Skírnir - 01.10.2009, Side 62
316
BERGLJÓT KRISTJÁNSDÓTTIR
SKÍRNIR
hengi og vísar í og ræðir um svo mörg skáld og fræðimenn, inn-
lend og erlend, að bók hans er náma af margskonar hugmyndum
um skáldskap. Meðal þess sem hann gerir til að víkka umfjöllun
sína er að skrifa tvo texta sem hann kallar útúrdúra, annar heitir
„Utúrdúr um ljóðbyltingar. Þættir úr sögu nútímaljóða“, hinn
„Utúrdúr um mælskubrögð. Poeta rhetoricus".
Naumast er efamál að þessi einkenni á bók Þorsteins munu
verða til þess að áhugamenn um ljóðlist eiga eftir að sækja óspart
í hana þannig að hún gæti orðið undirstaða frjórrar umræðu um
ljóð Sigfúsar og nútímaljóð almennt.
Undanfarna tvo áratugi hafa hugræn fræði markað bókmennta-
rannsóknir í auknum mæli. Eitt af því sem þau hafa að bjóða eru
niðurstöður úr rannsóknum á tilfinningum eða geðshræringum.9
Það nefni ég af því að Þorsteinn gerir sér far um í Ljóbhúsum að
kveða niður klisjuna, sem hefur fylgt ljóðum Sigfúsar, ekki bara í
skrifum um þau heldur líka umræðum.10 Hún hefur tekið á sig
ýmsar myndir en kjarni hennar er yfirleitt: Það skortir ástríðu/til-
finningar í ljóð Sigfúsar; þau höfða til vitsmuna.
Þegar maður sér hvað eftir annað að Þorsteinn tengir vitsmuni
og tilfinningar í ljóðum Sigfúsar, kemur grallarinn upp í manni og
spyr: Hvernig ætli þeir sem harðast vilja ganga fram í því að greina
vitsmuni og tilfinningar sem andstæður í skáldskap, brygðust við
ef þeim væri gert að lesa skrif ýmissa sálfræðinga sem telja að
geðshræringar séu grundvöllur vitsmunalífs eða lykilþáttur í því
— að þær séu t.d. „frumstæð gerð ómeðvitaðrar rökleiðslu"?* 11
9 Hugfræðingar sem skrifa á ensku greina gjarna á milli feeling og emotion. Væri
reynt að yfirfæra þann mun á íslensku, væri barn að lýsa tilfinningu þegar það
brennir sig og segir óðara „Mig svíður“ en geðshrœringu þegar það æpir á félaga
sinn „Ég hata þig!“. íslensku orðin tilfinning og geðshrœring eru sambærileg
við þau ensku en aðgreining þeirra er ekki almenn í umræðum um bókmennt-
ir hérlendis svo að ég tala um geðshræringar þegar ég vísa til verka erlendra
höfunda, annars tilfinningar.
10 Hér byggi ég einfaldlega á reynslu minni sem kennara.
11 P.N. Johnson-Laird og Keith Oatley, „Emotions, Music and Literature",
Handbook of Emotions, 3. útgáfa, ritstj. Michael Lewis, Jeannette M. Haviland-
Jones, og Lisa Feldman Barrett, New York 2008, The Guilford Press, bls. 104.
Á ensku segir „a primitive sort of unconscious reasoning".