Morgunblaðið - Sunnudagur - 12.05.2019, Qupperneq 15
Eurovision-aðdáendurnir Flosi Jón Ófeigsson og Laufey Helga sjást hér á sjálfu með Salvador
Sobral, portúgalska söngvaranum sem vann Eurovision árið 2017.
Hatari stóð sig vel á blaðamannafundi í Tel Aviv. Laufey skrifar fréttir frá Ísrael á fases.is.
Euro-klúbbar eru opnaðir í kringum Eurovision og oft er mikið stuð á dansgólfinu. Eingöngu má
spila gömul Eurovision-lög. Í Úkraínu fóru aðdáendur í setuverkfall þegar önnur lög voru spiluð.
Laufey spáir Svíþjóð sigri. Hér sést hún með
sænska flytjandanum, John Lundvik.
Laufey náði mynd af sér með Nettu frá Ísrael,
sem stóð uppi sem sigurvegari í fyrra.
pression“-tímabil, sem við köllum alltaf PED,
eða peddið. Eða á íslensku: eftirsöngvakeppnis-
bringsmalaskottan, eða ESB. Bringsmalaskotta
er gamalt orð yfir þunglyndi. Við leggjum sér-
stakan metnað í að íslenska öll svona Eurovisi-
on-heiti,“ segir hún.
„Peddið nær yfir svona þrjá, fjóra mánuði og
þá er gott að eiga góða vini sem hugga mann.
Svo skellir maður sér jafnvel á aðdáendavið-
burði. Í ágúst er t.d. stór viðburður hjá finnska
Eurovision-klúbbnum en þeir eru með siglingu
þar sem siglt er frá Helsinki til Tallinn og aftur
til baka. Á skipinu koma fram gamlar Eurovisi-
on-stjörnur og er þetta sannkölluð partíhelgi.
Ég fór 2017,“ segir hún. „Svo kjósum við í
keppni allra Eurovision-klúbba hvaða lag sem
komst ekki í Eurovision var best. Við höldum
okkur uppteknum í þessu blessaða peddi og svo
keyrum við vertíðina í gang með haustinu. Þá er
aðalfundur, Eurovision-barsvar (pubquiz),
Eurovision-bingó og svo hittumst við á Happy
hour og horfum á gamlar keppnir. Síðan byrjar
undirbúningurinn aftur í desember. Fjöl-
skyldan er farin að kalla þetta Eurovision-
kirkjuna mína,“ segir hún.
Peningar innan um vændiskonur
Laufey hefur farið alls átta sinnum á Eurovision
og er nú í Ísrael á níundu keppninni. Hún segir
einna eftirminnilegast hafi verið í Malmö.
„Þeir eru algjörir fagmenn að halda Eurovisi-
on í Svíþjóð. Þetta var agalega skemmtileg
keppni fyrir aðdáendur. Úkraína 2017 stendur
líka upp úr. Það voru alls kyns skrítnir hlutir
sem komu upp, en þá var ég komin í stjórn
OGAE International og sá þetta innan frá. Þar
var þarna Euro-klúbbur og þeir voru ekki búnir
að fatta að maður spilar auðvitað bara Eurovisi-
on-tónlist. Okkar fólk fór í setuverkfall á dans-
gólfinu og við ræddum við vertinn sem gerði
ekkert annað en að sjúga spítt í nösina á meðan
við ræddum við hann,“ segir hún.
„Svo erum við í regnhlífarsamtökunum í sam-
bandi við Eurovision-plötusnúða og kom í ljós að
þarna í Kænugarði höfðu þeir ekkert fengið
borgað fyrir sína vinnu. Klukkan þrjú um nóttina
eftir úrslitin, þegar Salvador Sobral frá Portúgal
var búinn að vinna, var ég dregin baksviðs að lesa
yfir samning um greiðslu fyrir þessa þjónustu.
Samningurinn var á úkraínsku þannig að ég fékk
stelpu til að þýða fyrir mig; hún var ekki meira en
sextán ára. Okkur var rétt mjög þykkt seðlabúnt
sem við þurftum að telja á staðnum sem var frek-
ar mikil vinna, enda tveggja vikna laun allra
Eurovision-plötusnúðanna. Þarna var fullt af
vændiskonum og fylgdarkonum en ég var búin að
segja þeim þarna að það þýddi lítið að bjóða upp á
þessa þjónustu þar sem 97% þeirra sem sæktu
Eurovision væru samkynhneigðir karlmenn. Það
var mjög skrítið að telja alla þessa peninga um
miðja nótt í kringum allar þessar vændiskonur;
mjög einkennileg upplifun!“
Fíla Hatara í botn
Hvað er besta Eurovision-lag allra tíma að þínu
mati?
„Þetta er spurning sem þú spyrð aldrei al-
vöru Eurovision-aðdáanda. Það er ómögulegt
að nefna eitthvert eitt lag. Ég á uppáhalds rúss-
neskt, íslenskt, frá þessari eða hinni keppninni.
En lengi vel var mitt uppáhalds Eurovision-lag
Neka Mi Ne Svane, króatíska Eurovision-lagið
1998 sem lenti í fimmta sæti. Það er frægt
Eurovision-lag,“ segir hún.
„Eitt lag enn með Siggu og Grétari situr
mjög fast í minningunni, maður ólst upp við það.
Ég var send á dansnámskeið í safnaðarheimilið
þar sem ég bjó, í Ólafsvík, til þess að læra Eitt
lag enn-dansinn. Svo fíla ég Hatara alveg í botn!
Ætli það verði ekki bara uppáhalds Eurovision-
lagið mitt? Ef fólk hefur ekki séð Hatara á sviði
mæli ég með að fólk mæti á tónleika því sjón er
sögu ríkari.“
Önnur klassísk spurning, spáir þú Hatara
góðu gengi?
„Ég held að við munum komast upp úr bless-
aðri undankeppninni í fyrsta sinn síðan 2014 og
ég hlakka til þess. Við erum í verri undankeppn-
inni og þarna eru ekki mjög sigurstrangleg lög
þannig að við eigum meiri möguleika. Svo dró
Úkraína sig út úr keppni og þeir voru í okkar
riðli. Þannig að við keppum við einum færri.“
Heldurðu að Hollendingar vinni?
„Nei, ég er ekki komin á þennan hollenska
vagn en samkvæmt veðbönkum eru þeir sigur-
stranglegastir. Ég hef mjög mikla sigurtilfinn-
ingu fyrir sænska laginu sem heitir Too late for
love og er mjög fallegt gospel-lag. En með öll-
um fyrirvara um að Ísland sé að fara að vinna
Eurovision; það gæti gerst. Þeim er spáð sjötta
sætinu en ég veit ekki hvaða öldu þeir ætla að
sigla. Þeir eru búnir að vera mjög áberandi í
aðdáendasamfélaginu og í aðdraganda Euro-
vision. Þeir eru agalega vinsælir. Annaðhvort
elskar fólk þá eða hatar. En í öllu falli er þetta
mjög flott sviðsetning, vel flutt lag og góð laga-
smíð. Þetta dregur fólk að skjánum,“ segir
Laufey og upplýsir blaðamann um að Hatari
muni syngja á íslensku.
Þegar þú sérð Eurovision-stjörnur, verður þú
stjörnuslegin?
„Já, ég hef sérhæft mig í Eurovision-sjálfum
með stjörnunum.“
Heldur þú að Ísland vinni einhvern tímann?
„Það væri hámarkið á þessum Eurovision-
tryllingi. Við erum öll að bíða eftir því og það
mun gerast.“
Morgunblaðið/Ásdís
12.5. 2019 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15