Skírnir - 01.10.2009, Side 120
374
BJÖRN ÞÓR VILHJÁLMSSON
SKÍRNIR
við staf, klæddur í sjakket með svokallaðan listamannshatt á höfði
og ábúðarmikinn bindishnút um hálsinn. Óskar, sem er í raun
ekki miklu eldri, tuttugu og sjö ára, er sömuleiðis í sjakket, með
kúluhatt og harðflibba en báðir halda þeir á frökkum sínum á
vinstri handlegg.
I ljósmyndinni má finna svo sterkan samhljóm við lýsingu
skáldsögunnar á fundi hins ómótaða rithöfundar og stórgrósser-
ans Islandsbersa að hún verður í raun eins konar hliðartexti við
Guðsgjafaþulu, merkilegt en eilítið ókennilegt „sönnunargagn“
um samslátt skáldskapar og veruleika.20 Á myndinni gefur að líta
ungan og upprennandi rithöfund sem aðeins ári fyrr hafði gefið út
sína fyrstu skáldsögu, og það er athyglisvert að horfið sé aftur til
þessa augnabliks í upphafi síðustu skáldsögu umrædds rithöfund-
ar. En þannig býr jafnframt saga í myndinni sem ljær henni
ákveðið seiðmagn. Áhrif hennar tengjast því sem menn vita um
hana, það sem hafði átt sér stað og það sem átti eftir að eiga sér
stað. Framtíðarferill, lífshlaup og fjarvera rithöfundarins litar hana
á sérstakan hátt, virðist jafnvel búa í henni, og þannig felur hún í
senn í sér upphaf og endalok, í raun splundrar hún tímanum.21
Hið „óeinstaklingsbundna auga“ ljósmyndavélarinnar, eins og
Halldór kallaði það eitt sinn, getur þannig skapað allsérstæða minn-
isvarða um liðnar stundir.22 Guðsgjafaþula fjallar öðrum þræði um
það hvernig slíkir minnisvarðar eru reistir. „Tíminn hafði runnið
framhjá mér eins og blátt vatn“ (Halldór Laxness 1972: 86) segir
sögumaður á einum stað og sú eftirsjá sem litar fullyrðinguna birt-
ist með reglubundnum hætti í framvindu sögunnar en nær hámarki
þegar líður að endalokum. Á síðasta fundi Bersa og sögumanns reif-
ar sá fyrrnefndi, eins og áður segir, hugmynd sína um vaxmynda-
safn. Hann ítrekar jafnframt það verkefni sögumanns að skrifa um
sig ævisögu, og virðist nú vera meira niðri fyrir en áður.
20 Sjá t.d. umfjöllun um ljósmyndina og lýsingu á sambærilegum atburði í skáld-
sögunni í Kynningariti Laxnessklúbbsins (1991). Itarlegust og forvitnilegust er
þó umfjöllun Matthíasar Johannessen (1985: 186-188) um tengslin þarna á
milli, en Matthías hefur eftir Halldóri söguna að baki tilurð ljósmyndarinnar,
svo og hvernig hún kom aftur í leitirnar eftir útkomu Gtíðsgjafaþulu.
21 Varðandi ljósmyndir, tíma og forgengileika, sjá Kracauer 1995.
22 Halldór Laxness 1929: 175.