Skessuhorn


Skessuhorn - 22.02.2017, Qupperneq 4

Skessuhorn - 22.02.2017, Qupperneq 4
MIÐVIKUDAGUR 22. FEBRÚAR 20174 Kirkjubraut 54-56 - Akranesi - Sími: 433 5500 - www.skessuhorn.is Skessuhorn kemur út alla miðvikudaga. Skilafrestur auglýsinga er kl. 14.00 á þriðjudögum. Auglýsendum er bent á að panta auglýsingapláss tímanlega. Skráningarfrestur smá- auglýsinga er til 12.00 á þriðjudögum. Blaðið er gefið út í 3.700 eintökum og selt til áskrifenda og í lausasölu. Áskriftarverð er 2.835 krónur með vsk. á mánuði. Elli- og örorkulífeyrisþegar greiða kr. 2.457. Rafræn áskrift kostar 2.226 kr. Rafræn áskrift til elli- og örorkulífeyrisþega er 2.058 kr. Áskrifendur blaðs fá 50% afslátt af verði rafrænnar áskriftar. Verð í lausasölu er 750 kr. SKRIFSTOFA BLAÐSINS ER OPIN KL. 9-16 VIRKA DAGA Útgefandi: Skessuhorn ehf. skessuhorn@skessuhorn.is Ritstjórn: Magnús Magnússon, ritstjóri s. 894 8998 magnus@skessuhorn.is Guðný Ruth Þorfinnsdóttir gudny@skessuhorn.is Kristján Gauti Karlsson kgauti@skessuhorn.is Auglýsingar og dreifing: Emilía Ottesen emilia@skessuhorn.is Lísbet Sigurðardóttir lisbet@skessuhorn.is Umbrot og hönnun: Tinna Ósk Grímarsdóttir tinna@skessuhorn.is Þórarinn Ingi Tómasson toti@skessuhorn.is Bókhald og innheimta: Guðbjörg Ólafsdóttir bokhald@skessuhorn.is Prentun: Landsprent ehf. Starfslok og ekkert múður Um síðustu áramót tóku gildi breytingar á greiðslum til ellilífeyrisþega í kjölfar laga um almannatryggingar, félagslega aðstoð og málefni aldraðra. Breytingar þessar byggja á lögum sem fráfarandi félagsmálaráðherra náði mótstöðulítið í gegn á Alþingi. Breytingarnar voru í kynningu sagðar þær viðamestu sem gerðar hefðu verið á almannatryggingakerfinu í áratugi og fólust meðal annars í breyttu og einfölduðu bótakerfi og sveigjanlegum starfslokum. Því var haldið fram að kerfisbreytingarnar og aukin greiðsla ríkissjóðs inn í lífeyriskerfið leiddi til hækkunar bóta hjá þorra ellilífeyris- þega. Það má vera en málið er ekki sérlega áferðarfallegt þegar nánar er skoðað. Við þessar breytingar var eldra fólki gert ómögulegt að afla sér tekna á efri árum án þess að við þær skerði stórlega lífeyrisgreiðslur sem það á rétt á. Frítekjumark var lækkað í 25 þúsund krónur á mánuði, eða 300 þús- und krónur á ári (ég er ekki að grínast). Allar tekjur umfram frítekjumark, hvort sem það eru atvinnutekjur, lífeyrissjóðstekjur eða fjármagnstekjur, skerða nú lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun. Núgildandi ellilífeyrir, eða grunnlífeyrir eins og það er kallað, tekjutrygging og lágmarksfram- færslutrygging eru sameinuð í einn flokk, ellilífeyri, sem getur að hámarki verið 227.883 krónur á mánuði. Þá er felldur niður með öllu ellilífeyrir ef heildartekjur ná 531.406 kr. á mánuði. Semsagt; „ekki vinna,“ segja stjórn- málamenn. Eldri borgarar þessa lands eru sá hagsmunahópur sem mest og verst læt- ur troða á réttindum sínum og slíkt virðist engan endi ætla að taka. Nú hafa stjórnmálamenn komið því þannig fyrir að ef heilbrigðum einstak- lingi langaði til að vinna hlutastarf eftir að fullri þátttöku á vinnumarkaði lýkur, er viðkomandi refsað fyrir það með svipu, vendi og að endingu stráð salti í sárin. Ég þekki fjölmarga sem blessunarlega eru frískir og óska þess innilega að geta verið virkir þátttakendur í hlutastarfi á vinnumarkaði þótt aldurinn segi sjötíu. Þeir telja einfaldlega að það gæti bætt heilsu þeirra og lengt ævina að hafa eitthvað fyrir stafni hluta úr vikunni. Fjölmörg störf er að finna á vinnumarkaði sem beinlínis henta eldra fólki betur en öðru, til dæmis erlendu farandverkafólki. Þá er vinnumarkaðurinn nú með þeim hætti að atvinnuleysi er í lágmarki. Því gefur auga leið að atvinnulífið hefur mikla þörf fyrir starfskrafta eldra fólks. Ágætt máltæki segir að allir vilji verða gamlir, en enginn vilji vera það. Það eru orð að sönnu. Einhvern veginn finnst mér eins og hin vanmátt- uga tilraun Íslendinga til að byggja upp velferðarkerfi að norrænni fyrir- mynd hafi mislukkast hvað eldra fólk snertir. Við Íslendingar förum ein- faldlega illa með gamalt fólk og ættum að skammast okkar fyrir það. Þannig er þekkt að tekjur sem fólk hefur önglað saman í lífeyrissjóð skerða þær líf- eyrisgreiðslur sem ríkið ætti svikalaust að greiða öllum í gegnum Trygg- ingastofnun. En einnig þar er fólki mismunað. Fólki er refsað fyrir að gera nákvæmlega það sem krafist er af því. Þeir sem fara í gegnum lífið án þess að greiða krónu í lífeyrissjóð, eru svo verðlaunaðir sérstaklega. Ekki bæt- ir úr skák ef fólk er svo ólánssamt að þurfa að búa á öldrunarstofnun. Við innlögn eða búsetu þar er nánast allur lífeyrir hirtur af því, hvort sem það eru tekjur úr ríkissjóði, lífeyrissjóði eða fjármagnstekjur. Náðarsamlegast er greiddur vasapeningur langt innan við hundrað þúsund krónur á mánuði. Viðkomandi er gerður að hálfgerðum ómaga, en ætti að vera meðhöndl- aður af virðingu og þakklæti fyrir það sem hann eða hún hefur gert fyrir land og þjóð. Ekki veit ég hvað veldur þessari framkomu Íslendinga í garð fólksins sem ól þá upp, en hafi þeir skömm fyrir sem ákváðu að koma mál- um þannig fyrir. Magnús Magnússon. Leiðari Síðastliðinn laugardag var lista- verkinu Síberíu komið fyrir á Breiðinni á Akranesi, skammt frá Akranesvita. Elsa María Guðlaugs Drífudóttir er höfundur verks- ins og er það hennar fyrsta úti- listaverk. Það er gert úr rekaviði frá Árneshreppi á Ströndum og var upphaflega smíðað árið 2015 fyrir samsýningu á Vökudögum á Akranesi sama ár. Talið er að lang- stærstur hluti rekaviðar sem rek- ur á fjörur hér á landi komi frá Sí- beríu. Bæjarráð Akraness samþykkti fyrir rúmu ári síðan að kaupa verk- ið og kom listakonan því fyrir á Breið síðasta laugardag og naut aðstoðar föður síns Guðlaugs Maríassonar. Fyrirtækið Smellinn styrkti uppsetningu verksins með því að steypa sökkulinn undir það sem og Vélsmiðja Halldórs, sem gaf sand sem einnig var notaður í undirstöðuna. „Þetta er mitt fyrsta útilista- verk og ég er ótrúlega ánægð að það fái að sóma sér í þessu fallega umhverfi hér á Akranesi,“ skrifar Elsa María í íbúahóp Akurnesinga á Facebook í tilefni af uppsetn- ingu verksins. „Mig langar til þess að þakka Akraneskaupstað fyrir að vilja eignast verkið, Smellinn, Vélaleigu Halldórs Sigurðsson- ar og auðvitað Hilmari vitaverði fyrir veitta aðstoð og svo síðast en alls ekki síst fær pabbi óendanlega miklar þakkir fyrir að hjálpa mér, án hans stæði verkið ekki í dag,“ skrifar listakonan Elsa María. kgk/ Ljósm. Akranes.is Síberíu komið fyrir á Breið Listakonan Elsa María Guðlaugs Drífudóttir við listaverk sitt Síberíu, sem nýverið var komið fyrir á Breið á Akranesi. Nýverið var tekin í notkun ný sjálfs- afgreiðslustöð N1 við Breiðablik í Eyja- og Miklaholtshreppi og geta vegfarendur á Snæfellsnesi sem og heimamenn nú sótt eldsneyti þang- að. Samhliða hefur eldri sjálfsaf- greiðslustöð N1 að Vegamótum verið lokað. Við Breiðablik eru tvær dælur en á hvorri er ein bensíndæla, tvær sem dæla ólitaðri díselolíu en önnur af þeim er fyrir stóra bíla og dælir 80 lítrum á mínútu. Síðan er dæla fyr- ir litaða olíu. Þá er einnig í Breiða- bliki dæla fyrir AdBlue, en því er ætlað að minnka loftmengun frá dísilbílum. Mun sjálfsafgreiðslu- stöðin við Breiðablik vera ein af fáum bensínstöðvum á landinu þar sem hægt er að dæla AdBlue beint á tankinn. „N1 vandaði mjög til verka því þetta er með fullkomnari sjálfs- afgreiðslustöðvum á landinu og við erum mjög ánægð með hana,“ segir Eggert Kjartansson, oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps, í samtali við Skessuhorn. „Aðgengi að dælunum er mjög gott og verður enn betra þegar búið verður að leggja malbik á planið. Það verður gert í vor,“ seg- ir hann. Gestastofa í Breiðabliki Frekari uppbygging er áform- uð í Breiðabliki því hreppsnefnd Eyja- og Miklaholtshrepps stefn- ir á í byrjun mánaðarins að ganga til samninga við Svæðisgarð Snæ- fellsness um að þróa áfram hug- mynd um Gestastofu Snæfellsness á Breiðabliki og finna félagsheimilinu þar með nýtt hlutverk. Eftir sem áður er gert ráð fyrir því að íbúar geti nýtt húsið til félags- og funda- starfa eins og verið hefur hing- að til. Eggert telur það spennandi möguleika að nýta húsið sem gesta- stofu og upplýsingamiðstöð. „Nú er í gangi vinna hjá Svæðisgarðin- um um hvað ætti að vera í Gesta- stofu Snæfellsness. Það er freistandi að hafa þarna aðstöðu til að upp- lýsa og fræða ferðamenn. Um 80% af allri umferð inn á Snæfellsnes kemur um þennan veg sem liggur framhjá Breiðabliki. Menn eiga að reyna að nýta möguleikann á því að geta stoppað fólk og leiðbeint því á ferð sinni. Fræða ferðamenn um þá fjölmörgu áningastaði og ferðaleið- ir sem búið er að byggja upp og geta tekið við gestum og jafnframt kom- ið því á framfæri að aðrir staðir eru ekki í boði. Kynna svæðið fyrir fólki og upplýsa það um hvar það getur fengið það sem leitað er að, hvort sem það er afþreying, matvara, gist- ing eða hvað sem er og benda því á áhugaverða staði,“ segir hann. „Ekkert hefur verið ákveðið í þess- um efnum enn sem komið er en ég sé endalausa möguleika í þessu til að efla atvinnulíf á Snæfellsnesi enn frekar,“ segir Eggert Kjartansson að lokum. kgk/ Ljósm. iss. Sjálfsafgreiðslustöðin við Breiðablik tekin í notkun Sjálfsafgreiðslustöðin við Breiðablik í Eyja- og Miklaholtshreppi hefur verið tekin í notkun. Einnig eru uppi hugmyndir um að opna Gestastofu Snæfellsness í gamla félagsheimilinu á Breiðabliki. Dælur sjálfsafgreiðslustöðvarinnar á Breiðabliki. „Þetta er með fullkomnari sjálfs- afgreiðslustöðvum á landinu,“ segir Eggert Kjartansson í samtali við Skessuhorn.

x

Skessuhorn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.