Skessuhorn


Skessuhorn - 03.10.2018, Blaðsíða 5

Skessuhorn - 03.10.2018, Blaðsíða 5
Síðastliðinn sunnudag fór fram býsna merkilegur viðburður. Þá var skrifað undir afsal þess efnis að íslenska ríkið eignaðist Hvalfjarðargöng og tæki al- farið við rekstrinum af Speli. Líklega myndi þessi framkvæmd kosta hátt í fimmtán milljarða króna ef ráðist yrði í hana nú. Þannig má segja að Spöl- ur og vegfarendur um göngin hafi á sunnudaginn fært hverju mannsbarni í landinu um eða yfir 40 þúsund krónur að gjöf. Ég fór að reyna að rifja upp hvaða einstaka gjöf hafi verið stærri í seinni tíð. Kannski að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni komist næst því að vera sambærilegt mannvirki að stærð og umfangi, þegar Bretar afhentu Íslendingum flugvöllinn skuldlaust til afnota eftir stríðslok, 6. júlí fyrir 72 árum. Von mín er að betur verði hlúð að þessari gjöf en mér sýnist að gert sé með flugvöllinn. Eftir að þjóðin hafði móttekið þessa fyrirfram ákveðnu en rausnarlegu gjöf á sunnudaginn var boðið til samkvæmis. Þar var eitt og annað rifjað upp varðandi framkvæmdina og aðdraganda jarðgangagerðar. Hvalfjarðargöng eru fyrsta og í raun eina einkaframkvæmd í samgöngum hér á landi. Þá- verandi yfirvöld settu það í hendur einkaaðila að framkvæma verk sem alla jafnan hefði átt að vera kostað af ríkissjóði. Spurningin sem út af stendur er hvort það hefði nokkurn tímann verið ráðist í verkefnið í opinberri fram- kvæmd. Því er ekki hægt að svara. Eins og fram kemur í blaðinu í dag má rekja sögu mannvirkisins þrjá áratugi aftur, þegar hópur stórhuga fólks ákvað að hrinda af stað undirbúningsvinnunni. Umgjörð um framkvæmdina varð strax umdeild. Ég minnist alls kyns úrtöluradda sem töldu þetta glapræði hvernig sem litið væri á málið og enn vitlausara að láta fólk borga fyrir að fara um samgöngumannvirki. Fjölmargir hétu því að fara aldrei þarna í gegn, en skynsemin sagði þeim annað. Í þeim hópi var m.a. virtur eldri bóndi. Gam- an er að rifja það upp að það varð honum til lífs nokkru síðar að búið var að sprengja í gegnum síðasta haftið í göngunum þegar hann veiktist svo hastar- lega að veitt var undanþága til að leyfa sjúkrabílnum að fara í gegn í forgangi. Þannig varð hann meðal þeirra fyrstu til að njóta góðs af þessari samgöngu- bót og bar göngunum reyndar fallega söguna eftir það. Ég man einnig þá tíð þegar aka þurfti Hvalfjörð inn í Botn þegar fara þurfti áleiðis til höfuðborgarinnar. Afskaplega seinleg og í raun hættuleg leið, ekki síst í hálku og roki. Ferðir mínar fyrir fjörð eftir að göngin voru opnuð gæti ég svo talið á fingrum annarrar handar. Göngin voru einfaldlega frá fyrsta degi bylting, sama hvernig á þau er litið. Vel var staðið að undirbúningi sjálfrar framkvæmdarinnar, enda kannski fremur við slíku að búast þar sem um einkaframkvæmd var að ræða. Þarna átti ekki og mátti ekki ráðast í verk sem ekki stæðist áætlanir. Því er gaman að rifja það upp að framkvæmdin sem slík fór einungis eitt prósent fram úr kostnaðaráætlun. Eigum við eitthvað að minnast á bragga í Nauthólsvík eða þingfund á Þingvöllum? Nei, þarna skyldi ráðvendni gætt, annað var ekki í boði. Hægt er að benda á fjölmargt fleira sem vel hefur gengið í rekstri Hval- fjarðarganga. Reynt hefur verið í hvívetna að gæta að öryggi vegfarenda og raunar er ótrúlegt lán að einungis eitt banaslys hafi orðið þegar hvorki fleiri né færri en 36 milljónum bíla var ekið þar í gegn. Áhrifa Hvalfjarðarganga gætir um allt vestan- og norðanvert landið. Bú- setuskilyrði hafa batnað og fólksfjölgun til dæmis á Akranesi hefur á síðustu tuttugu árum orðið tæp 42%, meira en helmingi hraðari en á höfuðborgar- svæðinu á sama tímabili. Þá fjölgun má beinlínis rekja til Hvalfjarðargang- anna en einnig uppbyggingar stóriðju á Grundartanga og nú síðari árin vexti í ferðaþjónustu. Þessi fjölgun hefur orðið þrátt fyrir að ákveðnar atvinnu- greinar hafi nánast þurrkast út á sama tímabili. Ég veit ekkert hvort ég tala fyrir munn Vestlendinga, en í það minnsta vil ég færa Speli ehf, og öllum sem að þessari vel heppnuðu einkaframkvæmd í samgöngusögu landsins komu, bestu þakkir fyrir þeirra þátt. Magnús Magnússon.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.