Skírnir - 01.10.2009, Síða 218
472
STEINAR BRAGI
SKÍRNIR
Auðvitað hafði hann heyrt um ljónið sem hvarf. Ekki einungis
allir í borginni, heldur öll þjóðin og, já, allur heimurinn, vissu hvað
hafði gerst. Strax klukkutíma eftir að ljónið hvarf úr búrinu sínu
höfðu fjölmiðlarnir byrjað að senda fréttafólk í dýragarðinn og svo
birtust heilu kvikmyndatökuliðin til að mynda og taka viðtöl.
Gamli fóðrarinn var skyndilega alls staðar, hristandi höfuðið af
undrun í fréttatímum, í spjallþáttunum, á ljósmyndum í blöðun-
um, hristi höfuðið meira að segja í útvarpinu — ég heyrði braka í
hálsinum á honum. Og alltaf sama sagan: „Ljónið bara hvarf!“
Einn af vinum fóðrarans — nashyrninga- og fílaskrúbbarinn, sagði
að hann væri orðinn svo ringlaður af öllum spurningunum að hann
væri kominn í frí og væri jafnvel að íhuga að hætta í garðinum.
Gott hjá honum, hugsaði ég, en var ekki laus við að öfunda
hann — sem kom mér svolítið á óvart, fram að þessu hélt ég að ég
væri hamingjusöm í garðinum.
Kenningin um að ljóninu hefði verið rænt þótti ekki lengur
líkleg, ekkert af starfsfólkinu sem hafði verið yfirheyrt sagði
nokkuð grunsamlegt, og ekki á neinni af öryggismyndavélunum
við búrið eða nokkurs staðar í garðinum sáust grunsamleg, inn-
pökkuð ljón, engir sendiferðabílar eða ísvagnar eða yfirbreiddar
kerrur eða brjóstamiklar konur sem gátu hafa stungið inn á sig
ljóni til að smygla burt.
Þetta var ómögulegt. Allt við þetta mál var ómögulegt, enda
töluðu öll blöðin og sjónvarpsþættirnir um ljónið sem hvarf eins og
það væri ein stærsta ráðgáta í sögu heimsins, sögðu nákvæmlega hve-
nær ljónin höfðu rölt frá útibúrinu og yfir í innibúrið, hvenær hafði
verið lokað á eftir þeim, hver sá þau gera þetta og hitt og klukkan
hvað, hverjir sáu tómt útibúrið og lokaðar járndyrnar og klukkan
hvað — röktu atburði morgunsins næstum eins og þeir væru æsileg
morðgáta eða fæðing Jesú í fjárhúsinu í Nýja testamentinu. Og jafn-
vel minnstu rifur og ryðblettir í búrinu urðu uppspretta vangaveltna,
talað var við sérfræðinga í innilokun dýra og jafnvel manna, og
margir voru fengnir til að rannsaka búrið að innan og utan og allir
sögðu einum rómi að annaðhvort hefði ljónið hreinlega gufað upp
eða það væri ennþá í búrinu. Annað væri óhugsandi!
„Ósýnilega ljónið," var fyrirsögn í einu blaðinu og ég klippti