Skírnir - 01.10.2009, Page 184
438
HALLA GUNNARSDÓTTIR
SKÍRNIR
Þó að í opinberri orðræðu á Norðurlöndum sé lögð rík áhersla
á að leysa eigi mögulegar deilur vegna norðurslóða með samning-
um og á friðsamlegan hátt, má líka greina hina hernaðarlegu nálg-
un undir niðri, einkum meðal Norðmanna. Þannig eru norður-
slóðir viðfangsefni varnarmálaráðherra og herja (og auðvitað ann-
arra líka) á öllum Norðurlöndunum, og haldin var stór ráðstefna
um málefni norðurslóða á vegum NATO á Islandi í lok janúar
2009. Um hina hernaðarlegu nálgun á málefni norðurslóða er deilt
og innan Danmerkur er til dæmis lögð rík áhersla á að ekki eigi að
mynda ríkjabandalög í þessum efnum auk þess sem varað er við
því að NATO sé sett í lykilhlutverk. Ágreining eigi að leysa með
samningaviðræðum en ekki hervaldi.55
Umfjöllun um málefni norðurslóða á Norðurlöndum er þannig
að nokkru leyti hernaðarleg, þvert á opinbera orðræðu um að
framtíðarlausnin felist alls ekki í beitingu hervalds. Að baki þess-
um áherslum geta búið margar ástæður sem ekki verða nánar
greindar hér. Vissulega hafa áherslur Rússa verið hernaðarlegs eðlis
og því gæti í framtíðinni komið til ófriðar á svæðinu. Hins vegar
má líka varpa fram þeim spurningum hvort þarna sé verið að nota
umræðuna til að blása nýju lífi í hugmyndafræðina um svæðis-
bundnar, hernaðarlegar varnir.
Tillögur Stoltenbergs eru þó ekki á hernaðarlegum nótum
hvað þetta varðar, en hann leggur til (tillaga 6 og í samhengi við
tillögur 3-5) að Norðurlöndin móti hagkvæmara samstarf um
málefni norðurskautsins og þá einkum á sviði umhverfismála,
veðurfars, öryggis og björgunarmála. Hann bendir jafnframt á að
samstarfsverkefnin megi rýmka þannig að þau taki líka til Kanada,
Rússlands og Bandaríkjanna. Samstarf allra ríkjanna sem liggja í
grennd við norðurskautið hlýtur því að vera forgangsverkefni, þó
að Norðurlöndin geti vissulega samhæft sínar áherslur.
55 Viðtal við danskan fræðimann, 27. maí 2009 og viðtal við danska embættis-
menn, 27. maí 2009. Rétt er að taka fram að Hans Christian Thoning, formaður
varnarmálanefndar danska þingsins, telur öfugt við samlanda sína í öryggis-
málafræðum að NATO verði að hafa aðkomu að deilum eða umræðum um
Norðurslóðir.