Skírnir - 01.10.2009, Page 209
BÓKMENNTIR
STEINAR BRAGI
Ljónið sem hvarf
1. kafli
Dýrin í garðinum voru óróleg.
Þetta var á mánudegi í júní. Himinninn var skýjaður, hlýtt í
lofti, líklega hátt í þrjátíu gráður — við upphaf hitabylgjunnar. En
raunar man ég ekki svo vel eftir því. Ég man bara þetta: fáir gestir
voru í garðinum og dýrin voru óróleg. Ég veit ekki af hverju ég
hugsaði þetta, líklega var það þögnin, búrin virtust þögulli en
venjulega og full af eftirvæntingu sem braust stundum út með
slagsmálum, skrækjum og öskrum. Dýrum lætur ekki sérstaklega
vel að bíða!
Ég sat framan við ísbjarnargryfjuna og át samlokuna mína, á
eftir drakk ég svo kaffi og reykti sígarettur. Af þessum tíu tímum
sem ég vinn, sex daga vikunnar, hef ég hálftíma fyrir sjálfa mig
utan kaffihússins og reyni þá yfirleitt að skoða dýrin.
Umhverfis ísbjörninn var gryfja með grænleitu, skítugu vatni
í botninum, og hár veggur. Frá ísbirninum séð sat ég á bekk ofan
á veggnum, en auðvitað var veggurinn ekki nema sléttur gang-
vegur fyrir okkur hinum. Ég hafði komið þarna í nokkra daga til
að verja hádeginu með birninum og ég man að ég hugsaði stund-
um um þetta, muninn á þessari afstöðu minni og skepnunnar,
hvort hann langaði ekki að tæta okkur í sig og verða frjáls aftur í
stað þess að láta svona peð gnæfa yfir sér alla daga. Sjálf hefði ég
viljað út.
Þennan dag var ísbjörninn ljómandi hvítur í sólinni, breiddi
værðarlega úr sér á einum klettinum, lygndi aftur augunum og lét
tunguna hanga út úr sér. Á bekk skammt frá mér sat kona, nokkr-
um árum eldri en ég sjálf, líklega um tuttuguogfimm ára. Hún sat
Skímir, 183. ár (haust 2009)