Morgunblaðið - 07.03.2019, Síða 58

Morgunblaðið - 07.03.2019, Síða 58
58 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 7. MARS 2019 VIÐTAL Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Þetta kemur skemmtilega á óvart, enda bæði flott verðlaun og margar vandaðar fræðibækur tilnefndar þetta árið,“ segir Kristín Svava Tómasdóttir, sem í gær hlaut viður- kenningu Hagþenkis fyrir fram- úrskarandi rit á árinu 2018. Viður- kenninguna fær hún fyrir bókina Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar sem Sögufélag gaf út. Fær Kristín Svava 1.250.000 krónur að launum. Viðurkenning Hagþenkis, sem að þessu sinni var veitt í 32. sinn, telst til virtustu og veglegustu verðlauna sem fræðimönnum og höfundum kennslugagna geta hlotnast. Öll fræðirit og prentuð námsgögn eða önnur miðlun fræðilegs efnis til almennings sem komu út á íslensku árið 2018 komu til greina við veitingu viðurkenningarinnar óháð útgefanda eða tilnefningum. Fyrsta fræðibókin mín Spurð hvort hún hafi verið til- nefnd áður svarar Kristín Svava því neitandi. „Enda er þetta bara fyrsta fræðibókin mín,“ segir Kristín Svava, sem er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur, ljóðskáld og annar ritstjóra tímaritsins Sögu. Hún út- skrifaðist með MA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands 2014, en Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar er byggð á meistararitgerð hennar. Á umliðnum árum hefur Kristin Svava sinnt ým- iss konar rannsóknum, kennslu og þýðingum og starfað á söfnum við sýningagerð og leiðsagnir. Árið 2016 kom út þýðing hennar á ljóði kúbanska skáldsins Virgilio Piñera, Þungi eyjunnar, og ári síðar átti hún grein um bókasafn Samtak- anna ’78 í greinasafninu Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagn- fræði og hinsegin saga á Íslandi, sem tilnefnd var til Menningarverðlauna DV árið 2017. Síðasta ljóðabók Kristínar Svövu, Stormviðvörun frá 2015, kom út í Bandaríkjunum árið 2018 undir titlinum Stormwarning og var þýðing K.B. Thors á bókinni tilnefnd til PEN-verðlaunanna í flokki þýddra ljóða. Tímabil mikillar gerjunar Innt eftir því hvers vegna klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingar- innar hafi vakið áhuga hennar sem fræðimanneskju segir Kristín Svava að margt af því sem hún hafi áhuga á í sagnfræði komi saman í þessari rannsókn. „Þetta tengist kvenna- og kynjasögu, menningarsögu og hug- myndasögu, sögu ríkisvaldsins sem ég hef unnið svolítið með áður og bóksögu og kvikmyndasögu. Þetta er svo rosalega fjölbreytt viðfangs- efni sem hægt er að koma að úr ólík- um áttum.“ Spurð hvernig hún hafi afmarkað rannsóknarefni sitt segir Kristín Svava það alltaf erfitt. „Tímabilið sem ég er að skoða er tími kynlífs- byltingarinnar á 7. og 8. áratugnum. Þetta er áhugavert tímabil sem ein- kennist af mikilli gerjun og mikið tal- að um klám og kynlíf og hugsað um stað kynlífs í menningunni. Þetta eru því gróskutímar,“ segir Kristín Svava og tekur fram að þar sem um frekar nýlega sögu sé að ræða hafi verið nokkuð auðvelt að leita heim- ilda, sem sé ákveðinn kostur. „Eitt sem var svolítið flókið var hins vegar að það hefur lítið sem ekkert verið skrifað um klám eða skyld efni í íslensku samhengi. Þann- ig hafði ekkert verið skrifað um sögu ritskoðunar eða um sögu kynlífsbylt- ingarinnar sem slíkrar á Íslandi,“ segir Kristín Svava og bendir á að af þeim sökum hafi hún þurft að setja umfjöllunarefni sitt í samhengi. „Bókin geymir líka breiðari menn- ingarsögu upp úr miðri 20. öld. Út af fjölbreytninni í viðfangsefninu snert- ir bókin á mörgum flötum. Þetta er þannig líka saga ritskoðunar, smá kvikmyndasaga, smá bókmennta- saga og sitt lítið af hverju. Ég held því að bókin ætti að höfða til margra,“ segir Kristín Svava. Efnið ekki saklausara í denn „Til að afmarka efnið valdi ég að hafa þrjá megin rannsóknarkafla. Ég vann þrjár hálfgerðar tilviks- rannsóknir þar sem ég tek fyrir ákveðið atriði og kafa mjög djúpt í það. Þaðan er síðan hægt að stækka frásögnina,“ segir Kristín Svava, en kaflarnir þrír fjalla um viðtökur á Ís- landi við sænsku kvikmyndinni Táknmál ástarinnar og japönsku kvikmyndinni Veldi tilfinninganna og loks fjallar hún um dómsmál sem flest snerust um innlend klámrit. Spurð hvort eitthvað hafi komið henni sérstaklega á óvart í rannsókn hennar segir Kristín Svava: „Það sem kom mér helst á óvart, í upphafi rannsóknarinnar, var að þegar ég fór að skoða efnið sem var í dreifingu og verið var að gefa út hérna á þess- um tíma þá var það miklu grófara en ég hafði búist við. Ég held að kyn- lífsefni frá þessum tíma eigi meira sameiginlegt með klámi í dag en margan myndi gruna. Það er alltaf ákveðin tilhneiging til að ímynda sér að allt hafi verið saklausara í gamla daga. Sem sagnfræðingur á maður samt auðvitað aldrei að láta blekkj- ast af því.“ Farsóttarhúsið næst til skoð- unar hjá verðlaunahafanum Aðspurð segir Kristín Svava bók- ina eiga erindi við alla sem áhuga hafi á menningarsögu og klámi á tímum kynlífsbyltingarinnar. „Eitt af því sem er svo áhugavert við þetta tímabil er gerjunin í hugmyndum um kynlíf; margt kallast á við það hvern- ig fólk hugsar um klám í dag en það er líka margt sem er ólíkt. Sem dæmi má nefna að klámiðnaðurinn er að eflast á þessum tíma og mikið er rætt um frjálslyndi og afnám kyn- ferðislegrar bælingar. Þetta er hins vegar líka tíminn áður en femínísk gagnrýni á klám kemur til sögunnar, þannig að þótt margt sé svipað í um- ræðunni þá og nú hefur líka mjög margt breyst varðandi það hvernig fólk hugsar um sviðsetningu kyn- lífs,“ segir Kristín Svava og bendir á að í íslensku hafi orðið klám reyndar verið notað í nokkuð víðari merkingu en í ýmsum öðrum tungumálum, þar sem greinarmunur sé gerður á svo- kallaðri pornógrafíu annars vegar og því sem telst vera ósæmilegt hins vegar. Aðspurð segir Kristín Svava viðurkenningu Hagþenkis sér mikil- væga hvatningu til áframhaldandi starfa. „Eins og þeir þekkja sem eru einyrkjar þá er frábært þegar maður hefur verið að vinna að einhverju lengi og lagt mikið í það að klára að fá síðan jákvæð viðbrögð og viður- kenningu,“ segir Kristín Svava og upplýsir að hún sé þegar farin að leggja drög að næstu rannsókn. „Ég fékk styrk úr sjóði sjálfstætt starf- andi fræðimanna til að skrifa sögu Farsóttarhússins að Þingholtsstræti 25 þar sem fyrsti spítalinn í Reykja- vík var til húsa og hefur þjónað ýms- um hlutverkum í gegnum tíðina. Það verður mjög skemmtilegt að sökkva sér í allt annars konar verkefni og áhugavert aðferðafræðilega að prófa að skrifa um einn stað í borginni.“ Þægileg aflestrar Að sögn Kristínar Svövu eyddi hún talsverðri vinnu í að breyta efni- viði meistararitgerðar sinnar í prentgrip. „Ég bætti í kenningakafl- ann, sem er fyrsti kafli bókarinnar, og bætti inn heilum kafla þar sem ég rek sögu kláms á Íslandi í erlendu samhengi fram á miðja 20. öld. Markmiðið var að bókin yrði þægileg aflestrar fyrir alla, þótt það sé í sjálfu sér ekki minni teoría í henni en í upphaflegu meistararitgerðinni,“ segir Kristín Svava og tekur fram að hún hafi líka lagt mikla vinnu í að finna myndir í bókina. „Samstarfið við Sögufélag var til fyrirmyndar, enda er ég mjög ánægð með alla hönnun og umbrot bókarinnar,“ seg- ir Kristín Svava. Sannkallað brautryðjandaverk Að vanda stóð viðurkenningarráð Hagþenkis að valinu á verðlaunabók ársins, en í því sátu að þessu sinni Auður Styrkársdóttir stjórnmála- fræðingur, Ásta Kristín Benedikts- dóttir íslenskufræðingur, Henry Alexander Henrysson heimspek- ingur og Svanhildur Kr. Sverris- dóttir menntunarfræðingur. Í umsögn ráðsins um verðlaunabókina segir: „Stund klámsins er sannkallað brautryðjandaverk; fyrsta ritið um sögu kláms á Íslandi og eitt af þeim fyrstu sem fjalla um sögu kynver- undar í íslensku samhengi. Það er að stofni til meistaraverkefni Kristínar í sagnfræði við Háskóla Íslands en hún hefur lagt mikla vinnu í verkið síðan gráðan var í höfn; bókin sem við höfum nú í höndunum er afrakst- ur áralangra rannsókna á þessu áður ókannaða sviði Íslandssögunnar. […] Eitt af meginviðfangsefnum bókar Kristínar er sjálf skilgrein- ingin á hugtakinu [klámi] og hún er alls ekki einföld. Á íslensku hefur skapast sú hefð að nota orðið klám í víðum skilningi, bæði um kynferðis- legt efni og um það sem er talið ósæmilegt og brjóta gegn almennu velsæmi. Á sumum tungumálum er hins vegar greint þarna á milli, til dæmis er talað um „pornography“ og „obscenity“ á enskri tungu. Á ís- lensku eru grafísk kynlífsmyndbönd því klám, en líka hvaðeina sem gæti ofboðið fólki. Stund klámsins er þannig saga hugmyndar – saga hugtaks, hvernig það hefur verið notað á ólíkan hátt og hverjir hafa ráðið því hvaða merk- ing var lögð í það. Kristín skoðar átök og umfjöllun um klám á tímum kynlífsbyltingarinnar á sjöunda og áttunda áratugnum og leitar meðal annars fanga í blaðaumfjöllunum og dómskjölum. […] Sagan sem borin er á borð í Stund klámsins á erindi við alla sem velta fyrir sér hinni sam- félagslegu sýn á kynverund Íslend- inga. Útgáfan er vegleg og glæsilega gerð af hendi Sögufélags og bókin er auk þess ríkulega skreytt myndum sem undirstrika og auka innihald hennar.“ Morgunblaðið/Hari Ánægð Kristín Svava Tómasdóttir var að vonum ánægð þegar hún tók við viðurkenningu Hagþenkis í gær. „Kemur skemmtilega á óvart“  Kristín Svava Tómasdóttir hlýtur viðurkenningu Hagþenkis 2018 fyrir skrif sín um klám  Segir hún viðurkenninguna vera sér mikilvæga hvatningu til áframhaldandi fræðistarfa Sameinar það besta í rafsuðu Smiðjuvegi 66 • Kópavogi • 580 5800 • www.landvelar.isFuruvöllum 3 • Akureyri • 461 2288

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.