Morgunblaðið - 23.02.2019, Blaðsíða 34
34 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 23. FEBRÚAR 2019
Orðið vinátta er
mér efst í huga nú
þegar ég skrifa
þessi kveðjuorð um
vin minn Ástþór Ragnarsson.
Elanor Roosevelt lýsti vinátt-
unni með þessum orðum: „Mjög
margt fólk kemur við sögu í lífi
þínu. Sumir dveljast þar lengi
en aðrir staldra bara stutt við.
En einungis þeir sem eru raun-
verulegir vinir þínir fara aldrei
burt úr hjarta þér.“ Ég skil svo
vel hvað hún átti við þegar ég
kveð þennan góða mann og
kæra vin.
Það eru næstum 30 ár liðin
síðan við Bói kynntumst og með
okkur tókst vinátta sem aldrei
bar skugga á.
Þegar ég var að gera upp hús
á Klapparstíg, Grjótagötu,
Laugavegi og loks sumarhúsið
okkar á Brekku var hann mér
ómetanlegur, með aðstoð sína
og svo góð ráð um hvernig best
væri að standa að verkinu og
ljúka því. Og ég veit að ég var
ekki sá eini sem hann veitti
svona ráð og svona stuðning því
að hann sagði aldrei nei við
neinn sem til hans leitaði.
Við gerðum líka margt annað
saman og minningarnar eru
fjölmargar og skemmtilegar.
Við ferðuðumst saman víða um
lönd og ég fékk í einni þeirra
skemmtilegt tækifæri sem mér
þótti mjög vænt um að sýna
þeim Betu hvar rætur mínar í
Englandi liggja.
Vikulega spiluðum við brids
og stundum lauk þeim kvöldum
með því að Bói tjáði sig á sinn
einstaka hátt, sló hressilega í
borðið ef ekki allt gekk að ósk-
um, en Beta náði alltaf strax að
létta stemninguna eins og henni
einni er lagið.
Bói var einstakur maður sem
hafði svo mikið að gefa öðrum
og var alltaf boðinn og búinn að
hjálpa öllum þeim sem voru svo
heppnir að þekkja hann.
Vertu sæll vinur minn.
Paul Newton.
Það er erfitt að sjá á bak
góðum vini og félaga, en því
miður er það raunin þar sem
Ástþór Ragnarsson vinur minn
Ástþór
Ragnarsson
✝ Ástþór Ragn-arsson fæddist
4. maí 1946. Hann
lést 9. febrúar
2019.
Útför Ástþórs
fór fram 22. febr-
úar 2019.
og félagi til margra
ára var kallaður á
braut í einni svip-
an. Það er sorg-
legra en orð fá lýst.
„Bói“ var vin-
margur og vinur
vina sinna. Úr-
ræðagóður, vand-
virkur, hörkudug-
legur og hjálp-
legur.
Kynni okkar Bóa
hófust í Iðnskólanum í Hafn-
arfirði fyrir hartnær 20 árum.
Fljótlega upp úr því fórum við
að spila saman golf, nokkrir
vinnufélagar. Þó vettvangur
vinnunnar hafi stefnt okkur í
ýmsar áttir gegnum tíðina höf-
um við þrír haldið hópinn frá
upphafi. Þær eru ófáar ánægju-
stundirnar sem við Bói og
„Steini“ (Þorsteinn Haraldsson)
eigum að baki á þeim vettvangi.
Og aldrei fallið skuggi á vin-
skapinn. Það var einn morgunn
í nóvember sl. að við mættum á
Korpuvöllinn sem oftar og útlit
fyrir sólríkan dag, hitastigið
3-4°. Við Steini mættir á teig í
vetrarklæðum og dokuðum við
eftir Bóa. Hann kom eins og
stormsveipur léttklæddur í
stuttbuxum eins og ekkert væri
sjálfsagðara. Við lékum níu hol-
ur, það snjóaði aðeins um tíma
áður en yfir lauk. Engum var
kalt í hollinu eftir leik en þetta
segir hvern harðjaxl Ástþór
hafði að geyma og ekki var
djúpt á gáskanum.
Heimsóknir í „skúrinn“, þar
sem oft var leitað ráða og
spjallað, gleymast ei. Uppáhell-
ingar hjá Vigdísi í Sigluvoginum
oft kærkomnar og verða hafðar
í minnum.
Elísabet, Erna, Gauti og ykk-
ar fjölskyldum vil ég, fyrir hönd
okkar Vigdísar, votta okkar
dýpstu samúð. Megi minning
um góðan dreng lifa.
Matthías Nóason.
Góður félagi, vinur og sam-
starfsmaður, Ástþór Ragnars-
son, er skyndilega fallinn frá.
Ástþór var litríkur samstarfs-
maður, skemmtilegur og gríð-
arlega fróður um list og list-
hönnun. Hann er örugglega
öllum samstarfsmönnum og
nemendum í IH mjög eftir-
minnilegur. Við unnum saman
við kennslu í Iðnskólanum í
Hafnarfirði í mörg ár, hann var
kraftmikill og gefandi kennari,
miðlaði af sinni yfirgripsmiklu
þekkingu og náði afar vel til
nemenda. Hann var litríkur og
skemmtilegur í þess orðs fyllstu
merkingu, var alla jafna með
hatt og slaufu þegar hann var
að kenna, og líka í annan tíma
sem var skemmtilegt og ein-
kennandi fyrir hann. Svo
skemmtilegt að Janus samkenn-
ari okkar og ég ákváðum uppúr
2000 að stofna hatta- og slaufu-
vinafélag Ástþórs meðal starfs-
manna í Iðnskólanum. Var sú
hefð við lýði í nokkur ár. Höfðu
allir mjög gaman af þessu uppá-
tæki og ekki síst Ástþór.
Við Ástþór vorum saman með
evrópskt Comeníusar-sam-
starfsverkefni frá árinu 2003.
Var Iðnskólinn þar í samstarfi í
þrjú ár við verslunarskóla í Ve-
liko Turnovo í Búlgaríu og iðn-
skóla í Rendsburg Þýskalandi.
Þetta var hönnunar- og mark-
aðssetningarverkefni sem var
stjórnað af okkur í Iðnskólanum
í Hafnarfirði, verkefnið gekk
mjög vel, fékk góða umsögn og
átti Ástþór mikinn þátt í þeirri
velgengni með dugnaði sínum
og elju.
Ástþór var góður samstarfs-
og ferðafélagi. Það var sérlega
gott að vinna með honum, gam-
an að ferðast með honum og
fara á hönnunarsöfn, sem við
gerðum talsvert af í þessum
ferðum okkar. Ástþór var haf-
sjór af fróðleik um iðnhönnun,
hina ýmsu hönnuði og stílbrigði
og sagði skemmtilega frá og
tengdi fróðleik milli tímabila og
stíla. Eru þessar ferðir verð-
mætar í sjóði minninganna.
Ég er þakklátur fyrir að hafa
heimsótt Ástþór fyrir skemmstu
og áttum við þar gott og gef-
andi spjall.
Kæri samstarfsmaður, vinur
og félagi, blessuð sé minning
þín.
Guð blessi og styrki fjöl-
skyldu Ástþórs á þessum erfiðu
tímum.
Henrý Þór.
Horfinn er af hinu jarðneska
sjónarsviði minn ástkæri vinur,
Ástþór Ragnarsson (Bói), húsa-
smíðameistari og iðnhönnuður,
en hann andaðist skyndilega
laugardaginn 9. febrúar sl.
Okkar góði vinskapur hafði
staðið í rúmlega 60 ár og aldrei
borið skugga á.
Við höfðum verið saman í
Langholtsskóla og síðar í Voga-
skóla, enda áttum við heima í
Vogahverfinu. Þrettán ára
gamlir fluttum við með stuttu
millibili í Stigahlíðina. Við feng-
um þó að halda áfram í fyrra
skólaumhverfi, enda þekktum
við þar best til. Þessir flutn-
ingar tengdu okkur nánar sam-
an og vinskapur okkar og allur
samgangur jókst jafnt og þétt.
Síðan tóku unglingsárin við,
oft með tilheyrandi gleði,
glaumi og fjöri og við reyndum
með öllum ráðum að komast inn
á skemmtistaði, eins og
Glaumbæ, þó að við hefðum
ekki aldur til.
Eftir nám í gagnfræðaskóla
skildi leiðir hvað skólagöngu
varðar. Bói fór í verknám, ég í
Verzló.
Þetta var nú stuttur formáli
um æskuárin góðu. Að loknu
iðnnámi hóf Bói síðan störf við
smíðar, fyrst á Reykjavíkur-
svæðinu og síðan í Ólafsvík og
Grundarfirði. Þegar hér var
komið sögu hafði Bói kvænst
Betu sinni og eignast með henni
tvö börn. Árið 1975 lá leið fjöl-
skyldunnar til Noregs, þar sem
Bói lærði iðnhönnun sem átti af-
ar vel við sköpunargáfur hans.
Við heimkomu frá Noregi starf-
aði Bói bæði við smíðar og iðn-
hönnun. Síðasta fasta starf Bóa
var við Iðnskólann í Hafnarfirði,
eins og hann hét þá, þar sem
hann kenndi ýmsar greinar, að-
allega í tengslum við iðnhönnun.
Naut hann mikilla vinsælda
þeirra nemenda sem hann
kenndi.
Alltaf héldum við góðu og
nánu sambandi þó stundum hafi
kastast í kekki á milli okkar,
kannski aðallega út af stjórn-
málum, en við vorum nú eig-
inlega hvor á sínum kantinum í
þeim efnum. Það var síðan sam-
eiginleg ákvörðun okkar fyrir
nokkrum árum að hætta öllu
pólitísku þrasi og leyfa bara
hvor öðrum að hafa sína skoðun
í því sambandi.
Hjónaband Bóa og Betu í
u.þ.b. fimmtíu ár var mjög far-
sælt og þeim báðum gæfuríkt.
Bói var mikill fagurkeri og
unnandi flestra listgreina og var
mjög vel inni í listaheiminum,
hvort sem um var að ræða
myndlist, höggmyndalist eða
hönnun og reyndar svo margt
fleira. Sjálfur var Bói flinkur
teiknari, bæði í leik og starfi.
Eitt sem einkenndi Bóa sér-
staklega var einstök greiðvikni
og hjálpsemi við aðra og var þá
ekki alltaf verið að kalla eftir
verðskulduðum verklaunum.
Ég kveð nú minn einstaka og
vel gerða félaga. Mér þótti
vænna um hann en flesta aðra
og leit á hann í raun sem kær-
leiksríkan bróður, sem reyndist
mér alltaf afskaplega vel og var
annar minna tveggja bestu vina,
sem nú hafa báðir kvatt jarð-
vistina. Og þó að sorg mín sé
mikil og raunar yfirþyrmandi
þá er það bara hjóm eitt í sam-
anburði við hvað nánasta fjöl-
skylda Bóa míns þarf nú að
þola. Ég og dóttir mín, Eygerð-
ur Inga, vottum Betu, eiginkonu
hans, börnum þeirra Gauta og
Ernu, barnabörnum og systrum
hans okkar dýpstu samúð og
vonum að tíminn muni lækna
einhver sár.
Þinn vinur um aldur og ævi,
Hafþór Ingi Jónsson.
Kæri vinur. Þín er sárt sakn-
að, ekki átti ég von á að þú
myndir kveðja svona fljótt. Allt-
af gátum við átt gott samtal og
leyst sameiginlega hinar ýmsu
þrautir bæði í leik og starfi.
Eins og verða vill var ekki
alltaf tími til að hittast og
spjalla en ef langur tími leið
komst alltaf á samband aftur.
Alltaf varst þú boðinn og búinn
að bjóða í mat eða hittast ein-
hvers staðar yfir kaffibolla og
spjalla um menn og málefni.
Spaugilegu hliðar mannlífsins
gátu verið umræðuefnið og oft
var hlegið. Stundum tókum við
okkur til og fórum á námskeið
eða í fjallgöngur eða bara eitt-
hvað annað og aldrei vantaði
kappsemina og áhugann á verk-
efnunum.
Oft vorum við í því að lána
hvor öðrum verkfæri eða hjálpa
hvor öðrum við það sem við
kunnum. Alltaf varst þú mjög
hjálplegur og fórnfús við að
leggja þitt af mörkum, sérstak-
lega ef þú vissir að einhver
þurfti á aðstoð þinni að halda,
þú varst tilbúinn að koma og
drífa hluti af stað.
Oft voru notaðar þrívíðar
teikningar til að byrja með, svo
var hægt að gera líkan af því
sem átti að gera, þar á eftir var
kannski fundur um málið og svo
þegar hafist var handa var
greinilegt að þarna voru líka
kraftar miklir og ekkert verið
að láta eitthvað stoppa sig.
Þegar kom að því að fara í og
skipuleggja mánaðarlangt
ferðalag um Asíu og Evrópu
fyrir um átta árum var engum
betur treyst fyrir því en þér og
máttum við Ólafur Guðmunds-
son vita að án þín hefðum við
ekki farið og ferðalagið ekki
orðið jafn gott og raun bar
vitni.
Þetta ferðalag var bara eitt
af þeim fjölmörgu sem þú fórst
í þar sem ekki var verið að fara
í afslöppunarferðir heldur þurfti
að skoða svo ótal margt, húsa-
gerð, listasögu, menningu, hús-
gögn, mat og matarvenjur, því
þú hafðir yndi af að smakka á
þeim mat sem var í boði á
hverjum stað.
Ég vil þakka Ástþóri og fjöl-
skyldu fyrir áralanga vináttu.
Viljum við fjölskyldan votta
Elísabetu, Gauta, Ernu og
þeirra fjölskyldum innilega
samúð.
Kolbeinn Guðmundsson.
Ef síminn hringdi snemma á
sunnudagsmorgni þá kom bara
einn til greina en það var hann
Ástþór vinur minn, það var nú
ekki alltaf í uppáhaldi á heim-
ilinu en nú á ég eftir að sakna
þess. Oftar en ekki var það ein-
hver annar en ég sem svaraði
og spurt var um strákinn. Ást-
þór átti það nefnilega til að
hringja snemma af því að hann
var byrjaður að brasa eitthvað
og vantaði smá hönd. Eins ef
hann náði ekki í mig í farsím-
ann, þá hringdi hann í heima-
símann og vildi vita hvort
drengurinn væri ekki með rass-
vasasímann. Verkefnin voru iðu-
lega fyrir einhvern annan en
hann sjálfan enda bóngóður og
lausnamiðaður.
Ég kynntist Ástþóri í Iðn-
skólanum í Hafnarfirði þar sem
hann stýrði, ásamt Þorkeli G.
Guðmundssyni, listnámsbraut
um árabil. Ástþór lét ekki segja
sér hvernig hann ætti að gera
hlutina heldur fór sínar eigin
leiðir sem voru oftar en ekki
hárréttar og ekki að allra skapi.
Hann var stundum eins og
fíll í postulínsbúð en samt mjög
næmur á nánasta umhverfi sitt,
á liti, útfærslur og form. Hönn-
un og allskonar útfærslur voru
honum hugleiknar og áttum við
fjölmargar rökræður um hin
ýmsu mál sem ekki alltaf leyst-
ust og vorum við alls ekki alltaf
sammála um alla hluti. Ástþór
átti líka sína frasa eins og má
bjóða þér „bjóri“ þá voru það
gjarnan 500 ml af einhverjum
framandi bjór eða einhverri teg-
und sem ekki var algeng hér
heima.
Það var alltaf gott að koma í
skúrinn hans eða verkstæðið,
skoða nýjustu pælingarnar eða
bara hlusta á eitt blúslag. Verk-
færi voru í sérstöku uppáhaldi
og því skrítnari því merkilegri,
tiltekt og skipulag einkenndi
hann og rétt niðurröðun verk-
færa og „tilbehör“ einkenndi
hann sem undirritaður mætti
taka til sín. Það besta við að
vinna með honum var hversu
vel undirbúinn hann ávallt var,
teikningar og riss, allt útpælt.
Og það gekk undan honum al-
gjörlega í samræmi við stærð
hans. Á sínum yngri árum
byggði hann alls konar hús og
gerði einnig upp fullt af eldri
húsum, það eru eflaust margir
sem eru sammála mér í hversu
mikill vinnuþjarkur hann var.
Mikill matmaður; þá einna
helst sushi og því sterkara því
betra. Fiskur var líka í uppá-
haldi og kenndi hann mér
margt um lauflétta elda-
mennsku á allskonar fiskmeti.
Ferðalög áttu stóran sess í
hans lífi, Japan og japanskt
handverk var í miklu uppáhaldi
og ferðalög með Óla vini sínum
til framandi landa. Skipulag
hans kom þar vel fram flug,
lestarferðir, rútuferðir, gisting í
heimahúsum og framandi matur
var honum að skapi. Við skoð-
uðum þúsundir mynda af mat,
hurðum, byggingum, fólki,
hönnun og svona mætti lengi
telja. Ferðalögin með Betu áttu
líka pláss og heimsóknir til
Ernu hvar sem hún var.
Hann var traustur vinur sem
alltaf var hægt að leita til með
hvað sem var, aldrei stóð á svari
„ég er til“.
Nú er því miður komið að
leiðarlokum, mér finnst við
samt eiga eftir að gera svo mik-
ið saman, kæri vinur.
Ég gaf þér köttinn í sjötíu
ára afmælisgjöf, þú tekur hann
með þér!
Bless kæri vinur og sjáumst
síðar.
Elsku Beta, Erna, Gauti og
börn, innilegar samúðarkveðjur
til ykkar frá okkur Hlín. Missir
ykkar er mikill.
Hrafnkell Marinósson.
Ástþór var traustur vinur.
Við kynntumst er við kenndum
saman við Iðnskólann í Hafn-
arfirði. Við ræddum málin og
pældum í listsýningu nemenda
hvert vor, í þónokkur ár. Hann
hafði næmt auga listamannsins.
Skarpsýnn, glöggur og áræðinn.
Við lukum kennslu og hófum þá
fyrir alvöru að tengjast og tala
saman. Höfðum svipaða sýn á
tilveruna.
Hann var réttsýnn og hjálp-
samur. Ávallt reiðubúinn til að
rétta fram hönd öðrum til að-
stoðar. Hann var tryggur vinur
og hann passaði upp á að halda
mér við efnið. Að hittast og taka
stöðuna. Lífsstöðuna. Honum
var umhugað um fólk og far-
sæld þess. Skipti engu þó höf
skildu okkur að um tíma, alltaf
var hann í sambandi við mig og
áhugasamur um mín verkefni.
Maður er manns gaman. Hann
var Ástþór og reyndist mér vel.
Ég mun sakna vinar í stað.
Nærvera hans hverfur þó ei úr
huga. Það eitt er harla gott.
Megi kær vinur hvíla í friði.
Þórhallur Hólmgeirsson.
Við Ástþór Ragnarsson, eða
Bói einsog við frændsystkinin
kölluðum hann alltaf, unnum
saman í byggingarvinnu í Ólafs-
vík sumarið 1973, ég sem hand-
langari, hann smiður. Gott ef
hann útvegaði mér ekki starfið.
Ég hafði auðvitað oft áður hitt
Bóa í fjölskylduboðum, en það
var þetta sumar í Ólafsvík sem
við kynntumst fyrir alvöru. Síð-
an hafa leiðir okkar legið meira
og minna saman. Við vorum
báðir við nám í Ósló á áttunda
áratugnum og héldum þá góðu
sambandi. Eftir að heim kom að
afloknu námi hélst okkar góða
samband og vinátta.
Bói var mjög góður smiður,
mjög verklaginn og frábærlega
hjálpsamur. Þegar ég stóð í
verklegum framkvæmdum á
mínu heimili eða annars staðar
þá leitaði ég til Bóa til að fá góð
ráð og hjálp. Og þegar ég nú lít
í kringum mig á mínu heimili þá
sé ég svo glöggt að þau eru ófá
handtökin sem hann á þar.
Ég minnist þess þegar fyrsta
barnið okkar hjóna fæddist í
Noregi og efnin voru fremur
rýr, að þá hjálpaði Bói mér að
smíða vöggu fyrir frumburðinn.
Önnur minning frá Noregi er
um litla fjölskyldu með ungbarn
að flytja búslóðina sína upp á
fimmtu hæð í lyftulausu húsi í
Osló og enginn til að aðstoða;
þá birtist Bói allt í einu til að
bera með okkur búslóðina upp
alla stigana.
Bói var mikill listamaður og
hönnuður, skapandi og hug-
myndaríkur. Eftir hann liggja
margir nytjahlutir og listaverk.
Ég heyrði Bóa aldrei tala illa
um nokkurn mann. Hann var
mjög frændrækinn. Ekki síst
þótti honum litla fólkið í stór-
fjölskyldunni mikilvægt.
Bói var góður vinur. Mér
þótti vænt um hann og ég sakna
hans.
Innilegar samúðarkveðjur til
fjölskyldunnar.
Ástþór Gíslason.
Kær vinur okkar og félagi,
hann Bói, hefur kvatt okkur.
Blessuð sé minning hans. Við
söknum hans innilega
Minning þín er mér ei gleymd;
mína sál þú gladdir;
innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.
(Káinn)
Innilegar samúðarkveðjur,
elsku Beta, Gauti Þór, Erna og
fjölskyldur.
Kveðja,
Ingimar Þór og Þorgerður
(Gerða).
Við önnumst alla þætti undirbúnings og fram-
kvæmd útfarar ásamt vinnu við dánarbússkiptin.
Við þjónum með virðingu og umhyggju að
leiðarljósi og af faglegum metnaði.
Jón G. Bjarnason,
umsjón útfara
Við erum til staðar
þegar þú þarft á
okkur að halda
Útfararþjónusta
& lögfræðiþjónusta
Vesturhlíð 9, Fossvogi | Sími 551 1266 | útför.is
Með kærleik og virðingu
Útfararstofa Kirkjugarðanna