Skessuhorn - 26.07.2017, Blaðsíða 18
MIÐVIKUDAGUR 26. JúLÍ 201718
„Vona að við þurfum ekki að
ganga Druslugöngu í framtíðinni“
„Druslugangan er alþjóðleg bar-
áttuhreyfing sem berst gegn því
óréttlæti sem þolendur kynferðis-
glæpa þurfa að lifa við. Í göngunni
kemur saman fjöldinn allur af fólki
sem eru ýmist þolendur, aðstand-
endur og/eða aðilar sem styðja mál-
staðinn og taka afstöðu. Gangan var
upphaflega gengin í Toronto í Kan-
ada árið 2011 vegna umdeildra um-
mæla lögreglustjórans í borginni.
Hann sagði á háskólafyrirlestri að
konur þyrftu að forðast að klæða
sig eins og druslur til að verða ekki
fórnalömb kynferðisglæpa. Þetta
sama ár, þann 23. júlí, var gengið í
fyrsta sinn á Íslandi,“ segir Skaga-
konan Vera Líndal Guðnadóttir
í samtali við Skessuhorn. Hún er
einn af skipuleggjendum Druslu-
göngunnar sem gengin verður í
Reykjavík laugardaginn 29. júlí
næstkomandi.
„Yfirlýst markmið Druslugöng-
unnar er að uppræta kynferðis-
ofbeldi og allar birtingarmynd-
ir þess, kalla eftir bættri úrvinnslu
mála í þessum málaflokki og binda
enda á fordóma sem þolendur kyn-
ferðisofbeldis verða fyrir, en það er
afar mikilvægt að skömminni og
ábyrgðinni sé skilað þangað sem
hún á í öllum tilfellum heima, hjá
gerendum. Á hverju ári höfum við
síðan ákveðna áherslu sem teng-
ist og styður við þessi mikilvægu
markmið okkar,“ segir Vera. Hún
segir að á síðasta ári hafi kastljós-
inu verið beint á fyrirbyggjandi að-
gerðir eins og forvarnir og fræðslu.
„Við bjuggum til örskýringar-
myndbönd þar sem við tókum fyrir
ákveðin hugtök sem hafa vafist fyr-
ir sumu fólki, en þessi hugtök hafa
oft og tíðum verið mistúlkuð og þar
með ekki náð sessi í umræðunni.
Með þessum myndböndum var
markmiðið að skipta skaðlegri orð-
ræðu út fyrir uppbyggilega og opna
þannig umræðu sem vonandi breyt-
ir viðhorfum samfélagsins og kem-
ur í veg fyrir að kynferðisofbeldi
eigi sér stað,“ segir hún.
Stafrænt kynferðisof-
beldi
„Í ár ákváðum við að halda áfram
með mjög þarfa fræðslu um eitt af
þessum viðfangsefnum, en það er
stafrænt kynferðisofbeldi. Hugtak-
ið stafrænt kynferðisofbeldi er frek-
ar nýtt af nálinni, sumir þekkja það
kannski betur sem ,,hefndarklám”,
en það hugtak er ansi skýrt dæmi
um það hversu stutt við erum í raun
komin í þessum málaflokki. Orðið
hefnd á ekki við í öllum tilfellum
og klám á aldrei við þegar um staf-
rænt kynferðisofbeldi er að ræða.
Það þarf að vera skýrt, klám er orð-
ið svo hversdagslegur partur af lífi
fólks að um leið og dreifing á kyn-
ferðislegu myndefni í leyfisleysi er
flokkað sem klám, þá er dregið úr
alvarleika þess. Þvert á móti á ekki
að liggja neinn vafi á því að um of-
beldi er að ræða,“ segir Vera. „Við
viljum að fólk átti sig á því hvenær
það er orðið þátttakandi og þeirri
staðreynd að stafrænt kynferðisof-
beldi getur haft mjög svipaðar af-
leiðingar og annað kynferðisof-
beldi. Þolendur þess sitja eftir í sár-
um, bæði andlega og líkamlega.“
Vera segir okkur vera komin
mjög stutt í þessum málaflokki, þol-
endur mæti oft miklum fordómum
og dómhörku. „Þeim er hreinlega
kennt um að hafa orðið fyrir kyn-
ferðisofbeldi. Þeim er kennt um það
þegar annar aðili tekur þá ákvörðun
að deila kynferðislegu myndefni af
því í leyfisleysi. Þeim er kennt um
það því þau tóku mynd af sér og
sendu hana til einhvers sem þau
treysta. Þeim er einnig kennt um
það þegar annar aðili rænir mynd-
um úr þeirra persónulegu gögnum.
Þeim er meira að segja kennt um
það þegar einhver tekur upp kyn-
ferðislegt myndefni af þeim í leyf-
isleysi og deilir með heiminum í
óþökk þeirra!“ segir Vera.
„Ekki vera gerandi“
Með Druslugöngunni í ár er því
kallað eftir viðhorfsbreytingu
gagnvart stafrænu kynferðisof-
beldi. „Þolandinn á aldrei að bera
ábyrgð á því þegar gerandinn brýt-
ur á þeim, sama hvort það gerist í
lífheiminum eða þeim stafræna. Til
þess að þessi breyting geti átt sér
stað þurfa að verða breytingar á úr-
vinnslu þessara mála og hugarfari
okkar gagnvart þeim. Við þurfum
að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir til
þess að koma í veg fyrir að ofbeld-
ið eigi sér stað,“ segir Vera. „Það
er mjög mikilvægt að við kennum
börnunum okkar snemma í ferl-
inu eðlileg samskipti og hvað það
þýðir að bera virðingu fyrir hvoru
öðru. Mikið af okkar samskiptum
fara fram á samfélagsmiðlum og
það er mikilvægt að við gerum okk-
ur grein fyrir því að ákvarðanir sem
við tökum þar inni eru raunveru-
legar og geta haft áhrif á okkur og
aðra,“ bætir hún við.
Hún segir aðstandendur Druslu-
göngunnar vinna í að dreifa fræð-
andi upplýsingum um það hvenær
stafrænt kynferðisofbeldi á sér stað.
„Því það eru ekki bara ofbeldis-
menn sem eru gerendur. Þetta er
í miklu magni líka að gerast beint
fyrir framan nefið á okkur. Skila-
boðin okkar eru því þessi: „Að
deila, horfa á og/eða taka upp kyn-
ferðislegt myndefni í leyfisleysi er
stafrænt kynferðisofbeldi. Ekki
taka þátt. Ekki vera gerandi,“ seg-
ir Vera.
Alltaf fylgst með
göngunni
Vera er hluti af tíu manna teymi
sem sér í sameiningu um hug-
myndavinnu og praktísk atriði er
snerta gönguna sjálfa, peppkvöld
Druslugöngunnar og samskipti við
fjölmiðla. „Í fyrra verkstýrði ég og
sá um gerð örskýringa myndband-
anna ásamt frábæru fólki í teym-
inu og utan þess. Í ár hef ég verið
tengiliður við göngur úti á landi, en
við erum í góðu samstarfi við Akur-
eyri, ásamt því sinni ég hugmynda-
vinnu fyrir uppátæki ársins, því við
reynum við að finna upp á nýjum
leiðum til þess að dreifa boðskapn-
um. út frá því verða til hin ýmsu
verkefni sem deilast á milli okkar.
Druslugangan gaf til að mynda út
bók fyrir skömmu síðan, en hana
má finna í öllum helstu bókabúð-
um landsins,“ segir hún.
Vera kveðst hafa fylgst með
göngunni og umræðunni í kringum
hana frá því hún var fyrst haldin.
„Ég gekk síðan mína fyrstu göngu
árið 2014 og það er erfitt að lýsa því
hvernig tilfinning það er, maður er
alveg hræður yfir samstöðunni og
kraftinum. Þarna ganga þúsundir
manna og segja ofbeldi og óréttlæti
að fokka sér, fyrir sig og fyrir alla
aðra. Það þykir mér afar fallegt,“
segir hún. „Ég dáðist af þeim sem
stóðu fyrir göngunni í nokkur ár
áður en ég bauð mig fram í street
teymi Druslugöngunnar, en street
teymið er hópur fólks sem aðstoðar
okkur við alls konar verkefni tengd
göngunni. út frá því var mér boð-
ið að vera með í skipulagsteyminu.
Augljósu ástæðurnar fyrir því að ég
ákvað að taka þátt eru þær að mér
er afar annt um málstaðinn, hann
tengist mér og allt of mörgu fólki
í kringum mig með beinum eða
óbeinum hætti. Ég vil sjá breyting-
ar og því legg ég mitt af mörkum til
þess að sjá þær verða að veruleika,“
segir Vera.
Druslugangan hefur
áhrif.
Frá því Vera kynntist göngunni
fyrst hefur hún stækkað verulega.
„En það sem ég tek helst eftir er
hvað samfélagið okkar hefur tekið
miklum breytingum. Á hverju ári
opnast umræðan um kynferðisof-
beldi meira og meira. Samhliða því
bætist í hópinn sem kynnir sér mál-
efnin, tekur afstöðu með málstaðn-
um og gengur gönguna,“ segir hún
og er ekki í vafa um að gangan hafi
haft og muni halda áfram að hafa
áhrif. „Gangan býr til mikilvægan
grundvöll fyrir þolendur kynferðis-
ofbeldis til þess að segja frá. Sam-
staðan og stuðningurinn er mjög
mikilvægur þegar fólk ætlar að taka
fyrstu skrefin í að skila skömm-
inni. Mikil aukning hefur orð-
ið í tjáningu þolenda á þessum sjö
árum. Viðhorf samfélagsins gagn-
vart kynferðisofbeldi hefur breyst
til hins betra og það má þakka
Druslugöngunni og internetbylt-
ingum á borð við free the nipple,
gulu og appelsínugulu brosköllun-
um og beauty tips byltinginnu sem
bar millumerkið #þöggun og/eða
#konur tala, að þetta hafi þróast
svona,“ segir Vera.
Vonar að sem flestir
gangi
Þegar blaðamaður spyr Veru
hvernig hún sjái gönguna fyrir sér
í framtíðinni stendur ekki á svör-
um: „Ég vona að við þurfum ekki
að ganga Druslugöngu í framtíð-
inni,“ segir hún. „Þá vona ég að við
göngum skrúðgöngu og fögnum
því að loksins hafi markmiði okkar
verið náð að útrýma því samfélags-
lega meini sem kynferðisofbeldi
er,“ bætir hún við.
Gangan verður með svipuðu
sniði og verið hefur í Reykjavík.
Gengið verður frá Hallgrímskirkju
klukkan 14 á laugardaginn, niður
Skólavörðustíg og endað á Aust-
urvelli þar sem kraftmikil dagskrá
tekur við. „Við vonum auðvitað að
sem flestir gangi með okkur, sama
hvar fólk er staðsett á landinu. Í
ár höfum við unnið hönd í hönd
með druslum á Akureyri, þær eru
gríðarlega öflugar og við vonumst
til þess að geta nýtt gott samstarf
okkar til þess að spegla það yfir á
önnur bæjarfélög á næstu árum,“
segir Vera Líndal Guðnadóttir að
endingu.
kgk
Vera Líndal Guðnadóttir, einn af skipuleggjendum Druslugöngunnar 2017.
Lagt upp í Druslugöngu frá Hallgrímskirkju árið 2014. Ljósm. Birta Rán.
Slagorð hrópuð og boðskapnum dreift. Ljósm. Birta Rán.
Druslugangan hefur vaxið ár frá ári og er orðinn mjög fjölmennur viðburður. „En það sem ég tek helst eftir er hvað samfélagið
okkar hefur tekið miklum breytingum. Á hverju ári opnast umræðan um kynferðisofbeldi meira og meira,“ segir Vera.
Ljósm. Helga Lind.