Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.02.2019, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.02.2019, Blaðsíða 34
Y firnáttúrulegur og gáskafullur barna- ogfjölskyldusöngleikur með fáránlegri at-burðarás sem gæti gerst í öðru hverju húsi á Akureyri,“ segir á vefsíðu Leikfélags Akureyrar um splunkunýtt verk, Gallsteinar afa Gissa, sem frumsýnt verður í Samkomuhús- inu kl. 13 í dag, laugardag. Með textanum er mynd af Karli Ágústi Úlfssyni leikara, með húfu og axlabönd, kampakátum að hampa – að því er virðist – gullmolum í krukku. Nema gallsteinar Gissa glói sem gull? Það getur nefnilega ýmis- legt gerst þarna fyrir norðan. En þó ekki það að Karl Ágúst sé kominn á fast með LA, þótt hann hafi haft þar vetursetu vegna hlutverks í söng- leiknum Kabarett, sem hann sjálfur þýddi og sýndur var í síðasta sinn í byrjun mánaðarins. Og nú Gissa afa. Eins og mörgum er kunnugt er Karl Ágúst ekki við eina fjölina felldur og því kemur ekki á óvart að auk þess að leika Gissa afa vann hann leikgerðina með Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, höfundi bókarinnar Gallsteinar afa Gissa frá árinu 2002, og samdi auk þess söngtextana. „Þegar LA ákvað að veðja á þetta verk og að ég léki Gissa, komumst við Kristín Helga fljót- lega að samkomulagi um að vinna leikgerðina saman, leikritið yrði söngleikur og ég semdi söngtextana, sem Þorvaldur Bjarni Þorvalds- son tónskáld gerði síðan lögin við,“ segir Karl Ágúst. Gallsteinar afa Gissa er þriðji söngleik- urinn sem þeir Þorvaldur hafa samið saman. Hinir eru Gosi frá árinu 2008 og Gulleyjan fjór- um árum síðar. Börn í burðarhlutverkum Auk Karls Ágústs leika í sýningunni undir stjórn Ágústu Skúladóttur þau Benedikt Karl Gröndal, Birna Pétursdóttir, Jóhann Axel Ing- ólfsson, María Pálsdóttir og Margrét Sverris- dóttir. Og síðast en ekki síst fjögur ungmenni í burðarhlutverkum: Þórgunnur Una Jónsdóttir, Steingerður Snorradóttir, Örn Heiðar Lárus- son og Daníel Freyr Stefánsson. Þau eru á aldr- inum tíu til fimmtán ára og skiptast á að fara með hlutverk systkinanna Grímu og Torfa. Eðli verksins samkvæmt þurfa allir leikararnir að vera til jafns vígir á söng og leik. „Afi Gissi syngur nokkur lög og með öðrum í sumum, en annars er allur gangur á því hverjir syngja saman. Tónlistin er einstaklega skemmtileg, yfirleitt fjörug en líka sorgleg því það skiptast á skin og skúrir hjá börnunum eins og gengur í lífinu,“ segir Karl Ágúst. „En það deyr enginn,“ bætir hann við og heldur áfram: „Sýningin er ágætlega feitur söngleikur með tólf söngnúmerum, vonandi með fyndnum text- um þegar það á við.“ Hann var fljótur til að verða sér úti um bók- ina þegar hann var beðinn um að leika afa Gissa. „Alveg ótrúlegt að hún skyldi hafa farið framhjá mér í ljósi þess að ég hef farið í gegnum tölu- verðan katalóg af barnabókum með börnunum mínum sem eru á ýmsum aldri, bæði lesið mikið fyrir þau og með þeim.“ Leist vel á leiðinlega fjölskyldu Karli Ágústi leist strax ljómandi vel á söguna um Torfa og Grímu, sem eiga virkilega leiðin- lega fjölskyldu, en til allrar hamingju athvarf hjá afa Gissa. „Ég hef alltaf haft gaman af skemmtilegum og innihaldsríkum sögum þar sem ímyndunaraflið fær að leika lausum hala. Bæði sagan og söngleikurinn Gallsteinar afa Gissa eru þess eðlis; ævintýri sem gerist í nú- tímanum.“ Samkvæmt lýsingu Karls Ágústs eru fjöl- skylduhagir söguhetjanna fullkomlega óvið- unandi. Í stuttu máli er mamma Torfa og Grímu skipanaglaður harðstjóri og ekki bætir úr skák að hún er með hollustuæði. Pabbinn er viðutan vinnusjúklingur og eldri bróðir þeirra ömurlegt unglingaskrímsli. Systkinin dreymir um af- slappað heimilislíf, gæludýr og gotterí. „Foreldrarnir eru mjög uppteknir af lífs- gæðakapphlaupinu og að líta vel út út á við og gleyma fyrir vikið að sinna börnunum almenni- lega. Þegar afi Gissi fær gallsteinakast fara þau systkinin að heimsækja hann á spítalann. Þar geymir hann gallsteinana í krukku á náttborð- inu og fullyrðir að þeir séu óskasteinar,“ segir Karl Ágúst, en vill ekki gefa allt of mikið upp. Að þessu sögðu má þó ráða að börnin óska sér öðruvísi fjölskyldu, algjörrar andstæðu sinnar eigin. Hins vegar fá leikhússgestir einir að vita hvort óskin rætist og með hvaða hætti. Gott að líta í eigin barm Spurður hvort sagan sem slík hafi eitthvað meira fram að færa en að vera skemmtun og af- þreying, segir Karl Ágúst heilmikinn boðskap í henni fólginn. „Án þess að ég vilji meina að for- eldrar hagi sér almennt eins og foreldrar þeirra Torfa og Grímu, þá held ég að allir foreldrar hafi gott af að sjá þennan söngleik með börnum sínum, líta svo í í eigin barm og skoða hvernig við komum fram hvert við annað; foreldrar við börn og börn við foreldra. Einfaldlega hvernig við högum okkur sem fjölskylda. Lykillinn að því að sameina fjölskyldur er að fara út saman, tala um það sem fyrir augu ber, hlæja og hafa gaman saman.“ Í sjálfu sér segir Karl Ágúst ekkert öðruvísi að leika fyrir börn en fullorðna, aukinheldur sem börn séu sjaldnast einsömul í salnum. Undan- farin ár hefur barnamenning orðið honum æ hugleiknari, eins og ýmis viðfangsefni sem hann hefur unnið einn eða með öðrum vitna um. Næg- ir að nefna Umhverfis jörðina á 80 dögum, sem hann samdi með Sigurði Sigurjónssyni, og sett var upp í Þjóðleikhúsinu, og Í skugga Sveins, sem Gaflaraleikhúsið setti upp og fékk Grímu- verðlaunin sem barnasýning ársins í fyrra. En svo því sé haldið til haga sinnir hann líka þeim sem eldri eru, til dæmis skrifaði hann leikritið Góði dátinn Svejk og Hasek, vinur hans, og lék sjálfur höfund Góða dátans, Jaroslav Hasek, í Gafflaraleikhúsinu fyrir tveimur árum. Forréttindi og draumahlutverk „Mér finnst gaman að leika í söngleikjum og forréttindi að fá tækifæri til að vinna frá grunni sýningu eins og Gallsteinar afa Gissa þar sem tónlistin er frumsamin og verið er að gera allt í fyrsta sinn.“ Karl Ágúst fer bara að hlæja þegar hann er spurður um draumahlutverkið. „Hafi ég ein- hvern tímann átt mér draumahlutverk er ég fyrir löngu búinn að gleyma hvað það var. Ég hef svo gaman af allri þessari vinnu að ég tek alltaf feginshendi þegar mér býðst eitthvað spennandi, hvort sem ég þekki verkið eða hef aldrei heyrt á það minnst – sem er ekkert síður áhugavert.“ Ljósmyndir/Auðunn Níelsson Glóa gallsteinar afa Gissa sem gull? Karl Ágúst Úlfsson er ekki við eina fjölina felldur. Ekki aðeins leikur hann afa Gissa á fjölum LA, heldur vann hann leikgerðina með Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, höfundi bókarinnar Gallsteinar afa Gissa, og samdi auk þess söngtextana. Valgerður Þ. Jónsdóttir vjon@mbl.is ’… skoða hvernig við komumfram hvert við annað; for-eldrar við börn og börn við for-eldra. Einfaldlega hvernig við högum okkur sem fjölskylda. Lykillinn að því að sameina fjölskyldur er að fara út saman, tala um það sem fyrir augu ber, hlæja og hafa gaman saman. Afi Gissi leikur á als oddi og virðist ekk- ert hafa orðið meint af gallsteinakastinu. Fremst eru Þórgunnur Una og Daníel Freyr, að baki þeim leikararnir María Pálsdóttir og Benedikt Karl Gröndal. Karl Ágúst Úlfsson og Margrét Sverris- dóttir leikkona. 34 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 24.2. 2019 LESBÓK

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.