Morgunblaðið - 05.06.2019, Blaðsíða 24
24 ÍÞRÓTTIR
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 5. JÚNÍ 2019
FH hefur samið við handknattleiks-
manninn Leonharð Þorgeir Harðarson
til þriggja ára, en hann lék með liðinu
sem lánsmaður seinni hluta vetrar.
Leonharð kom þá að láni frá Haukum,
en með FH spilaði hann níu deildarleiki
eftir áramót og skoraði 22 mörk.
Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur
hefur samið við Bandaríkjamanninn
Wayne Martin um að spila með liðinu
næsta vetur. Hann er 26 ára gamall og
rúmir tveir metrar á hæð. Í vetur spil-
aði hann meðal annars um tíma með
Leicester, sem varð enskur meistari í
vor. Martin mun leika í Víetnam í sum-
ar og koma svo til Íslands um mán-
aðamótin ágúst/september.
Julen Lopetegui hefur verið ráðinn
nýr knattspyrnustjóri Sevilla. Lope-
tegui var landsliðsþjálfari Spánar áður
en hann var rekinn rétt fyrir HM í
Rússlandi í fyrra eftir að hafa verið bú-
inn að ráða sig til Real Madrid. Þaðan
var hann svo rekinn í október.
Knattspyrnumaðurinn Sölvi Snær
Guðbjargarson hefur skrifað undir
nýjan þriggja ára samning við Stjörn-
una. Sölvi, sem verður 18 ára í júlí,
hefur spilað 17 leiki fyrir
yngri landslið Íslands.
Hann hefur komið
við sögu í fimm
leikjum Stjörn-
unnar í sumar,
en hann kom
inn í liðið í fyrra
og lék þá sextán
ára gamall sína
fyrstu úrvals-
deild-
arleiki.
Eitt
ogannað
FRJÁLSAR
Sindri Sverrisson
sindris@mbl.is
„Þetta var frábært. Ég gæti ekki
verið sáttari með þennan árangur.
Þarna átti ég sex af sjö bestu köst-
um mínum frá upphafi og ég ætla
ekkert að stoppa hérna,“ segir Dag-
bjartur Daði Jónsson, spjótkastari
og tónlistarmaður.
Dagbjartur, sem er af miklum
frjálsíþróttaættum, vann til gull-
verðlauna í spjótkasti á sínum
fyrstu Smáþjóðaleikum í Svart-
fjallalandi á dögunum. Þar kastaði
ÍR-ingurinn lengst 77,58 metra og
bætti þar með Íslandsmetið í flokki
22 ára og yngri um þrjátíu sentí-
metra. Öll sex köst Dagbjarts voru
yfir 74 metra sem sýnir að hann er á
hárréttri leið nú þegar nýtt keppn-
istímabil er að hefjast.
„Eftir að hafa bætt mig mikið á
síðasta ári vissi ég samt að ég ætti
meira inni og lagði mikla vinnu á
mig í vetur. Ég ætla mér að upp-
skera eftir því í sumar. Planið er að
komast yfir 80 metra múrinn og allt
umfram það er bara bónus,“ segir
Dagbjartur og tekur undir að það
hafi ekki verið leiðinlegt að ná fyrr-
nefndu meti af félaga sínum Sindra
Hrafni Guðmundssyni.
„Við erum æfingafélagar svo það
var dálítið gaman að taka það af
honum. Hann er orðinn aðeins of
gamall til að bæta það úr þessu,“
segir Dagbjartur léttur.
Einar Vilhjálmsson er þjálfari
þeirra Dagbjarts og Sindra, en Ein-
ar á Íslandsmetið í spjótkasti sem er
86,80 metrar og var sett árið 1992.
Sigurður Einarsson, Sindri Hrafn,
Guðmundur Sverrisson og Sigurður
Matthíasson eru aðrir sem hafa
kastað yfir 80 metra og Dagbjartur
vill nú verða sá sjötti í hópnum.
Á mót í Þýskalandi með
ólympíumeistaranum
Hann er aðeins 21 árs og unir hag
sínum vel undir handleiðslu Einars:
„Ég mun kannski skoða það eftir
einhver ár að fara út en ég er mjög
ánægður hér heima og hjá Einari
þjálfara. Ég held að ég fari ekkert
frá honum fyrr en Íslandsmetið fell-
ur,“ segir Dagbjartur og hlær létt.
Dagbjartur fer á morgun til
Þýskalands þar sem hann mun
keppa á sterku móti í Jena, þar sem
ólympíumeistarinn Thomas Röhler
er á heimavelli. Dagbjartur náði ein-
mitt sínum besta árangri í fyrra á
mótinu í Jena: „Það er geggjað mót.
Svo fer ég á EM 22 ára og yngri um
miðjan júlí. Það verður vonandi
toppurinn á sumrinu í ár,“ segir
Dagbjartur.
Eins og fyrr segir er Dagbjartur
með mikil frjálsíþróttagen en
mamma hans er Martha Ernsts-
dóttir, sem keppti í maraþoni á Ól-
ympíuleikunum árið 2000, og fað-
irinn er Jón Oddsson sem afrekaði
að vera landsliðsmaður í frjáls-
íþróttum og fótbolta. Systurdóttir
Mörthu er Aníta Hinriksdóttir.
„Ég held að ég hafi mætt á fyrstu
æfinguna mína þriggja mánaða. Ég
hef ekki fært mig úr frjálsum íþrótt-
um síðan. Ég held að ég hafi fyrst
kastað spjóti 10 ára og fannst ég
kasta því voðalega langt, og þar með
var ég búinn að finna mína grein og
ákvað að verða bestur í henni,“ seg-
ir Dagbjartur sem hefur getað leit-
að í viskubrunn foreldra sinna en
þau voru þó ekki í spjótkasti, eða
hvað?
„Kannski ekki þannig, en pabbi
var reyndar lunkinn og er góður al-
hliða þjálfari sem hjálpaði mér
lengi. Við fluttum aftur til Reykja-
víkur þegar ég var búinn í grunn-
skóla, eftir fjögur ár á Ísafirði, og
stuttu eftir það byrjaði ég að æfa
hjá Einari og hef verið þar síðan.“
Gaf út plötu í vetur
Utan frjálsíþróttavallarins hefur
Dagbjartur fikrað sig aðeins áfram
sem tónlistarmaður, og gefið út
hipphopplög undir listamannsnafn-
inu Bjartr. „Ég gaf út mína fyrstu
plötu í febrúar og var einmitt að
gefa út nýtt lag á laugardaginn.
Þetta er hliðarverkefni sem ég hef
verið með í tæp þrjú ár, nokkuð sem
ég hef bara verið að leika mér í og
hef mjög gaman af. Dagskráin í sól-
arhringnum er nokkuð þétt,“ segir
Dagbjartur, sem lét þó vera að stíga
á svið í Svartfjallalandi: „Nei, þjóð-
dansararnir voru í fyrirrúmi þar og
mér fannst það ekki passa alveg
inn,“ segir Dagbjartur léttur. „Þetta
voru fyrstu leikarnir mínir en ég
held að þeir hafi bara verið vel
heppnaðir. Aðstaðan var mjög fín og
ég get ekkert kvartað.“
Mættur á fyrstu æfingu
þriggja mánaða gamall
Ljósmynd/FRÍ
Gull og met Dagbjartur Daði Jónsson á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi þar sem hann fagnaði sigri og meti.
Dagbjartur sló met félaga síns Mamma ólympíufari og pabbi í landsliðum
Birna Berg Haraldsdóttir æfði með
íslenska landsliðinu í handbolta í
Laugardalshöll í gær fyrir leikinn
við Spán annað kvöld, þann seinni í
umspili um sæti á HM. Birna gat
ekki leikið með Íslandi í 35:26-
tapinu í Málaga síðastliðinn föstu-
dag en hún hefur verið að jafna sig
af þungu höfuðhöggi sem hún fékk
í leik með þýska liðinu Neckar-
sulmer fyrir mánuði.
Útlit er fyrir að Birna verði klár í
slaginn við Spán á morgun. Einhver
von er einnig til þess að Lovísa
Thompson, sem varð að hætta við
fyrri leikinn vegna bakmeiðsla,
verði með. Læknisskoðun skilaði já-
kvæðum niðurstöðum og ekki er
um brjósklos að ræða, að sögn Ax-
els Stefánssonar landsliðsþjálfara.
Lovísa veiktist hins vegar, ofan í
meiðslin, og hefur ekki getað æft í
vikunni. sindris@mbl.is
Lovísa hugsanlega með
og Birna Berg komin á ról
Morgunblaðið/Eggert
Meidd og veik Lovísa Thompson á
æfingu áður en landsliðið hélt utan.