Skírnir - 01.10.2009, Page 171
SKÍRNIR NORRÆNT ÖRYGGIS- OG VARNARSAMSTARF 425
beint sjónum sínum í auknum mæli að alþjóðlegri samvinnu. Jan
Petersen, fyrrum formaður varnarmálanefndar norska þingsins,
lýsti stefnunni með þessum orðum:
Við sjáum ekki raunverulegar ógnir en ýmsar mismunandi hættur. Við
byggjum auðvitað á okkar sögulega bakgrunni og viljum hafa ákveðinn
svæðisbundinn viðbúnað, án þess þó að vera með stærðarinnar herdeild-
ir á hverju strái. Veran í NATO er hluti af því og hér er til dæmis ekki
deilt um veru norska hersins í Afganistan. Við lítum svo á að samhengi sé
milli ógnanna sem Afganar standa frammi fyrir og hryðjuverka og okkar
öryggis. Þannig að nú ná varnir yfir víðara svið en áður.16
Eftir Kalda stríðið héldu Svíar stefnu sinni til streitu um að standa
utan hernaðarbandalaga, að minnsta kosti í orði. En þegar þeir
gerðust aðilar að Evrópusambandinu árið 1995, þar með talið að
varnarhlutanum, varð ljóst að forsendan fyrir hlutleysisstefnu á
stríðstímum var ekki lengur fyrir hendi. Auk þess hafa Svíar unnið
mjög náið með NATO. „Við stöndum utan bandalaga en við
getum ekki verið ein á báti í alþjóðlegu samhengi. Við verðum að
vinna með öðrum,“ útskýrir Rolf Gunnarsson, varaformaður varn-
armálanefndar sænska þingsins.17 Raunar má segja að Svíar taki
þátt í öllu starfi NATO nema því sem lýtur að 5. grein um að árás
á eitt ríki þýði árás á þau öll.18 Hvatinn að þessari nánu samvinnu
er von Svía um að NATO kæmi til hjálpar ef á Svíþjóð yrði
ráðist.19 Þeirri stefnu var reyndar einnig fylgt í Kalda stríðinu, en
þá átti sænski herinn í leynilegu sambandi við NATO og Banda-
ríkjamenn og miðaði allan sinn varnarviðbúnað við hugsanlega
innrás Rússa.
Finnar vinna jafnframt náið með NATO og bæði þar og í
Svíþjóð er umræðan um mögulega aðild að bandalaginu viðvar-
16 Viðtal við Jan Petersen, þáverandi formann varnarmálanefndar norska þings-
ins, 9. mars 2009. Petersen var formaður varnarmálanefndar norska þingsins
þegar viðtöl í tengslum við þessa grein voru tekin. Hann hefur nú verið skip-
aður sendiherra Noregs í Austurríki.
17 Viðtal við Rolf Gunnarsson, varaformann varnarmálanefndar sænska þingsins,
12. mars 2009.
18 Viðtal við sænska fræðimenn, 7. nóvember 2009.
19 Viðtal við sænskan fræðimann og ráðgjafa, 13. mars 2009.