Skírnir - 01.10.2009, Page 215
SKÍRNIR
LJÓNIÐ sem hvarf
469
í hvorugt skiptið sem hann pantaði leit hann upp af borðinu,
horfði aldrei framan í mig þegar hann talaði. Feiminn, hugsaði ég,
afgreiddi hann með kaffið og settist á bak við afgreiðsluborðið. En
ég festi ekki lengur hugann við það sem ég var að gera. Augun
hvörfluðu alltaf yfir að borðinu þar sem hann sat til að athuga
hvað hann væri að gera. Hann gerði ekki neitt, horfði í borðið og
lyfti af og til kaffibollanum að munninum. Kannski var hann að
hugsa um eitthvað mikilvægt.
Svo var hann horfinn. Aftur án þess að ég tæki eftir því.
3. kafli
Upp frá þessu byrjaði hann að venja komur sínar á kaffihúsið,
einu sinni á dag og yfirleitt á sama tíma, um hálfellefuleytið,
skömmu eftir að garðurinn var opnaður. Hann pantaði alltaf það
sama: kaffi. Svart. Enga mjólk eða sykur. Stundum bað hann um
ábót. Og alltaf var hann í þessum svörtu fötum, sem voru svo
algerlega svört og höfðu ekki einu sinni gráleita hnoðra eða
óhreinindi til að létta á sér og vöktu með mér vonleysi ef ég var illa
fyrir kölluð. Annars þótti mér þau bara niðurdrepandi. Klæðn-
aður hans var svo miskunnarlaus, svo yfirgengilega svartur. Hvert
sem maður flúði um hann í leit að von, einhverju björtu, svolitlu
gráu, einhverju — það skipti ekki máli, allt við hann var svart.
Framan af datt mér í hug að sokkarnir væru kannski í öðrum
lit, eða nærbuxurnar, en svo sá ég sokkana: þeir voru svartir, og
einn daginn þegar hann hallaði sér fram glitti í nærbuxurnar: þær
voru svartar. Ofan við svartar buxurnar, neðan við svartan bolinn.
Um hálsinn lá svo svart band sem hvarf undir bolinn — hálsfesti,
og líklega eitthvað svart hangandi neðan úr henni, þótt erfitt væri
að ímynda sér slíkt. Um úlnliðinn var svo trosnuð svört teygja
sem mér fannst líkjast gamalli hárteygju eins og stelpur notuðu,
sem leiddi huga minn að því hvort hann ætti kærustu. — Svarta þá
líklega.
Þegar hann hafði komið í nokkur skipti fórum við loksins að
eiga í samræðum, það er að segja við skiptumst á fleiri en nokkr-
um orðum um pöntunina. Röddin í honum var djúp og hljóm-