Skessuhorn - 26.04.2017, Blaðsíða 12
MIÐVIKUDAGUR 26. APRÍL 201712
Nú í liðinni viku var Jörfagleði
haldin í Dölum, en hátíðin er hald-
in annað hvert ár í kringum sum-
ardaginn fyrsta. Mikið var um að
vera vítt og breitt um Dalina, við-
burðir á sviði menningar, íþrótta
og önnur fjölbreytt skemmtun.
Hátíðin hófst með opnu húsi á
leikskólanum í Búðardal og form-
legri setningu í Dalabúð að kvöldi
síðasta vetrardags en það var Jó-
hannes Haukur Hauksson oddviti
sem setti hátíðina auk þess sem
Þorrakórinn, Nikkólína og fleiri
komu fram og skemmtu gestum.
Sumardagurinn fyrsti byrjaði svo
á fjögurra kílómetra hlaupi undir
stjórn UDN frá Eiríksstöðum að
Jörva í Haukadal. Var hlaupið því
nefnt „Frá Eiríki rauða að Jörfa-
gleði“. Seinna um daginn var opið
hús á Sauðafelli en þar er nýupp-
gert tignarlegt hús frá árinu 1897.
Skátarnir voru einnig með ýmis
konar afþreyingu fyrir gesti og
gangandi í Búðardal. Spurninga-
keppni Einars Jóns var haldin í
Dalabúð um kvöldið. Þá var á
föstudagskvöldið einsöngleikurinn
Hvað er bak við ystu sjónarrönd,
eftir Svanlaugu Jóhannsdóttur en
hún er sögumaður og söngkona í
verkinu. Einleikurinn fjallar um
tilfinningaferðalag landnáms-
mannanna hingað til lands og er
gamalli íslenskri tónlist skemmti-
lega fléttað við sýninguna.
Á laugardeginum var mikið um
að vera um alla sýsluna. Þar má
nefna Firmakeppni UDN í innan-
hússknattspyrnu á Laugum í Sæ-
lingsdal en þar fór lið Vegagerðar-
innar með sigur af hólmi. Íþrótta-
mót Glaðs, opið hús og listsýning
var á Jörva í Haukadal en þar er
nýbyggt íbúðarhús við gömlu úti-
húsin á bænum, lifandi sögusýning
Sigurðs Jökulssonar á Eiríksstöð-
um, Davíðsmótið í bridge í Tjarn-
arlundi í Saurbæ auk þess sem
Breiðfirðingakórinn hélt glæsi-
lega afmælistónleika í Dalabúð í
tilefni af 20 ára afmæli sínu. Söng
kórinn eitt lag frá hverju starfsári
og lauk tónleikunum á frumflutn-
ingi á glænýju lagi sem var samið
sérstaklega í tilefni afmælisársins.
Lagið ber nafnið Um átthaganna
slóð en ljóðið er eftir Ólöfu Sigur-
jónsdóttur meðlim kórsins og lag-
ið eftir stjórnanda kórsins Julian
M. Hewlett. Að lokum stóð Björg-
unarsveitin Ósk fyrir dansleik
um kvöldið þar sem hljómsveitin
Meginstreymi spilaði. Auk þess var
haldið DJ ball fyrir unglinga fyrr
um kvöldið.
Hátíðinni lauk svo á sunnudeg-
inum þar sem kór eldri borgara;
Glaðar raddir, söng nokkur lög
og pörupiltar voru með sýninguna
sína í Dalabúð en hún er kyn-
fræðsla á formi uppistands sérstak-
lega sniðin að unglingum. Einnig
má nefna getraun sem var í gangi
yfir hátíðina en þar hafði Ásdís Kr.
Melsted tekið saman barnamynd-
ir af nokkrum Dalamönnum og
gátu gestir reynt að geta sér til um
hverjir einstaklingarnir á myndun-
um væru. Það var hún Kristbjörg
María Einarsdóttir sem var með
flest rétt svör í þeirri getraun.
Óhætt er að segja að hátíðin hafi
verið stútfull af viðburðum úr öll-
um áttum og að nóg hafi verið um
að vera fyrir Dalamenn og aðra
gesti á öllum aldri sér til skemmt-
unar á fyrstu dögum sumarsins.
Steinþór Logi Arnarsson
Jörfagleði haldin með pompi og prakt í Dölum
Vaskir þátttakendur í hlaupinu Frá Eiríki rauða að Jörfagleði í „sumarblíðunni“.
Bjarnheiður Jóhannsdóttir á Jörva (t.v.) sýndi leirmuni og Guðrún Tryggvadóttir
málverk.
Svanlaug Jóhannsdóttir auk undirleikara í einsöngleiknum Hvað er bak við ystu
sjónarrönd?
Breiðfirðingakór í Dalabúð á 20 ára afmælistónleikum sínum.
Sigurlið spurningakeppninnar, Gullin, og umsjónarmaður, f.v. Svana Hrönn,
Hlöðver Ingi, Ásdís Kr. Melsted og Einar Jón.
Þorrakórinn söng við setningu Jörfagleðinnar undir stjórn Halldórs Þ. Þórðarsonar.