Skírnir - 01.10.2009, Page 34
288
ÓLAFUR PÁLL JÓNSSON
SKÍRNIR
Lýðræðið snýst ekki bara um að velja fólk í æðstu embætti og
valdastöður samfélagsins heldur líka um siðferðilegan grundvöll
ríkisins og réttmæti ríkisvaldsins. Það er hér sem lýðræðið og rétt-
arríkið mætast; þegar spurt er um siðferðilegan grundvöll sam-
félagsins þá vísar svarið annars vegar til hugmyndarinnar um lýð-
ræði, þ.e. til þess hvaða hlutdeild borgararnir eiga í stjórn sam-
félagsins, og hins vegar til hugmyndarinnar um réttarríki, þ.e. til
þess hver sé grundvöllur réttmætra laga og þar með réttmætrar
valdbeitingar ríkisins. Þetta seinasta atriði birtist með skýrum
hætti í greiningu Tómasar af Aquino á eðli laga:
... lögin heyra því til sem er grundvöllur athafna manna, vegna þess að
þau eru regla þeirra og mælikvarði. Og með því að skynsemin er grund-
völlur athafna manna, þá er eitthvað í henni sjálfri sem er öllu öðru til
grundvallar; en af þeim sökum verður í einu og öllu að vísa lögum til þess
grundvallar. — En fyrsti grundvöllur athafna manna, sem eru viðfangs-
efni verklegrar skynsemi, er hinsta markmiðið. Og hinsta markmið
mannlífsins er heill eða hamingja, eins og að framan getur. Af því leiðir að
lögin verða fyrst og fremst að skipa til hamingjunnar.
Og litlu síðar:
... þar eð lögin eru það sem fyrst og fremst er skipað til almannaheillar,
þá geta öll önnur fyrirmæli um einstök verk ekki haft eðli laga, nema að
því leyti sem þeim er skipað til almannaheillar. Þess vegna er öllum lögum
skipað til almannaheillar. (Tómas af Aquino, 2004: 68)
Kjarninn í hugmynd Tómasar af Aquino er að til þess að valdboð
geti haft lagagildi, en sé ekki bara ofbeldi hins sterka, þá verður að
vera hægt að réttlæta valdboðið á þeirri forsendu að það stuðli að
almannaheill — „að því sé skipað til almannaheillar“ eins og
Tómas orðar það. Þegar sanngjarnt fólk upplifir lagaboð sem
ranglæti — hvort sem er vegna þess að boðin eiga að tryggja til-
teknum einstaklingum forréttindi eða vegna þess að þau stuðla að
ójöfnuði með því skerða rétt eða möguleika annarra — þá getur
fólk ekki litið svo á að lagaboðið feli í sér réttmætar kvaðir. Þar
með upplifir fólk lagaboðið sem ofbeldi og andóf gegn því sem
sjálfsvörn. Þetta þýðir svo aftur að fólk lifir í andstöðu við það
sem átti að vera sanngjörn umgjörð um samfélagið.