Skírnir - 01.10.2009, Page 210
464
STEINAR BRAGI
SKÍRNIR
og talaði í símann sinn. Fyrir framan hana var lítil stelpa í kerru
sem konan fóðraði á Mentosi — raðaði því í munn hennar eins og
hún væri einhver vél eða sjálfsali sem þyrfti að fóðra svo hægt væri
að halda áfram símtalinu.
Manneskja sem verðskuldar búr, hugsaði ég — búr sem er
ekkert frábrugðið þeim sem eru utan um dýrin. Þetta var ekki í
fyrsta sinn sem ég hneykslaðist á konunni. Hún birtist stundum í
garðinum, án þess að hún virtist hafa nokkurn áhuga á dýrunum,
heldur talaði hún alltaf í símann, sem hafði háværa og skræka júró-
tekknóhringingu sem heyrðist stundum yfir hálfan garðinn, og á
meðan afvegaleiddi hún stúlkubarnið, stillti upp kerrunni framan
við eitt af búrunum en gekk svo sjálf í hringi, blaðrandi, eða sat
framan við hana og raðaði í hana sælgæti eða kartöfluflögum til að
hún þegði. Líklega var hún barnapía.
Eg veit ekki hversu lengi ég sat þarna við ísbjarnargryfjuna en
ég man að ég punktaði ekkert hjá mér í minnisbókina, tók hana
ekki einu sinni upp úr vasanum — annað sem var skrýtið við
þennan dag. Yfirleitt fæ ég flestar hugmyndir mínar við að fylgjast
með dýrunum. Ég var handviss um að eitthvað myndi gerast;
kannski að ísbjörninn hætti þessum leik sínum, stæði upp og hyrfi
inn í skuggann sem lengdist úti í einu horni búrsins. Ég hugsaði að
hann gæti ekki gert þetta miklu lengur, að liggja svona í sólinni: ég
varð sannfærð um að hann hefði allan tímann verið að þykjast og
langaði að sjá sposkan svipinn á honum þegar hann stæði upp.
Hann var ísbjörn! Isbirnir liggja ekki í sólinni og slaka á; líkamlegt
atgervi þeirra leyfir ekki slíkt og það er ekki í eðli þeirra. Ég sá
hvernig hann laumaðist til að mása, svona svíðandi heitur undir
feldinum, hvernig hann skimaði af og til kringum sig milli pírðra
augnlokanna, hlátur í augunum en líka eitthvað annað: kannski
dúndrandi geðveiki.
Sjálf er ég að mestu blind á eðli sjálfrar mín og hvernig ég
fúnkera. Eftir því sem ég les fleiri bækur verð ég sannfærðari um
þetta, án allrar tilgerðar (vona ég að minnsta kosti). Og ef menn-
ingin sem er innan í okkur og allt í kringum okkur er andstæð
eðli — fædd í heiminn til að reisa rimla utan um það, þá skil ég
hvorugt.