Skírnir - 01.10.2009, Síða 212
466
STEINAR BRAGI
SKÍRNIR
Karlljónið var horfið. Skömmu fyrir hádegi þegar ljónin voru
fóðruð, var karlinn ásamt ljónynjunum sínum í innibúrinu, sem
hafði verið lokað svo hægt væri að þrífa útibúrið. En þegar þrif-
unum var lokið og fóðrarinn dró aftur upp járnhlerana milli búr-
anna tók hann eftir því að ljónið var hvergi sjáanlegt. Hann
skimaði um hvert horn búrsins, taldi ljónin aftur og aftur, skimaði
yfir útibúrið en kallaði svo á hjálp í talstöðina sína.
Enginn skildi hvernig þetta gat gerst en líklega var best að
hugsa ekki of mikið um það, ekki strax. Ljón eru hættuleg og á
þessum fyrstu klukkutímum voru flestir hræddir um að það dræpi
einhvern. Eg man að ég hugsaði til barnapíunnar og litlu stelp-
unnar; ljónið mátti éta barnapíuna, símann og Mentosið hennar,
en láta litlu stelpuna vera.
Það var nóg að horfa yfir útibúrið til að sjá að þar var ekkert
ljón, samt gengu nokkrir af vörðunum þar um og leituðu að ljón-
inu, ráku löng prik ofan í vatnsgryfjuna, og einn velti við lófastór-
um steini með fætinum, eins og ljónið gæti mögulega hafa falið sig
þar! Samt skildi ég þetta pot mannsins, sjálf hefði ég líklega gert
það sama. Það var eins og skynfærin væru ekki lengur brúkleg —
þetta sem hafði gerst var of ótrúlegt, og skömmu síðar stóð ég mig
að því að þreifa ofan í vasann á buxunum mínum, eins og eitthvað
gæti leynst þar.
Yfirmaður garðsins kom til mín og spurði hvað ég væri að vilja
þarna en ég náði ekki að svara neinu — hann bölvaði og gargaði í
talstöðina og hljóp svo burt. Ég hafði bara hitt hann einu sinni
áður, þegar ég skrifaði undir samning við dýragarðinn. Mér sýnd-
ist hann vera hræddur, kannski um að verða étinn, kannski bara
um að missa starfið sitt. Núna réð ljónið öllu, við vorum öll í
búrinu sem það hafði yfirgefið og einhvers staðar, úr felum, fylgd-
ist það kannski með því sem við gerðum. Allt var á hvolfi.
Sjálf fann ég ekki til hræðslu, ég veit ekki af hverju. Mér fannst
bara gaman að allt skyldi vera breytt, og kannski að einu dýranna
skyldi hafa tekist að flýja.
Þetta var skömmu áður en ég sá hann í fyrsta skipti.