Skírnir - 01.10.2009, Page 28
282
ÓLAFUR PÁLL JÓNSSON
SKÍRNIR
einstaklinga og á vettvangi þjóðlífsins var leitast við að opinbera
græðgina og skeytingarleysi um siðferðileg og náttúruleg verð-
mæti með gegndarlausu bruðli.
Þessi tvö atriði eru augljós hverjum sem virðir fyrir sér birt-
ingarmyndir tíðarandans áratuginn á undan hruni bankanna, en
þau duga samt engan veginn til að skýra hvað átti sér stað og hvers
vegna það sem gerðist gat yfirleitt gerst. Og þau varpa heldur ekki
ljósi á það, nema með mjög yfirborðslegum hætti, hvers vegna það
uppgjör sem við tók skyldi vera uppgjör við frjálshyggju. Þessi
tvennskonar atriði eru ekki nema fyrsta skrefið í greiningu á því
hvað fór úrskeiðis, bæði í íslensku þjóðlífi og í einkalífi margra
Islendinga. Fullnægjandi skýring á hruni fjármálakerfisins verður
að varpa ljósi á hvers vegna menn voru jafn blindir á hætturnar og
raun ber vitni — hættur sem voru bersýnilega augljósar fyrir
löngu.1 Og þegar kallað er eftir uppgjöri við frjálshyggjuna —
frekar en t.d. uppgjöri við spillingu og huglausa stjórnmálamenn
— verður að fylgja sögunni hvers vegna frjálshyggjan frekar en
spilling eða hugleysi blindaði menn; hvers vegna frjálshyggjan gat
með svo lúmskum hætti grafið um sig í samfélaginu uns hún sjálf
og leiksvið hennar voru hafin yfir allan vafa.
En umræðan hefur ekki öll verið á einn veg. Menn hafa líka
komið til varnar frjálshyggjunni, ekki með því að bera í bætifláka
fyrir upphafningu græðgi og bruðls, heldur með þeim rökum að
frjálshyggjan hafi, þrátt fyrir allt, skilað okkur góðu samfélagi og
að enginn annar hugmyndafræðilegur grundvöllur að skipulagi
samfélagsins sé tækur. Sem dæmi má nefna grein Hannesar Hólm-
1 Carsten Valgreen, sem tók þátt í að semja rannsóknarskýrslu um uppsveifluna í
íslensku efnahagslífi í mars 2006, lýsir viðbrögðunum við skýrslunni ágætlega í
greininni „Hvernig á að endurreisa íslenskt efnahagslíf?". Þar segir hann m.a.:
„Á þessum tíma var ég orðlaus yfir viðbrögðum yfirvalda á íslandi og þau sann-
færðu mig um að hagkerfið stæði enn verr en ég hafði gert mér í hugarlund þegar
verið var að skrifa skýrsluna. Þetta kom mér þannig fyrir sjónir að allir, þar með
talið allir embættismenn, væru staðráðnir í að taka ekki á ástandinu á yfir-
vegaðan og hlutlægan hátt. Þess í stað gáfu viðbrögð flestra, meðal annars opin-
berra stofnana, glögglega til kynna útbreidda hjarðhegðun og hugarfar sem ein-
kenndist af „við á móti þeim“ viðhorfi" (bls. 16). Robert Wade, prófessor við
London School of Economics and Political Science, hafði svipaða sögu að segja
af gagnrýni sem hann setti fram í grein í Financial Times 1. júlí 2008.