Skírnir - 01.10.2009, Page 162
416
DAVÍÐ KRISTINSSON
SKÍRNIR
ingarkennda afstaða, sem Ibsen lætur Nóru tjá, felur í sér að
móðureðlið er sett skör lægra en einstaklingseðlið sem einkennir
hina sönnu manneskju, konur jafnt sem karla. Hið róttæka í ein-
staklingshyggju Ibsens er að hún skuli ná jafnt til beggja kynja.
Það fór ekki framhjá norska heimspekingnum Anathon Aall hversu
samkvæmur sjálfum sér Ibsen er í einstaklingshyggju sinni:
Einstaklingshyggja Ibsens verður byltingarkennd [...] með Brúðuheimili
[...]. Spurningin um frelsun konunnar er að sjálfsögðu hluti af stefnuskrá
einstaklingshyggjunnar. [...] Konan er [...] fyrst og fremst álitin pers-
ónuleiki, og þar með fær spurningin um hlutskipti hennar og réttindi fasta
undirstöðu. Frá þeirri stund sem tekið er að líta á konuna sem einstakling
vaknar hjá henni, eins og hjá manninum, spurningin hvernig þetta ein-
staklingseðli eigi að gera tilkall til frelsis, sannleika og fyllingar.118
Framsæknir heimspekingar tóku undir þá róttæku skoðun Ibsens
að konur ættu sama rétt og karlar á því að raungera sig sem mann-
eskjur, en afturhaldssamari hugsuðum fannst það hins vegar ekki
jafn sjálfgefið. Þannig var til dæmis heimspekingurinn og sálfræð-
ingurinn Guðmundur Finnbogason heillaður af hetjulegri ein-
staklingshyggju leikskáldsins, en hann virðist hafa átt erfiðara með
að ímynda sér að konur ættu einnig að lifa í samræmi við innsta
eðli sitt.
I augum Ibsens stóð þroska einstaklingsins hætta af þjóðfélaginu með
öllum þess lögum og hömlum, venjum, tilliti og tiktúrum, er binda menn
við borð, hamla frjálsri hreyfingu þeirra og gera þá hálfa og hikandi.
Hugsjón hans voru heilir menn, frjálsir menn, djarfir drengir, er lifðu
samkvæmt eðlislögum sjálfra sín.119
Tvískinnungurinn birtist í því að frá sjónarhóli hins afturhalds-
sama samfélags hafði Nóra engum skyldum að gegna við sjálfa sig
sem manneskju heldur fyrst og fremst við aðra, eins og Helmer,
Strindberg og aðrir málsvarar feðraveldisins gengu að vísu. Henni
var ekki úthlutað einstaklingseðli heldur í mesta lagi séreðli, kven-
118 Anathon Aall, „Filosofien i norden", Edda. Nordisk tidsskrift for litteratur-
forskning 1917, s. 87-107, s. hér 96-97.
119 Guðmundur Finnbogason, „Ibsen og íslendingar", Vaka 2/1928, s. 132-146,
hér s. 134.