Skírnir - 01.10.2009, Page 106
360
BJÖRN ÞÓR VILHJÁLMSSON
SKÍRNIR
vekur athygli við ummæli Bersa og atvikið á Hótel Pallas er hvernig
hann dregur með framkomu sinni úr brotalömum í eigin skap-
gerð. Hann játar á sig „syndir“ (að hafa fé af ekkjum og munaðar-
lausum en lifa sjálfur í vellystingum) en sjálf játningin er leikræn
og reiðir fram ákveðna „fjarvistarsönnun" þar sem vitund um
sektina og hin opinskáa viðurkenning grafa undan vigt hennar,
ætla má að hann áfellist sjálfan sig. Af svipuðum toga er afskipta-
leysi Bersa í garð fjölskyldu sinnar. Hann heldur því ávallt fram að
fjölskyldan skipti sig meira máli en nokkuð annað, en vanrækir
hana engu að síður og forðast eins og hann getur að vera í sam-
vistum við hana — með sorglegum afleiðingum. A þennan máta á
Bersi það til að breyta umhverfi sínu í eins konar leiksvið þar sem
hann sjálfur er aðalleikari, og tilvísunin hér að framan í norska
leikskáldið Henrik Ibsen er því ekki úr lausu lofti gripin.4
Bersa virðist þó ekki á móti skapi að eftirláta öðrum sviðið um
stundarsakir.5 Það gerir hann til að mynda í veislu sem hann efnir
til á Djúpvík seint í verkinu: „Sjálfur sat hann yfir drykk sínum
utansviðs, stundum einsog sýníngargestur á fyrsta innbekk,
stundum útí horni einsog maður sem hefur keypt sér pláss á
efstusvölum" (Halldór Laxness 1972: 239). Þarna er leikhúsmynd-
mál notað til að gefa í skyn einangrun Bersa mitt í gleðskapnum,
hvernig hann er eins og áhorfandi að eigin lífi, en athygli vekur að
myndmálið og staða Bersa „utansviðs“ er ekki endilega til þess
fallin að draga upp mynd af honum sem „utanveltu“ eða áhrifa-
lausum. Þvert á móti er sjónmál Bersa ríkjandi og jafnvel viðmiðið
sem gerir athafnir allra hinna hálfhlægilegar: „[Bersi] lagði ekki
orð í belg nema til að fara með vísupart sem kom af fjöllum, eða
leggja fyrir menn þraut; en ístran á honum gekk í bylgjum. Þó
kom fyrir að hann hélt svo leingi niðrí sér hlátrinum að seinast
4 Þess má geta að í Guðsgjafaþulu er minnst á Henrik Ibsen á fjórum stöðum. Þar
er á ferðinni strengur dýrafræðilegs spursmáls sem gengur á skondinn hátt í
gegnum bókina þegar persónur velta fyrir sér af hvaða tegund villiönd skáldsins
hafi verið, sjá Halldór Laxness 1972: 121, 211, 213 og 214. Hér er þó ekki um
eintóma gamansemi að ræða því spurningin um samsvörun skáldskapar og veru-
leika, tungumáls og hluta, er eitt af meginviðfangsefnum sögunnar, líkt og allra
ævisagna.
5 Á þetta hefur Hallberg (1973) bent.