Fréttir - Eyjafréttir - 08.06.2016, Blaðsíða 12
12 Eyjafréttir / Miðvikudagur 8. júní 2016
„Starfið á önninni hefur verið öflugt
og sama má segja um allt starfsárið.
Stöðugt leitum við leiða til að bæta
starfið, gera það fjölbreyttara og
skilvirkara. Gera góðan skóla enn
betri. En hvað er það sem gerir
skóla að góðum skóla? Fræðimenn
eru alls ekki sammála um það, enda
eru það margir þættir sem vinna
saman í góðum skóla,“ sagði Helga
Kristín Kolbeins í skólaslitaræðu
sinni og vitnaði í úttekt á starfsemi
Framhaldsskólans fyrir mennta- og
menningarmálaráðuneytið sem var
unnin á árinu.
Helstu niðurstöður hennar eru að í
skólanum ríki almennt traust,
skólabragurinn einkennist að
jafnaði af hlýju, mikilli persónu-
legri nánd og almennt góðri líðan.
Stefna skólans sé skýr og skipulega
sett fram. Allar námsbrautir uppfylli
skilyrði aðalnámskrár um grunn-
þætti og lykilhæfni. Fagmenntaðir
kennarar annast kennslu í nær öllum
áföngum. Húsnæðið er rúmgott,
skólinn hefur náð markmiði sínu
um brotthvarf.
„Í úttektinni er bent á nokkra þætti
sem við þurfum að huga að,“ sagði
Helga Kristín. „Virkja þarf
nemendur og foreldra til stefnumót-
unarvinnu og efla nemendafélag og
foreldrafélag. Auka aðgengi að
rafrænum námsgögnum. Einnig
benda skýrsluhöfundar á að
nemendur séu ekki nægjanlega
stoltir af skólanum sínum og að það
hafi neikvæð áhrif á sjálfsmynd
þeirra og kem ég nánar að þeim
þætti seinna í máli mínu.“
Félagslíf á uppleið
Helga Kristín sagði að á skólafundi
vorannar með öllum nemendum og
kennurum hafi verið fjallaði um
félagslífið og tóku nemendur virkan
þátt í umræðum um hvernig
félagslífið ætti að vera. „Stofnaður
var vinnuhópur sem vann úr
hugmyndum fundarins, stóð fyrir
kosningum í nemendaráð og hélt
sumarfagnað fyrir nemendur til að
fagna lokum skólaársins.
Vinnuhópurinn vann einnig með
nemendum í fjölmiðlafræði og gaf
út skólablað sem er afar vel
heppnað og fékk nafnið Sviðsljósið.
Vinnuhópurinn á hrós skilið og vil
ég nota tækifærið og þakka Thelmu
og Samúel sérstaklega fyrir vel
unnin störf þeirra með hópnum.“
Við bíðum spennt eftir næsta vetri,
þegar félagslífið tekur mið af þeim
hugmyndum sem vinnuhópurinn
setti fram. Byrjunin lofar afar góðu,
sumarfagnaðurinn var vel sóttur af
nemendum og einstaklega ánægju-
legt var að foreldrar tóku þátt í
fagnaðinum. Ég vil nota þetta
tækifæri og þakka Hafdísi, Völu,
Eydísi, Þórunni, Sigríði Láru, Diljá
og Hjördísi fyrir að taka þátt í þessu
með okkur. Það er ómetanlegt að fá
foreldra til starfa og vona ég að
samstarfið eflist enn meira.“
Skuldum ekki neitt
Helga Kristín nefndi næst bága
fjárhagsstöðu margra framhalds-
skóla sem ætti ekki við Framhalds-
skólann í Vestmannaeyjum. „Í
fjölmiðlum undanfarnar vikur hefur
mikið verið fjallað um rekstrarerfið-
leika framhaldsskóla Íslands og er
reksturinn hér vissulega erfiður. En
við stöndum okkar plikt, við
skuldum ekki neitt og erum í skilum
með allt. Þær erfiðu aðgerðir sem
við réðumst í á árinu 2015 gera það
að verkum.
Í nýrri úttekt sem skilað var í gær
frá Ríkisendurskoðun til Alþingis,
kemur meðal annars fram að
greiðslustaða skólans gagnvart
ríkissjóði batnaði frá því að vera
rúm 21 milljón í skuld yfir í að við
erum algjörlega skuldlaus núna í
janúar. Við vitum það öll sem hér
erum að hverri krónu sem varið er
til framhaldsskólans er vel varið.
Skólinn er skilvirkur og vel rekin
stofnun.
Óeigingjarnt framlag starfsfólks
og þrautseigja hefur stuðlað að
hagkvæmni í rekstri og tryggt gæði
skólastarfsins. Samt sem áður er
núverandi fjármögnun ekki
nægjanleg. Okkur vantar fé til að
endurnýja búnað. Aðkallandi er
orðið að endurnýja ýmislegt hér
innan húss og þá sérstaklega búnað
vélskólans.“
Ánægð með skólann
Í áfangamati á vorönn er niður-
staðan að 75% nemenda eru
ánægðir með áfanga sína, 87%
ánægð með kennarann og 88%
vinna vel í kennslustundum.
„Starfsfólk skólans tók þátt í
könnun um stofnun ársins og urðum
við í 16. sæti af 50 þetta árið.
Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar
kemur í ljós að starfsfólkið er ánægt
með flesta þætti og ánægðra en
flestir aðrir með vinnustaðinn sinn.
Starfsfólkið er ánægt með stjórnun
skólans, starfsandann á vinnustaðn-
um, kjörin sín, vinnuskilyrðin sem
þeim eru sköpuð og það er stolt af
skólanum. En það er einn þáttur
sem dregur skólann mikið niður í
einkunn og það er ímynd hans.
Starfsfólkið er ekki sátt við þá
ímynd sem skólinn hefur og eins og
ég kom inn á fyrr í ræðunni þá
sjáum við sömu áhyggjur koma
fram hjá nemendum skólans,“ sagði
Helga Kristín og spurði: En hvað er
átt við með ímynd og hvernig
skapar maður hana?
Ímynd skiptir máli
„Þegar rýnt er betur í svör starfs-
manna, kemur í ljós að þeir upplifa
að þegar skólann ber á góma er
umræðan ekki nægjanlega jákvæð.
Að nærsamfélagið taki oft á tíðum
ekki jákvæða afstöðu til skólans.
Það er verðugt verkefni að taka á
þessum þætti.
Jákvæð ímynd er mjög mikilvæg
hverri stofnun og hverju samfélagi.
Sterk jákvæð ímynd er nauðsynleg
skólanum jafnt og samfélaginu hér í
Vestmannaeyjum. Jákvæð ímynd
styrkir sjálfsmynd okkar, hvetur
okkur til dáða og stemmir stigu við
þekkingartapi sem svo mörg smærri
samfélög hafa glímt við á síðast-
liðnum áratugum með brottflutningi
sérhæfðra starfsstétta og aldurs-
hópa. Ímynd má líkja við viðskipta-
vild, sem laðar að fólk, fjármagn og
hugmyndir og hefur bein áhrif á
efnahagslíf samfélagsins.“
Hlustum ekki á úrtöluraddir
Helga Kristín sagði það markmið
skólans að bjóða fjölbreytt og gott
nám, sem mætir kröfum nemenda
og samfélagsins á hverjum tíma.
Menntun ungs fólks eigi að hafa
forgang og allir Eyjamenn þurfi að
sameinast um verkefnið.
„Allar kannanir sýna að Framhald-
skólinn í Vestmannaeyjum er góður
skóli og getum við verið stolt af
honum. Úttektir utanaðkomandi
aðila eru sérlega jákvæðar og okkur
er bent á að við erum að standa
okkur afskaplega vel.
Reksturinn er í jafnvægi, hér er hæft
starfsfólk og ánægðir nemendur
sem stunda fjölbreytt nám. En þrátt
fyrir að allar þessar staðreyndir
blasi við í könnunum meðal
nemenda, starfsfólks og opinberum
úttektum koma raddir sem segja:
já... en ég hef nú heyrt...
og ég hef nú fyrir satt...
og ég veit nú að þetta er svona og
hinsegin.
Hlustum ekki á þessar úrtöluradd-
ir, horfum stolt og full tilhlökkunar
til framtíðar og látum róður skólans
berast sem víðast.“
Verið stolt af árangrinum
Þá sneri Helga Kristín máli sínu til
útskriftarnema og þakkaði þeim
samstarfið. „Þið hafið staðið ykkur
vel og verið skólanum til sóma. Þið
hafið gert skólann að heilsueflandi
framhaldsskóla.
Til hamingju með árangurinn
ykkar. Þó við höfum verið að
verðlauna sum ykkar hér, þá eruð
þið öll sigurvegarar. Þið hafið öll
náð takmarki ykkar. Öll hafið þið
þurft að leggja á ykkur mikla vinnu,
blóð, svita og tár til að ná þessum
áfanga en það dugði til því hér eruð
þið nú.Verið því stolt af árangri
ykkar, framtíðin blasir við. Munið
að hlusta á sjónarmið annarra.
Umgangast alla þá er á vegi ykkar
verða af sömu alúð – háa sem lága.
Komið fram við aðra eins og þið
viljið að þeir komi fram við ykkur.
Hafið í huga að raða ykkur ekki
með einstaklingum sem rífa ykkur
niður með nöturlegum athugasemd-
um og neikvæðri umræðu heldur
veljið ykkur vini sem styrkja, auðga
og efla. Hafið hugfast að ekkert það
starf sem ykkur verður falið er svo
ómerkilegt að það eigi ekki skilið
að vera leyst af hendi af fyllstu alúð
og samviskusemi. Verið trú yfir því
sem ykkur er treyst fyrir – í stóru
sem smáu. Virðið og verið trú
uppruna ykkar og Vestmannaeyjum
– leggið alúð við móðurmálið.
Ég vona að þið eigið góðar
minningar frá tíma ykkar hér í
skólanum. Á framhaldsskólaárum
kynnumst við oft á tíðum okkar
bestu vinum sem við eigum
ævilangt þótt leiðir skilji á vissan
hátt nú við brautskráningu. Ég
minni ykkur á að þið eruð aldeilis
ekki laus við Framhaldsskólann í
Vestmannaeyjum þó að þið séuð að
útskrifast héðan í dag. Þið verðið
alla ævi nemendur skólans og hann
er stoltur af ykkur eins og þið eruð
stolt af ykkar skóla og nýtið hvert
tækifæri til að tala vel um hann.
Fyrir hönd Framhaldsskólans í
Vestmannaeyjum þakka ég ykkur
samfylgdina og óska ykkur
fararheilla hvert sem leiðir liggja,“
sagði Helga Kristín sem að lokum
þakkaði starfsfólki skólans fyrir
önnina. „Þetta er búið að ganga afar
vel og hafið þið staðið sem klettur
með stjórnendum skólans í gegnum
allar þær breytingar sem gengið
hafa yfir. Það er alls ekki sjálfgefið
að stofnanir hafi aðgang að þeim
mannauði sem hér starfar.“
Helga Kristín veitir Guðnýju Charlottu Harðardóttir dúx skólans viðurkenningu
en meðaleinkunn hennar var 8,92.
Kristín Edda Valsdóttir flutti þakkarræðu útskriftarnema.
Björgvin Eyjólfsson aðstoðar-
skólameistari.
:: Helga Kristín skólameistari :: FÍV er góður skóli :: Jákvæðar úttektir
:: Ekki sátt við þá ímynd sem skólinn hefur:
Hlustum ekki á úrtöluraddir,
horfum stolt og full
tilhlökkunar til framtíðar
:: Látum hróður skólans berast sem víðast :: Skuldum ekki neitt og erum í skilum með allt
ómar garðarSSon
omar@eyjafrettir.is