Skírnir - 01.10.2009, Page 91
SKÍRNIR
PÝÞAGORAS, RÍSÓMIÐ OG RÚNIRNAR
345
þegar hæpið er að miða fyrirbærin við trémynstrið, eins og hér að
ofan, drögum við samt upp mynd af ferli sem gengur „þvert á
greinarnar“ (þótt þessi ferli séu greinilega öll af sama meiði).
Á áttunda áratug síðustu aldar lögðust Gilles Deleuze og Félix
Guattari til atlögu við tréð, m.a. með ritgerð sinni „Rhizome".
Ritgerðin var endurprentuð sem fyrsti kafli rits þeirra Mille pla-
teaux (1980), en hún hefur komið út í íslenskri þýðingu Hjörleifs
Finnsonar undir titlinum „Rísóm“ (Deleuze og Guattari 2002:
14-58). Fyrir Deleuze og Guattari tákngerir tréð „stigveldis-
bundnar formgerðir og línulega hugsun“ (svo ég notfæri mér
orðfæri Geirs Svanssonar í formála að Heimspeki verðandinnar,
9). Tréð birtist einna skýrast í málvísindum, hvort sem er í mál-
sögulega ættartrénu eða í setningarfræðilegum hríslumyndum
generatífrar málfræði; en höfundar sjá merki þess víðar: „Það er
merkilegt hvernig tréð hefur drottnað yfir hinum vestræna raun-
veruleika og allri vestrænni hugsun, allt frá grasafræðinni til
líffræðinnar og líffærafræðinnar, en einnig yfir þekkingarfræðinni,
guðfræðinni, verufræðinni, heimspekinni allri“ (Deleuze og
Guattari 2002: 43). M.a. hefur þessi hugsun mótað orðræðu rök-
hugsunar í íslensku, eins og við sáum hér að ofan: við tölum ávallt
um greiningu á fyrirbærum.
Gegn trénu tefla Deleuze og Guattari fram rísóminu eða rót-
arávextinum sem vex með öðrum hætti, ekki með tvígreindum
kvíslum sem mynda stigveldi, heldur sem heilmynd eða hólógraf.
Með orðum Geirs Svanssonar er rísómið „órætt eða óendanlega
margrætt; það afbyggir stigveldið, grefur undan forræði, myndar
óvænt tengsl og framleiðir flóttalínur undan valdformgerðum, bæl-
ingu og kúgun sem hindra ,mikilvægustu tengsl okkar við heim-
inn‘: Framleiðslu á þrám “ (Geir Svansson 2002: 10). Meðal helstu
einkenna rísóms er að „hvaða punktur rísóms sem er getur tengst
og verður að tengjast hvaða öðrum punkti rísoms sem er.“13
13 Mín þýðing. Hjörleifur þýðir „... getur tengst og verður að geta tengst hvaða
öðrum punkti rísóms sem er ...“ en samkvæmt Deleuze og Guattari eru allar
þessar tengingar ekki aðeins hugsanlegar heldur nauðsynlegar, þær skilgreina
sjálft fyrirbærið: „n’importe quel point d’un rhizome peut étre connecté avec
n’importe quel autre, et doit l’étre" (Deleuze og Guattari 1980: 13). — Á öðrum