Morgunblaðið - 14.06.2019, Blaðsíða 21

Morgunblaðið - 14.06.2019, Blaðsíða 21
MINNINGAR 21 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 14. JÚNÍ 2019 ✝ Ásta KristjanaÓlafsdóttir fæddist að Þóru- stöðum í Bitrufirði 24. ágúst 1936. Hún lést á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut 3. júní. Foreldrar henn- ar voru Ólafur Elí- as Einarsson, f. 21. október 1901, d. 16. júlí 1973, og Frið- mey Guðmundsdóttir, f. 26. sept- ember 1909, d. 23. febrúar 1969. Systkini Ástu voru Kjartan, f. 27. janúar 1931, d. 5. maí 2005, El- ísabet, f. 10. mars 1932, d. 25. börn þeirra; Halldóra Friðmey, Bergþóra og Brynjólfur Þór. Seinni maður Ástu var Jens Ólafur Guðbrandsson, f. 3. júní 1918, d. 15. apríl 1988. Þau áttu saman tvö börn; 1) Brynjólfur Bjarki, f. 14. júní 1971, kona hans er Helga Kristín Magnúsdóttir, börn þeirra; Jens Ólafur og Ásta Kristjana. Einnig á hann son, Kristófer Jens, með fyrri sambýliskonu sinni Ingunni Bjarnadóttur. 2) Ingibjörg, f. 14. maí 1973, dætur með fyrrverandi sam- býlismanni, Guðbrandi Ein- arssyni, eru Sigríður og Jenný Ólöf. Einnig eru barnabarnabörnin orðin sex; Aron Óli, Guðni Frið- mar, Gabriel Freyr, Teodor Daði, Máni Þór og Harrieth Rós. Útförin fer fram frá Fossvogs- kirkju í dag, 14. júní 2019, klukkan 13. maí 2017, og Einar Ingþór, f. 21. september 1945. Fyrri maður Ástu var Brynjólfur Kristjánsson, f. 8. september 1902, d. 7. september 1960. Þau áttu saman tvö börn; 1) Ólafur Friðmar, f. 12. maí 1956, kona hans er Guðný Gunn- arsdóttir, börn þeirra; Bryndís Ásta, Kjartan og Thelma Ósk. 2) Danfríður Kristín, f. 23. sept- ember 1958, hennar maður er Guðmundur Þór Ármannsson, Elsku mamma. Það er svo margs að minnast. Frá því að ég fæddist hefur þú alltaf verið til svo nú er tóm sem ekki verður fyllt. Allt sem þú gerðir fyrir þína, svo óeigingjarnt, verður seint full- þakkað. Stórt heimili alltaf fullt af gestum og alltaf nóg pláss. Ef ekki vildi betur til, þá var sofið á gólf- inu. Ein af eftirlætis minningunum frá því að ég var krakki var þegar einhvern tímann gerði vitlaust veður og þakplötur fuku um hverfið. Þá vorum ég, Ellý og Ingibjörg látin sofa á gólfinu í ganginum og Linda í burðar- rúminu í baðkarinu því þar voru ekki gluggar. Það var svo gaman hjá okkur krökkunum að þið full- orðna fólkið fenguð ekki svefnfrið. Svo og öll þolinmæðin sem þú hafðir sem veitti víst ekki af þegar ég var pjakkur. Hvort heldur sem var að bæta buxurnar mínar, þó að þú vissir að ég kæmi inn skömmu síðar með göt á hnjánum. Eða þegar ég vildi vera úti að leika allan liðlangan daginn fram að miðnætti og mátti ekki vera að því að borða, þá hafðir þú alltaf tíma til að útbúa eitthvað gómsætt fyrir mig loksins þegar ég mátti vera að. Og svo seinna þegar við vorum að heimsækja þig með Kristófer, Jens og svo nöfnu þína varð alltaf að vera til það sem var í uppáhaldi hjá þeim því þú elskaðir að gera þeim til hæfis. Það væri hægt að segja endalausar svona sögur því þú gerðir allt fyrir okkur. Brauðtertur, rjómatertur, ást- arpungar, kleinur, pönnukökur, Jón á Nautaflötum, sauðburður á Hrútsstöðum, ferðalögin í Sand- hóla og Þórustaði, sumarbú- staðurinn í Eilífsdal, Álfheimar, Helgubraut, ullarsokkar og vett- lingar. Alveg sama hvert litið er, alls staðar eru minningar. Takk fyrir allt, mamma mín. Guð geymi þig. Bjarki. Elsku mamma, þessir síðustu dagar hafa verið ótrúlega erfiðir, allt frá því að þú fórst inn á spít- alann 10. apríl hefur vissan fyrir því að við ættum ekki margar stundir eftir með þér verið til stað- ar. Spítalavistin var þér erfið og eins óvissan um hvað tæki við. En þú varst ótrúlega sterk og það var frekar þannig að þú sæir um að hughreysta okkur þegar við kom- um í heimsókn til þín heldur en á hinn veginn. Það hafa mörg tár fallið síðustu daga og margt verið rifjað upp. Sigga og Jenný Ólöf eru ótrúlega sterkar og duglegar og hafa huggað mig og gefið mér styrk. Ég veit að það ætti að vera á hinn veginn, en ég hef grátgenin frá þér og þær eru sterkari en ég. Ævin þín var oft á tíðum erfið. 1960, þegar þú varst 24 ára, lést Brynjólfur og þú varst ein eftir með tvö börn. Danný tveggja ára og Óli fjögurra ára. Þið voruð búin að koma ykkur fyrir í Reykjavík, en þú fluttir aftur norður til for- eldra þinna og varst hjá þeim þar til ákveðið var að bregða búi og flytja á mölina 1968, þá fluttuð þið í Álfheima 48 öll saman. Svo kynntist þú pabba og eignaðist okkur Bjarka. Gestagangur var alla tíð mjög mikill í Álfheimunum og í minningunni þá finnst mér að það hafi ekki verið oft sem við fjöl- skyldan vorum ein, það voru alltaf fleiri á heimilinu og mikið að gera hjá þér við að halda öllu í lagi og alltaf var til heimabakað bakkelsi. 1984 fluttum við yfir á Helgu- brautina. 1988 lést svo pabbi og þá varstu aftur ein með börn, að vísu aðeins eldri börn, ég 15 ára og Bjarki 17 ára. Baráttan var engu að síður erfið. Þú hafðir oft áhyggjur af okkur börnunum þín- um sem okkur fannst nú alger óþarfi, við töldum auðvitað að við gætum allt. Við systkinin gerðum oft grín að því að þú kallaðir okkur röngum nöfnum, en það kom okk- ur í koll; við gerum þetta öll þegar við erum að tala við eigin börn. Við fluttum í Seljalandið en þegar þú varst svo orðin ein seldirðu í Selja- landinu og fluttir í Lækjarsmár- ann, í notalega íbúð með smá garði sem gaf þér mikið, þú elskaðir að fylla hann af blómum á vorin og al- veg fram á síðasta dag varstu að hafa áhyggjur af því hvernig garð- urinn væri. Þú elskaðir að skoða landið þitt og síðustu árin fórum við í mörg ferðalög saman. Bústaðaferðirnar voru margar, mikið skoðað og margt spjallað. Þú elskaðir að rifja upp og segja okkur frá gömlu dögunum og svo spiluðum við rommí. Þú prjónaðir mikið og ég reyndi að prjóna. Mjög minnis- stæð er hringferðin sem þú fórst með mér og stelpunum 2012, við héldum til á Egilsstöðum og skoð- uðum Austurlandið. Þú varst búin að vera lasin dagana á undan og svo bilaði bíllinn minn og ég var farin að halda að við yrðum að hætta við en allt reddaðist þetta, Bjarki lánaði mér jeppann sinn, þú hresstist og við brunuðum af stað. Ferðin var yndisleg, veðrið lék við okkur og oft sátum við saman og rifjuðum upp þessa daga. Eins voru þær ófáar ferð- irnar sem við fórum saman í Bitr- una til að hitta fólkið okkar og horfa á fjöllin, fuglana og sjóinn. Elsku mamma, kærar þakkir fyrir allt. Guð geymi þig. Ingibjörg Jensdóttir. Í dag kveð ég elskulega tengda- móður mína, Ástu Kristjönu Ólafsdóttur, með söknuð í hjarta og þakklæti í farteskinu. Því það er jú svo margt sem ég á henni að þakka. Allar ánægjustundirnar sem við deildum saman, hvort heldur sem var heima eða að heiman, eru ógleymanlegar. Úti- legan okkar að Þórisstöðum hér um árið er ein þessara ógleyman- legu minninga. Þar fékk hinn ungi Jens Ólafur að sofa í hlýjum faðmi ömmu sinnar í fellihýsi og mátti vart sjá hvort þeirra var glaðara með fyrirkomulagið. En þakklætið á sér þó lengri sögu. Það var nefnilega fyrir nær 20 árum að unga framhaldsskóla- stúlkan ég hitti aðra framhalds- skólastúlku, ættaða norðan úr Bitrufirði. Upphófst mikill og góður vinskapur sem hafði í för með sér kynni, já og vinskap, við Ástu og hennar fjölskyldu. Leið okkar vinkvennanna lá oft á tíðum í Seljalandið þar sem hún tók ætíð á móti okkur með bros á vör og skemmtisögum af vinum og vandamönnum. Síðar felldum við Bjarki, sonur Ástu, hugi saman og varð ég þeirrar blessunar aðnjótandi að eignast Ástu sem tengdamóður. Og góð tengdamóðir var hún mér. Hún var nefnilega þannig hún Ásta mín að alltaf var hún tilbúin að hlusta. Þær stundir sem við átt- um saman eru ófáar og þeir kaffi- bollar sem við nutum saman eru óteljandi, því hún átti jú alltaf heitt á könnunni. Og að ógleymd- um þeim ljúffengu kræsingum sem hún hafði alltaf fram að færa, jafnvel við hið minnsta tilefni, enda var hún Ásta gestrisin með eindæmum. Það kann því engan að undra að sonardóttir hennar og nafna fékk hvergi betri pönnukök- ur en hjá henni ömmu sinni, enda bakaðar af ömmu sem átti ómælda ást að gefa barnabörnum sínum. Elsku Ásta mín, nú er komið að kveðjustund. Takk fyrir þinn inni- lega og trausta vinskap og fyrir þær hugljúfu og gleðilegu stundir sem nú eru minningar sem ég hef um mæta konu, hana tengda- móður mína. Þín tengdadóttir Helga Kristín Magnúsdóttir. Elsku amma. Ég trúi ekki að þú sért farin frá okkur. Það fóru að rifjast upp allar minningarnar um þegar við gist- um hjá þér í Seljalandinu og við fengum að leika okkur með stytt- urnar þínar og gömlu bílana hans Bjarka. Allar sögurnar um sveit- ina sem þér fannst svo gaman að segja okkur frá. Ég hef lengi saknað áramótanna sem voru haldin hjá þér í Seljalandinu. Þeg- ar við bjuggum í kjallaranum hjá þér á Helgubrautinni og ég var alltaf að stelast upp til þín og sagði víst stundum „Góð lykt hjá ömmu“ en þú varst nú þekkt fyrir bakkelsið sem þú reiddir fram þegar fólk kom í heimsókn. Eins man ég alltaf eftir einu lagi sem minnir mig á þig og það er Hlín Rósalín en ég sat víst oft hjá þér og hlustaði og söng með og svo þegar Bergþóra fæðist og ég var spurð hvað hún ætti að heita þá var það annaðhvort Hlín Rósalín eða Perla eins og kisan hans Bjarka hét. Mamma og pabbi voru greinilega ekki alveg sammála mér með það. Á seinustu árunum var voða gaman að segja þér frá dýrunum mínum en þér fannst gaman að hlusta á það og þú elskaðir mýsn- ar og þá mest stökkmúsina hann Skugga en þú varðst alveg miður þín þegar þú vissir að hann hefði dáið. Ég veit að þú ert að passa hann fyrir mig og hin dýrin sem eru komin til þín. Við áttum það sameiginlegt að finnast litir falleg- ir og þú varðst alveg heilluð af öll- um litunum sem ég litaði hárið mitt. Fyrir ekki svo löngu varstu að tala um að þú vildir að ég prjón- aði peysu á þig og hafa hana í fal- legum litum og var ég farin að hlakka svo til að prjóna hana en ég kannski bara prjóna hana og nota hana sjálf. Ég veit að þú ert komin á betri stað mjög sennilega komin í sveit- ina að klappa lömbunum og gefa þeim að drekka, mjólka kýrnar og þér líður betur. Hvíldu í friði, amma mín, þín verður sárt saknað. Þitt barnabarn Halldóra Friðmey. Elsku Ásta amma. „Engum, sem farið hefur um Hrútadal, dylst það, að hann er með fegurstu sveitum landsins.“ Fyrsta setningin í þínum uppá- halds bókum, Dalalíf eftir Guð- rúnu frá Lundi. Þú talaðir mikið um Dalalíf og hvað þær bækur væru yndislegar. Litli bærinn í garðinum þínum heitir líka Nauta- flatir eftir bænum í Dalalíf. Við gerðum margt saman á þessum árum sem við áttum saman. Við fórum í margar bústaðaferðir og þá sérstaklega mikið núna á síð- ustu árum. Þær voru allar svo æð- islegar og það var alltaf svo gaman að ferðast með þér bæði í bústaði og sveitina þar sem þú knúsaðir oft lömbin. Í hvert skipti sem ég mun fara í bústað eða fer og knúsa lömb núna þá mun ég hugsa til þín. Í hvert skipti sem ég spila rommí, sem ég held að ég muni ekki gera oft núna vegna þess að mig vantar uppáhalds spilafélagann minn, mun ég hugsa til þín og allra þeirra góðu spilastunda sem við höfum átt saman. Ég á eftir að sakna allra laugardaganna sem ég kom til þín, í næstum því hvert skipti voru til pönnukökur sem ég byrjaði að hætta að borða vegna þess að ég ákvað að fara í holl- ustuna og þér fannst það alltaf svo leiðinlegt af því að ég var alltaf að segja nei takk við þig en pönnu- kökurnar þínar voru bestu pönnu- kökur sem ég hef smakkað. Alltaf þegar ég mun borða hassí, sviða- tungu og pönnukökur mun ég hugsa til þín. En ég mun sérstak- lega sakna þín á jólunum. Þú varst alltaf hjá okkur á aðfangadag. Ár- ið sem þú varst á spítala um jólin var mjög erfitt vegna þess að það var einn auður stóll hjá okkur og hér eftir verður alltaf auður stóll um jólin. Ásta amma, takk fyrir allt, ég elska þig. Jenný Ólöf. Elsku yndislega amma mín. Ég trúi því ekki að þú sért farin og að ég geti ekki komið til þín þar sem þú tekur á móti mér með opinn faðm, knús, kossa og auðvitað fullt borð af kökum og kræsingum eins og þú varst alltaf þekkt fyrir að vera með. Mig langar svo að geta sest niður og bara spjallað um hitt og þetta eins og við vorum vanar að gera. Þú varst svo stór hluti af lífi mínu og þar sem þú ert farin er eins og það vanti eitthvað. Ég á svo margar góðar minn- ingar um þig að ég gæti skrifað heila bók um þær. Ég fékk stund- um að gista hjá þér í Seljalandinu þegar ég var lítil og þar urðu til margar yndislegar minningar sem ég hef mikið hugsað um síðustu daga. Ein sterkasta minningin mín er sú þegar við lágum upp í rúmi í Seljalandi og ég var í ein- hverri fýlu og vildi ekki fara að sofa. Þú lást við hliðina á mér og reyndir að láta mig hætta í þessari fýlu og fá mig til þess að hlæja að þér. Ég man að ég var alveg að fara að hlæja en eins þrjósk og ég var sem barn þá lét ég mig ekki og hélt áfram að sitja uppi og horfa út um gluggann og fyrst og fremst passa mig að hlæja alls ekki að þér. Svo skyndilega keyrir strætó framhjá glugganum og ég hrópa upp fyrir mig „strætó“. Því ég var svo hissa að sjá strætó keyra um svona seint um kvöld. Ég leit á þig og þú glottir til mín og hrópaðir „strætó“. Ég fór að skellihlæja. Þá hélstu áfram að fíflast með þetta. Það sem við gátum hlegið að þess- ari vitleysu. Við hlógum okkur í svefn þetta kvöldið. Ég mun aldrei gleyma þessu og ekki þú heldur því við töluðum svo oft um þetta og fórum alltaf að hlæja að þessu seinna meir. Það var alltaf svo gott að vera hjá þér. Ég er svo þakklát að hafa farið í heimsókn til þín nokkrum dögum áður en þú varst lögð inn á spítala. Við Máni Þór sátum hjá þér í þrjár klukkustundir og við spjölluðum á meðan Máni lék sér og inn á milli nældi hann sér í súkkulaðimola úr skálinni sem þú komst handa okk- ur. Það var góður dagur. Aldrei hefði ég trúað því þá að nokkrum vikum seinna myndir þú ekki vera hér lengur. Ef ég hefði vitað það þá hefði ég líklegast aldrei farið frá þér. Þú varst mér svo mikilvæg, elsku amma mín. Ég reyni að hugga mig við það að þér líði betur núna og að þú sért komin í sveitina að knúsa litlu lömbin. Ég mun aldrei gleyma þér og hversu góð þú varst mér alltaf. Þú munt alltaf eiga stóran stað í hjarta mínu. Elska þig ávallt. Hvíldu í friði. Þitt barnabarn Bergþóra. Elsku amma, það er stórt skarð í hjarta okkar þegar þú ert farin. Við settumst niður systkinin og skrifuðum þessar línur til þín. Hef nokkrum sinnum verið á leiðinni til þín í kaffi og knús þegar ég man að þú ert ekki hér lengur, þá byrja tárin að renna en svo hugga ég mig við það að Brynki afi og Jens afi hafi tekið vel á móti þér hinum megin. Þú hefur eflaust mætt í góða afmælisveislu hjá Jens afa sem átti afmæli daginn sem þú kvaddir okkur. Ég sé þetta svo fyrir mér, þú verkjalaus og fim á fæti og allir í veislunni svo kátir og dansandi við harmonikkuspil. Allt- af passaðir þú upp á það að allir ættu ullarsokka svo að fólkinu þínu yrði ekki kalt. Þú hafðir alltaf svo miklar áhyggjur af öllu fólkinu þínu, sama hvort við vorum lasin, leið illa eða gætum meitt okkur við að elda eða baka. En aldrei mátti hafa áhyggjur af þér, og vildir ekki vera að trufla vinnandi fólk ef eitt- hvað bjátaði á hjá þér. það lýsir því vel hversu mikið hörkutól þú hefur alltaf verið. Það var undantekn- ingalaust að þú reiddir fram marg- ar sortir á borð, þar á meðal bestu pönnukökur í heimi þegar við kíkt- um til þín og um leið baðstu afsök- unar á því hvað þetta væri fátæk- legt sem það var alls ekki, alltaf veisla hjá ömmu. Það var erfitt að fara í sveitina í vor að knúsa litlu lömbin og vita að þú kæmist ekki til að knúsa þau og finna lyktina af þeim, þér fannst fátt betra. Takk fyrir allt, elsku amma. Blátt lítið blóm eitt er, ber nafnið gleymdu‘ ei mér. Væri ég fleygur fugl, flygi ég til þín. Svo mína sálu nú sigraða hefur þú, engu ég unna má öðru en þér. Leggjum svo kinn við kinn, komdu með faðminn þinn. Hátt yfir hálsinn minn, hönd þína breið. Svo mína sálu nú sigraða hefur þú, engu ég unna má öðru en þér. (Þýsk þjóðvísa) Kær kveðja, Bryndís Ásta, Kjartan og Thelma Ósk Ólafsbörn og fjölskyldur. Það var alltaf svo gott að koma til langömmu, hún var svo hlý og góð. Langamma var ótrúlega góð vinkona. Hún sagði okkur svo oft sögur frá því þegar hún var ung stelpa í sveitinni á meðan við hám- uðum í okkur bestu pönnukökur í heimi. Langamma var svo hugrökk og sterk og alltaf brosandi. Sjáumst seinna. Aron Óli og Guðni Friðmar. Elsku Ásta frænka, það er gott að hugsa til þess að þú ert komin á betri stað eftir erfið veikindi undanfarin ár. En söknuðurinn er mikill í okk- ar fjölskyldu og hjá þínum nán- ustu. Það eru bara tvö ár síðan mamma mín dó en þið systurnar voruð svo nánar að það var gott að leita huggunar til þín þá. Margs er að minnast frá liðnum árum og er ég einstaklega þakk- látur að hafa notið þess í sveitinni hjá afa og ömmu að hafa þig líka þar. Þú varst nú bara mamma mín númer 2 og kenndir mér ansi margt um lífið og tilveruna. Þú hafðir gaman af að dansa og skemmta þér og söngelsk varstu og spilaðir bæði á gítar og harm- onikku. Þú kenndir mér að dansa gömlu dansana og að drekka kaffi með rjóma. Síðar þegar þið Jens voruð flutt í bæinn þá var heimilið ykkar í Álf- heimum svona samkomustaður okkar krakkanna og alltaf yndis- legar móttökur þar á bæ. Ég man að þegar foreldrar mínir fóru til útlanda einu sinni um páskana þá gisti ég hjá ykkur og það var eins og alltaf dásamlegt. Ég bið guð að hugga ykkur í dag, Óli, Danný, Bjarki og Ingi- björg og börnin ykkar svo og barnabörn. Að lokum fylgir með ljóð sem ort er til Ástu. Um haustið einn í húminu kvað og hugljómun skáldið þar fær svo ljúft er til þín að þeysa í hlað þú sem ert mér svo kær. Hann vakir um nótt og vonar það að verndi þig guð okkur nær þá ljúft er til þín að þeysa í hlað þú ert eins og dagurinn skær. Þegar veturinn ríkir þá vitum við það að veðurofsinn léttir ei spor þá ljúft er til þín að þeysa í hlað og þiggja birtu og vor. Að gefa er þér greypt í hjartastað þó grátt sé veður og úfinn sær þá ljúft er til þín að þeysa í hlað þú ert eins og jörðin sem grær. Þegar sumarnóttin frá mér fer fögur hugsun að mér slær þú ert eins og himinninn heiður og tær hjá þér ríkur ég er. (HH) Haraldur Haraldsson. Elsku frænka mín, þá er komið að kveðjustund. Hjá þér fékk ég ómælda hlýju alla tíð og þú varst mér kær sem móðir. Fjölmargar minningar koma upp í hugann þegar ég hugsa til þín. Árin okkar saman í Álfheimum voru svo dýr- mæt. Ég var oft að koma með börnin mín til ykkar Jens og oftar en ekki var mér sagt að við ættum að borða áður en við færum. Helgi minn var á þeim tíma til sjós og þið voruð líkt og foreldrar mínir. Ég gat alltaf stólað á ykkur. Ég man svo vel þegar óveðrið skall á 1981. Þá var ég stödd hjá ykkur í einni heimsókninni með börnin. Var svo á leið út í bíl þegar Jens stoppar mig og segir að ég fari ekkert í þessu veðri. Þessa nótt gistum við börnin hjá ykkur, stórum og smáum til mikillar gleði. Fórum svo í veiðiferðir í Víkurá. Helgi og Jens nutu þess að veiða og við skemmtum okkur ekki síður að eyða stundum saman með börnunum og við elda- mennsku. Allar þessar minningar ylja manni nú þegar þú ert farin. Nú eru Daddi, mamma og þú öll farin. Ég er þess fullviss að það er fagur söngurinn á himnum núna þegar þið systkinin hittist. Elsku Óli, Danný, Ingibjörg, Bjarki og fjölskyldur. Megi góður guð veita ykkur styrk á þessum erfiðu tímum. Elsku frænka mín, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig. Hinsta kveðja frá Gúru frænku og góða ferð á nýjar slóðir. Hafdís Haraldsdóttir (Haddý). Ásta Kristjana Ólafsdóttir

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.