Skírnir - 01.10.2009, Page 110
364
BJÖRN ÞÓR VILHJÁLMSSON
SKIRNIR
kjölfestu í veröldinni, en auk verkalýðsleiðtogans mætti hér vísa
til ólíkra hlutverka sem Bersi gegnir í Guðsgjafaþulu. Lífshlaup
hans einkennist af sífelldri endursköpun og röð „dulargerva" sem
eru í mótun frá einni stund til annarrar og því fljótandi og ótraust.
Það er svo annað en ekki allsendis óskylt mál að hugsanlegt er að
lýsa síðustu birtingarmynd Bersa í textanum, þar sem hann situr
með fiðlu við vangann, hrumur og týndur í fortíðinni, og leitar
árangurslaust að hinum eina sanna tóni, sem afhjúpun þess djúp-
stæða tómleika sem Durante gerir að umtalsefni. I þessu tilviki er
einnig um að ræða sterka og skýra vísun höfundar í eigið verk, þ.e.
Brekkukotsannál, þar sem leitin að hinum hreina tóni er rauður
þráður. Þar hefur hinn hreini tónn hins vegar aðra stöðu í textan-
um. Ekki er hægt að útiloka að Álfgrímur finni hann, og hafi jafn-
vel fest á honum hendur með „sköpun“ textans sem hann miðlar
sjálfur lesendum og er í vissum skilningi höfundur að innan sög-
unnar. Þannig hafi Álfgrímur jafnframt sneitt hjá því að verða
fórnarlamb „gervileikans" ólíkt Garðari Hólm sem klæddist dul-
argervi alla sína ævi. Islandsbersi á þannig ýmislegt sammerkt með
Garðari en textinn sem heild kemur í veg fyrir að hinum sanna
tóni (sem jafnvel má lesa sem frásagnaraðferð raunsæisskáldsög-
unnar) verði náð. Guðsgjafaþula syrgir með öðrum orðum fjar-
veru tónsins sem alltaf er innan seilingar í Brekkukotsannáli.
Því er einnig óhætt að halda því fram að „sannleikanum" um
Bersa sé aldrei ljóstrað upp, og jafnvel mætti ganga svo langt að
segja að hugmyndinni um slíkan sannleika sé á vissan hátt úthýst
úr textanum. í framhaldinu er vert að velta fyrir sér frekari skír-
skotunum sviðsetningamyndmálsins og spyrja hvað verði um
þann „samning" sem höfundur gerir við lesendur um áreiðanleika
söguheimsins þegar í ljós koma margvíslegar efasemdir um hæfi-
leika sögumanns til að miðla frásögninni. Að skrifa bók kallar
hann á einum stað ,,óleysanleg[an] vanda“ (Halldór Laxness 1972:
188), og öðru sinni lýsir hann hversu seint hugmyndin um sjálft
ritverkið, „ævisögu" Bersa, hafi komið fram. Hann hafði nóterað
hjá sér í minniskompu lýsingu á Kaupmannahafnardögunum árið
1920, sem síðar verða upphafskaflar bókarinnar, án þess þó að sú
frásögn væri sett í samhengi við stærra verkefni: