Skírnir - 01.10.2009, Page 42
296
ÓLAFUR PÁLL JÓNSSON
SKÍRNIR
ingja, og (iv) samfélagið stýrist af almennri vitund um og viður-
kenningu á tiltekinni sýn á réttlæti. Það er á forsendum af þessu
tagi sem John Rawls vill byggja kenningu sína um pólitískt rétt-
læti — og það er á einhverskonar svona forsendum sem sérhver
kenning um réttlæti í samfélagi hlýtur að byggjast. Vitanlega geta
menn haldið fram öðrum forsendum, en þær hljóta að fjalla um
þá þætti sem ofangreindar forsendur fjalla um, þ.e. (a) um hver
sé grundvöllur samfélagsins; (b) um hlutverk ríkisvaldsins, (c)
um innbyrðis stöðu einstaklinganna sem mynda samfélagið — ef
um lýðræðislegt samfélag er að ræða hlýtur slík forsenda að til-
taka í hvaða skilningi borgararnir eru í senn frjálsir og jafnir; (d)
um sýn einstaklinganna á það hvað samfélagið er og í hvaða
skilningi þeir telja sig, eða ættu að telja sig, tilheyra því. Það er
síðan hlutverk lögmála réttlætisins að skilgreina nánar á hvaða
forsendum menn búa saman í samfélagi. Rawls orðar þetta með
eftirfarandi hætti:
Hlutverk lögmála réttlætisins ... er að skilgreina sanngjarnar forsendur
félagslegrar samvinnu ... Þessi lögmál kveða á um grundvallarréttindi og
-skyldur sem helstu pólitísku og félagslegu stofnanir samfélagsins deila
út, og þau koma skipulagi á það hvernig þeim gæðum skuli skipt, sem
verða til í félagslegri samvinnu, og dreifa auk þess þeim kvöðum sem
nauðsynlegar eru til að viðhalda henni. (Rawls, 2001: 7)
Eiginlegt samfélagslegt uppgjör, þ.e. gagnrýnin rannsókn á grunn-
gildum samfélagsins sem gerir meira en að róta í yfirborðinu og
leggja til slitróttar breytingar til málamynda, verður að taka til
almennrar og opinberrar rannsóknar forsendur félagslegs réttlæt-
is og leggja því næst til tiltekinn skilning á réttlæti sem byggist á
þessum forsendum. Að því marki sem krafan um stjórnlagaþing,
sem var ein af háværustu kröfum búsáhaldabyltingarinnar, er
krafa um slíka rannsókn á forsendum félagslegs réttlætis, er hún
skynsamleg krafa um uppgjör við fyrri tíma og þáttur í endurreisn
íslensks samfélags.
I framhaldi af greiningu sinni á frumforsendum réttlætisins
leggur Rawls til tvö lögmál sem grundvallarlögmál um pólitískt
réttlæti sem hefur grunngerð samfélagsins að viðfangsefni.