Skírnir - 01.10.2009, Síða 64
318
BERGLJÓT KRISTJÁNSDÓTTIR
SKÍRNIR
Sér hún upp koma
öðru sinni
jörð úr ægi
iðjagræna.17
Við slíkar rannsóknir mætti hafa hliðsjón af verkum ýmissa
þeirra18 sem kannað hafa ljóð með tilliti til sameiginlegra megin-
einkenna í vitsmunalífi manna og/eða reynt að átta sig á því hvað
í tilteknu ljóði höfði til þátta sem ætla má að öllum mönnum séu
sameiginlegir, og hvað ekki — svo eitthvað sé nefnt.
Bollaleggingum, sem spretta af athugasemdum Þorsteins um
vitsmuni og tilfinningar, tengjast aðrar. Víða í Ljóðhúsum víkur
hann að hrynjandi í ljóðunum sem hann fjallar um og tengir hana
stundum tónlist og dansi. Hann nefnir Sigfús meðal annars
„sveiflumeistar[a]nn í skáldahópi" (25), og segir að tíunda ljóð
fyrstu bókar hans, „Dægurlag" mætti kannski kalla „djassútsetn-
ingu“ (48) á stefjum í Límanum og vatninu. Orð af þessu tagi leiða
hugann að því hvaða áhrif samspil hljóms og hrynjandi hefur á til-
finningar þess sem les ljóð í hljóði og hefur ekkert við að styðjast
nema orð á blaði, sitt „innra eyra“ og sína „innri rödd“,19 og svo
aftur hins sem hlustar á ljóð lesið eða les það sjálfur upphátt. En
þær vekja líka upp hugrenningar um hversu margt er ókannað í
íslenskum nútímaljóðum þegar hrynjandi og hljómur eiga í hlut
— og hvernig væri vert að standa að rannsóknum á þeim. Tökum
sem dæmi skáletruð orð þessa erindis í „Suður yfir Mundíafjöll"
— en Þorsteinn segir að það ljóð gæti allt eins heitið „Andspænis
feigðinni" og nefnir að Sigfús setji sig líklega í spor Konráðs Gísla-
sonar, sem ljóðmælandi talar til:
17 „Völuspá", Eddukvœði, Gísli Sigurðsson sá um útgáfuna, Reykjavík 1998: Mál
og menning, bls. 16.
18 Hér mætti nefna marga en ég læt mér nægja fáeina: Reuven Tsur, Peter
Verdonk, Peter Stockwell og Margaret Freeman.
19 Um „innra eyra“ og „innri rödd“, sjá t.d. J. David Smith, Margaret Wilson og
Daniel Reisberg, „The role of subvocalization in auditory imaginary",
Neuropsychologia 33: 11,1995, bls. 1433-1454; André Aleman og Mascha van‘t
Wout, „Subvocalization in auditory verbal-imagery: just a form of motor im-
agery?“, Cognitive Processing, 5: 4, 2004, bls. 228-231. Rannsóknir í þessum
efnum eru ekki ýkja langt komnar — menn greinir t.d. á um hvert samband
hreyfiskynjunar og hljómskynjunar er þegar lesið er í hljóði.