Morgunblaðið - 09.05.2019, Side 64
64 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 9. MAÍ 2019
Krókháls 1 • 110 Reykjavík • S. 567 8888 • www.pmt.is
Allt til merkinga & pökkunar
Kemur með snertiskjá og WiFi Hægt er að fá ofninn í mörgum litum
TURBOCHEF ECO
er minnsti og sparneytnasti ofninn
frá TurboChef
Hentar sérstaklega vel fyrir kaffihús, bensínstöðvar og minni staði
sem eru með skyndibita.
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Það er gaman að vera með svona
stóran kvennahóp í Þjóðleikhúsinu,“
segir Edda Þórarinsdóttir leikstjóri
og höfundur leikgerðar sýningar-
innar Dansandi ljóð sem sviðslista-
hópurinn Leikhúslistakonur 50+
frumsýnir í Þjóðleikhúskjallaranum
laugardaginn 11. maí kl. 20. Leik-
gerðina byggði Edda á ljóðum eftir
Gerði Kristnýju. „Gerður Kristný er
svo mikil sögukona, enda hefur hún
gert heilu ljóðabækurnar sem eru
heildstæðar sögur,“ segir Edda og
vísar þar til ljóðabókanna Blóðhófnir
(sem út kom 2010), Drápa (2014) og
Sálumessa (2018).
„Mér fannst þær bækur svo
áhugaverðar þannig að ég fór að
skoða öll ljóðin hennar. Ljóðin henn-
ar eru svo myndræn og tímalaus
þannig að ég fór að prófa að setja
ljóðin saman í heildræna frásögn,“
segir Edda og rifjar upp að ljóðið
„Systkini mín“ hafi verið kveikjan að
áhuga hennar. „Ég fékk síðan leyfi
Gerðar Kristnýjar til að búa til mína
eigin sögu úr ljóðunum hennar,“
segir Edda sem valdi ljóðin úr ljóða-
bókunum Ísfrétt (sem út kom 1994),
Launkofi (2000), Höggstaður (2007)
og Strandir (2012).
Eru í raun ein og sama konan
„Rauði þráður sýningarinnar er
íslensk kona, en við fylgjumst með
henni frá fæðingu til fullorðinsára.
Þar, eins og í lífi okkar allra, gerast
alls kyns hlutir, jafnt gleðilegir sem
dapurlegir. Í raun getur þetta verið
hvaða kona sem er. Leikkonurnar
átta túlka líf hennar, ástir og örlög í
ljóðum, dansi og tónlist,“ segir
Edda, en sviðshreyfingar sömdu
Ásdís Magnúsdóttir og Ingibjörg
Björnsdóttir og tónlist samdi Mar-
grét Kristín Sigurðardóttir sem er
betur þekkt sem Fabúla. „Hún spil-
ar á píanó í sýningunni og býr til alls
kyns leikhljóð ásamt því að syngja
frumsamin lög og flytja ljóðin með
hinum í hópnum,“ segir Edda, en
átta leikkonur fara með hlutverk í
sýningunni. Auk Fabúlu leika í upp-
færslunni þær Bryndís Petra Braga-
dóttir, Helga E. Jónsdóttir, Júlía
Hannam, Rósa Guðný Þórsdóttir,
Sólveig Hauksdóttir, Vilborg Hall-
dórsdóttir og Þórey Sigþórsdóttir.
„Þó átta leikkonur flytji verkið
eru þær í raun ein og sama konan.
Þannig að þær skiptast á að flytja
ljóðin og stundum eiga þær beinlínis
í samtali innan sama ljóðsins,“ segir
Edda og leggur áherslu á að um
sviðsetningu ljóðanna er að ræða en
ekki hefðbundinn ljóðaflutning í
formi upplesturs. „Auðvitað hefði
verið hægt að flytja efnið sem ein-
leik, en í samstarfi við danshöfund-
ana sáum við fyrir okkur að formið
minnti á grískt leikhús þar sem hlut-
verk kórsins er stórt og mikilvægt.
Þannig skiptast konurnar átta á að
stíga út úr kórnum,“ segir Edda og
bendir á að allar leikkonurnar beri
grímu um sig miðja sem þær geti
gripið til eftir þörfum, en gríman vís-
ar beint í gríska leikhúsið.
„Gríman er svört öðrum megin og
hvít hinum megin. Þegar talið berst
að dauðanum grípa þær til svörtu
grímunnar og fela sig. Þannig nota
þær grímurnar af og til í sýningunni
þegar verið er að fjalla um erfiða
hluti. Þó nálgunin hafi upphaflega
verið hugsuð sem grískt leikhús er
það það ekki lengur, heldur er þetta
íslenskt leikhús með íslenskum kon-
um,“ segir Edda kímin og tekur
fram að fjöldi flytjenda bjóði líka
upp á hópdansa á sviðinu. „Fjöldinn
gefur því svo mikla möguleika,“ seg-
ir Edda og hrósar leikkonunum í há-
stert. „Þetta eru allt mjög reyndar
leikkonur sem eiga það sameiginlegt
að vera orðnar 50 ára og eldri, þ.e.
50+,“ segir Edda og upplýsir að í
sviðslistahópnum Leikhúslistakonur
50+ séu samtals um sextíu konur.
Snjóveröld í kjallaranum
Helga Björnsson hannar bæði
leikmynd og búninga, en rifja má
upp að Helga fékk Grímuverðlaunin
2010 fyrir búninga sína í Íslands-
klukkunni í uppfærslu Þjóðleikhúss-
ins. „Það er því óhætt að segja að
hún kunni til verka, enda eru bún-
ingarnir í Dansandi ljóðum ein-
staklega flottir. Það mun vafalítið
koma mörgum sem þekkja Þjóðleik-
húskjallarann vel á óvart að rýmið
er ekki svart eins og venjulega held-
ur fer mikið fyrir hvíta litnum,“ seg-
ir Edda og bendir á að aðeins séu
notaðir þrír litir í sýningunni, þ.e.
hvítur, svartur og rauður. „Á sviðinu
og á gólfinu fyrir framan hefur verið
breiddur út hvítur dansdúkur, sem
kallast á við myndheim ljóðanna.
Gerður Kristný yrkir mjög mikið um
snjó og ís og kulda og kvíðann sem
fylgt getur því að búa í svona köldu
landi. Hvítir kollar leikmyndarinnar
eru hluti af þessari snjóveröld sem
sköpuð hefur verið í Þjóðleikhús-
kjallaranum,“ segir Edda og tekur
fram að það fái að glitta í rauðan
bakvegg Þjóðleikhúskjallarans
gegnum svarta umgjörð. „Rauða
rákin í miðjunni er tákn fyrir ástina
og blóð konunnar.“
Sviðslistahópurinn Leikhúslista-
konur 50+ var stofnaður 2014 í þeim
tilgangi að setja á svið áhugaverða
viðburði sem gætu haft áhrif og
breytt viðhorfum fólks til þátttöku
eldri kvenna í listum. Eitt af mark-
miðum félagskvenna er að vekja at-
hygli á að þroski og reynsla kvenna
yfir fimmtugu úr leikhúsheiminum
sé sannkallaður fjársjóður sem vert
sé að nýta. Félagið hefur staðið fyrir
ýmsum leiklestrum og sett á svið
sýningarnar Konur og krínólín sem
frumsýnd var í Iðnó í júní 2017 og
Fjallkonan fríð eða hefur hún hátt?
sem frumsýnd var í Þjóðleikhús-
kjallaranum í nóvember 2018.
„Lengi framan af höfðum við athvarf
í Iðnó hjá henni Möggu Rósu,“ segir
Edda og vísar þar til Margrétar
Rósu Einarsdóttur sem um árabil
var staðarhaldari í Iðnó. „Okkur hef-
ur verið afskaplega vel tekið í Þjóð-
leikhúsinu,“ segir Edda, en gerður
var samstarfssamningur til eins árs í
fyrra. „Ég bind vonir við að þjóðleik-
hússtjóri vilji endurnýja samninginn
við okkur, enda gott að vera í Þjóð-
leikhúskjallaranum. Ég er orðin það
fullorðin að ég man vel þegar Þjóð-
leikhúskjallararinn var litla svið
Þjóðleikhússins. Þarna sá maður og
lék í mörgum frábærum sýningum.
Mér finnst gaman að endurvekja þá
stemningu í Þjóðleikhúskjallar-
anum,“ segir Edda. Þess má að lok-
um geta að sýningin Dansandi ljóð
er rúm klukkustund að lengd og
leikin án hlés. Næstu sýningar verða
sunnudaginn 12. maí kl. 16 og mið-
vikudaginn 15. maí kl. 20.
Morgunblaðið/Hari
Skapandi Rósa Guðný Þórsdóttir, Bryndís Petra Bragadóttir, Vilborg Halldórsdóttir, Júlía Hannam, Edda Þórar-
insdóttir, Sólveig Hauksdóttir, Margrét Kristín Sigurðardóttir, Helga E. Jónsdóttir og Þórey Sigþórsdóttir.
„Frá fæðingu til fullorðinsára“
Leikhúslistakonur 50+ frumsýna Dansandi ljóð í Þjóðleikhúskjallaranum Átta leikkonur túlka
líf, ástir og örlög einnar konu í ljóðum, dansi og tónlist „Okkur vel tekið í Þjóðleikhúsinu“
Rússneski píanóleikarinn Nikolai
Lugansky leikur píanókonsert eft-
ir Edvard Grieg á tónleikum með
Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eld-
borg Hörpu í kvöld kl. 19.30 undir
stjórn norska stjórnandans Eivinds
Aadland. Á efnisskránni eru einn-
ig forleikurinn úr óperunni Á
valdi örlaganna eftir Giuseppe
Verdi og ballettsvítur úr Rómeó
og Júlíu eftir Sergei Prokofíev.
„Lugansky vakti gífurlega
hrifningu haustið 2016 þegar hann
lék þriðja píanókonsert Rakhman-
ínovs í Eldborg. Hann snýr nú aft-
ur til Íslands og leikur hinn sí-
vinsæla píanókonsert Griegs, þar
sem tónskáldið sameinar í stóru
formi blæbrigði norskra þjóðlaga
og tónsmíðahefð þýskrar róman-
tíkur. Konsertinn varð umsvifa-
laust einn sá vinsælasti sem um
getur. Þegar Franz Liszt hafði
leikið hann í návist tónskáldsins
árið 1870 er sagt að píanistinn
frægi hafi hrópað upp yfir sig:
„Haltu áfram að semja, í Guðs
bænum! Þú hefur það sem til
þarf!“ Að vanda hefst tónleika-
kynning í Hörpuhorni kl. 18.
Morgunblaðið/Hari
Eftirsóttur Nikolai Lugansky við flygilinn á æfingu í Hörpu í gær.
Lugansky leikur Grieg
Sameinar blæbrigði norskra þjóð-
laga og rómantíska tónsmíðahefð