tengslin við sjálfan sig og fræðast um
leið.
Tilfinningaleg sjálfsstjórn
Að mati Öldu er sú heimspeki sem í
bókum Austen býr að mörgu leyti
andstæð nútímahugsunarhætti.
„Austen leggur áherslu á mikil-
vægi þess að stýra tilfinningum sín-
um meðan samtíminn hampar hvat-
vísi. Út frá sjálfshjálparkúltúrnum
boðar samtíminn skyndilausnir en
ekki tilfinningalega sjálfsstjórn sem
Austen boðar í sögunum sínum þar
sem skynsemi og ást fara saman í
makavalinu. Þannig að þó ástin sé
mikilvæg þá þarf skynsemin og rök-
hugsunin að fylgja með líka,“ segir
Alda og bendir á að Austen afhjúpi
mannlegt eðli í bókum sínum.
„Makarnir sem konurnar velja
eiga það sameiginlegt að vera heið-
arlegir og ábyrgir. Austen leggur
áherslu á hluti sem farið hafa halloka
í samtímanum, eins og hollustu,
ábyrgð og skyldur. Við erum svo
mikið í skyndilausnum og tilfinn-
ingalegri dramatík. Það hvernig hún
afhjúpar mannlegt eðli getur líka
hjálpað okkur betur að skilja mann-
eskjuna. Sem höfundur tekst hún á
við hræsni, óheiðarleika, siðblindu og
heimsku, oft með hliðsjón af sam-
skiptum kynjanna,“ segir Alda og
bendir á að forvitnilegt sé að skoða
hvers vegna nútímafólk sæki jafn-
mikið í bækur Austen og raun ber
vitni.
Femínistinn Austen
„Þetta eru sögur af konum sem höfðu
mjög lítil réttindi miðað við nútíma-
konuna. Í bókum sínum hefur Austen
mestan áhuga á þeim tíma í ævi kon-
unnar þar sem hún var hvað valda-
mest og gat tekið mikilvægar
ákvarðanir um líf sitt, það er þegar
hún hafði vald til að hafna eða játast
karlmanni,“ segir Alda og bendir á að
í því ljósi megi hiklaust skilgreina
Austen sem femínista.
„Auðvitað er hún lituð af því að
hún tilheyrir allt öðrum heimi en
okkar. Hún tilheyrir veruleika þar
sem konur hafa ekki sömu réttindi og
konur á Vesturlöndum í dag. En í
bókum sínum beinir hún athyglinni
að lífi, reynslu og hugsunarhætti
kvenna. Henni tekst að búa til miklar
bókmenntir úr kvennareynslu sem af
karlveldinu er talin léttvæg, hvers-
dagsleg og merkingarlaus.“
Spurð hvort hún telji að Austen
hafi getað látið sig dreyma um að
verða sá áhrifavaldur sem hún er enn
í dag 200 árum eftir andlát sitt svarar
Alda því neitandi.
„Það er ekki fræðilegur möguleiki
á því að hana hafi grunað að hún yrði
jafnmikið lesin og rýnd. Hún var
augljóslega metnaðarfullur rithöf-
undur, en heimildum ber saman um
að hún hafi ekki verið upptekin af
frægð og frama. Bækur hennar voru
orðnar nokkuð vinsælar áður en hún
dó, en það vissu fáir hver hún var þar
sem hún skrifaði ekki undir nafni,“
segir Alda og rifjar upp að það hafi á
tímum Austen ekki þótt eftirsóknar-
vert fyrir konur að vera rithöfundar.
„Í ljósi þess að Austen tilheyrði
ekki höfundaklíku eða vel skilgreindi
bókmenntakreðsu og var ekki að
skrifa fyrir ákveðinn lesendahóp þá
virðist hún hafa fengið pláss til að
þroskast sem höfundur á sínum for-
sendum. Að þessu leyti hefur hún
verið frjáls og gat sagt þær sögur
sem hana langaði að segja.
Mögulega hafði þetta frelsi aftur
áhrif á það hversu hratt hún þrosk-
aðist sem höfundur,“ segir Alda og
bendir á að Austen hafi verið ótrú-
lega afkastasöm miðað við að hún
lést aðeins 41 árs og skrifaði lítið sem
ekkert þau ár þegar hún bjó í Bath
og síðar þegar hún átti sér ekki fast-
an samastað, allt fram til 1809.
Lagði mikla vinnu í útlitið
Jane Austen og ferð lesandans var
valin fræðirit ársins í úttekt Árna
Matthíassonar fyrir Morgunblaðið
um síðustu áramót. Í seinasta mán-
uði var bókin jafnframt ein tíu bóka
sem tilnefndar eru til Viðurkenn-
ingar Hagþenkis, félags höfunda
fræðirita og kennslugagna, fyrir árið
2018. Í umsögn dómnefndar um bók-
ina segir: „Ítarleg og áhugaverð
rannsókn á ímynd Jane Austen í
samtímanum og áhrifum hennar á
kvennamenningu, einkum ástar-
sögur, skvísusögur og sjálfshjálp-
arbækur.“ Spurð hvaða þýðingu til-
nefningin hafi segist Alda gleðjast
fyrir hönd bókarinnar. „Hún er farin
sína leið en ég vona að sem flestir
geti notið hennar,“ segir Alda og tek-
ur fram að hún hafi hugsað bókina
sem grip sem höfðað gæti til breiðari
hóps en rúmast innan akademíska
samfélagsins, en sem fyrr segir
byggist bókin á doktorsrannsókn
Öldu.
„Þegar kom að útgáfunni valdi ég
að einfalda ákveðna hluti, stytta og
þjappa til að gera bókina aðgengi-
legri, enda á sumt af því efni sem á
heima í doktorsritgerð ekki heima í
fræðibók fyrir almennan lesanda. Ég
hugsaði mikið um bókina sem prent-
grip og lagði því mikla vinnu í útlit
hennar og myndvinnslu. Ég vildi að
þetta væri bók sem gaman væri að
fletta og fannst því mikilvægt að hafa
myndirnar í lit. Einnig langaði mig til
að kynna Austen-iðnaðinn sem er
auðveldara með ljósmyndum og
myndatextum,“ segir Alda og bendir
á að eðli málsins samkvæmt fjalli bók
hennar að stórum hluta um dægur-
menningu, ekki síður íslenska en er-
lenda þar sem flestir þekkja vel
þennan heim.
„Henni tekst að búa til miklar bók-
menntir úr kvennareynslu sem af karl-
veldinu er talin léttvæg, hverdagsleg og
merkingarlaus,“ segir Alda Björk Valdi-
marsdóttir um Jane Austen.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Afhjúpar mannlegt eðli
Alda Björk Valdimarsdóttir ræðir um skáldkonuna Jane Austen og hvernig ímynd hennar lifir áfram innan þriggja bókmennta-
greina í fyrirlestri í Veröld á þriðjudag. Bók hennar um skáldkonuna var nýverið tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis.
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is
Í efri röð eru tvær myndir Cassöndru Austen af systur sinni, skissan til vinstri
er frá um 1810 og vatnslitamyndin frá 1804. Í neðri röð er til vinstri skurðar-
rista af Jane Austen eftir Everet A. Duyckink frá 1873 og andlitsmynd frá 1870.