Skírnir - 01.10.2009, Side 48
302
ÓLAFUR PÁLL JÓNSSON
SKÍRNIR
Tjáningarfrelsið er undir svipaða sök selt og lýðræðið og kosn-
ingarétturinn, því þótt öllum sé heimilt að tjá skoðanir sínar, bæði
í blöðum (sem aðsendar greinar) eða á bloggsíðum, þá þurfa
stjórnvöld ekki að leggja við hlustir. Og jafnvel þótt þúsundir
manna fylli Austurvöll laugardag eftir laugardag, fylli Háskólabíó
á borgarafundum, grýti eggjum í Alþingishúsið og gangi fram á
ystu nöf þess sem verður umborið, þá er talað fyrir daufum
eyrum. Það fór þó svo að endingu að ríkisstjórnin hrökklaðist frá
og segja má að búsáhaldabyltingin sé frábært dæmi um það hvaða
áhrif fólk getur haft með sínum venjulegu lýðréttindum. En vald-
hafinn — ríkisstjórnin — streittist við að leggja ekki við hlustir og
þótt búsáhaldabyltingin hafi í raun hrakið ríkisstjórn Sjálfstæðis-
flokks og Samfylkingar frá, þá var opinbera skýringin á stjórnar-
slitunum sú að óeining væri meðal þessara tveggja flokka en ekki
að samfélagið logaði af reiði og vantrausti í garð stjórnarinnar.
Björgvin G. Sigurðsson sagði að vísu af sér, og segja má að hann
hafi með því brugðist við þeirri óánægju sem var í samfélaginu
með störf ríkisstjórnarinnar, en enginn ráðherra Sjálfstæðisflokks-
ins gerði slíkt hið sama. Og þótt Geir Haarde, forsætisráðherra,
hafi tilkynnt að hann hygðist hætta í stjórnmálum, þá var ástæðan
fyrir því á vettvangi einkalífsins en ekki á vettvangi stjórnmálanna.
Af þessum sökum má segja að allur Sjálfstæðisflokkurinn og þorri
Samfylkingarinnar hafi hunsað mótmælin.
Skýrasta dæmið um að tjáningarfrelsi skorti efnislegt gildi er
þó sá skrípaleikur sem viðgengst á Alþingi þegar ráðherrar og
þingmenn í meirihluta svara út í hött og hirða ekki um þau rök
sem þingmenn minnihlutans hafa fram að færa.25
25 Saga tjáningarfrelsis á vettvangi umhverfismála á íslandi er kapítuli út af fyrir
sig og afar lýsandi fyrir muninn á því að hafa formlegan rétt eða rétt sem hefur
það gildi sem gerir hann mikilvægan. Lög um mat á umhverfisáhrifum voru á
sínum tíma viðleitni til að gefa tjáningarfrelsinu viðeigandi gildi á vettvangi
umhverfismála. Samkvæmt þessum lögum var það m.a. hlutverk Skipulags-
stofnunar að taka efnislega og rökstudda afstöðu til athugasemda, hvort sem
þær komu frá almenningi, frjálsum félagasamtökum eða sérfræðistofnunum.
Þessi viðleitni var síðar að engu gerð, fyrst með því að úrskurði skipulags-
stofnunar um Kárahnjúkavirkjun var snúið við af þáverandi umhverfisráðherra,
Siv Friðleifsdóttur, án haldbærs rökstuðnings og síðar með lagabreytingu þar
sem verulega var dregið úr vægi Skipulagsstofnunar og aðkomu almennings. Sjá