Skírnir - 01.10.2009, Side 164
418
DAVÍÐ KRISTINSSON
SKÍRNIR
markmið viðleitninnar að „kvennamálið" hætti að vera til, að það glati
nafni sínu og farist í hinu stóra málefni manneskjunnar \menneskesak].m
Vitaskuld var það til marks um skælt samfélagsástand að Ibsen
skyldi, á meðan hann vann að handriti Brúðuheimilis, þurfa að
berjast fyrir því að konur hlytu atkvæðisrétt eins og karlkyns
félagsmenn Skandinavíska félagsins í Róm; að hann yrði jafnframt
að beita sér sérstaklega fyrir því að konur, jafnvel þótt þær væru
hæfari en karlkyns mótumsækjendur, yrðu ráðnar í starf bóka-
varðar félagsins;122 að hann skyldi fimm árum síðar þurfa að beita
sér fyrir því að norskar eiginkonur hefðu sömu lagalegu réttindi
og eiginmenn þeirra, væru fullveðja og hefðu fjárforræði. Það var
sömuleiðis til marks um óviðunandi ástand að Nóra þyrfti að
berjast fyrir því að vera álitin manneskja, persónuleiki og einstakl-
ingur til jafns við eiginmann sinn. Mörg þessara kvenfrelsismála
hafa horfið í hinu stóra málefni manneskjunnar. En það er til
marks um afbakað samfélagsástand að enn þurfi að berjast fyrir
því að konur hljóti sömu laun og karlkyns starfsbræður þeirra; að
þær séu enn í miklum minnihluta í umræðuþáttum (þar sem reynt
er að komast til botns í málunum); að samfélagið álíti ennþá feðra-
skyldur ekki jafn helgar og skyldur einstæðra barnsmæðra þeirra;
að konur séu ennþá fremur sjaldséðar í æðstu stöðum fjármála-
geirans, að þær séu meirihluti háskólanema en þó mikill minni-
hluti háskólakennara; að femínískar fræðikonur mæti enn tölu-
verðri andúð innan háskólanna. Og óneitanlega skýtur það
skökku við að fræðimenn á borð við Róbert H. Haraldsson kapp-
kosti enn á 21. öld að sýna fram á að femínískt verk á borð við
Brúðuheimili sé það ekki í raun — og gangi í þeirri viðleitni mun
lengra en andfemínískir leikdómarar á þriðja fjórðungi 20. aldar í
því að úthýsa kvenfrelsismálinu úr Brúðuheimili Ibsens.123
121 Gina Krog, „Noen ord om kvinnesakens utvikling og nærmeste oppgaver i
várt land“ (1884), ritstj. Kari Skjonsberg, Mannssamfunnet midt imot. Norsk
kvinnesaksdebatt gjennom tre „mannsaldre*, Ósló: Gyldendal 1974, s. 46.
122 Sjá H. Ibsen, „I den skandinaviske forening i Rom 27. februar 1879 (Forslaget
om bibliothekaren)", Samlede verker, 15. bindi, s. 396-407.
123 Eg þakka Agli Arnarsyni, Dagnýju Kristjánsdóttur, Hjörleifi Finnssyni,
Laufeyju Guðnadóttur, Sigríði Þorgeirsdóttur, Skúla Sigurðssyni, Stefáni
Jónssyni og Viðari Þorsteinssyni yfirlestur og ábendingar.