Skírnir - 01.10.2009, Page 220
474
STEINAR BRAGI
SKÍRNIR
4. kafli
Ég man hvað hreyfingar hans voru fallegar. Stundum, ef ég náði að
sjá hann standa upp frá borðinu, horfði ég á eftir honum ganga í
burtu gegnum garðinn. Þótt hann væri hávaxinn voru hreyfingar
hans liðugar og fallegar á einhvern hátt sem ég gat ekki skilið,
kannski eins og allir hlutar hans rötuðu á nákvæmlega réttan stað
á réttum tíma, eins og hann væri að spila lag sem væri í raun mjög
flókið, en hann léti það líta út fyrir að vera einfalt.
En hann var líka ljótur. Stundum þegar hann lyfti bollanum að
munninum varð kjálkinn á honum linur og slapaði, og svipurinn sem
kom á hann var frekar ljótur, linur og óþolandi einhvern veginn.
Ég reyndi að hætta að hugsa um hann en gat það ekki. I kring-
um hann var hjúpur einmanaleika sem var stundum átakanlegt að
vera nálægt. Það var ekkert eitt — enginn hluti af honum sem var
hægt að benda á og segja: „Þarna! Þarna liggur einsemdin sjáðu!"
Nei, nei, hann var allur einn, ef ég get orðað það þannig. Ein-
semdin var eins og seig sírópshringiða sem lyftist upp af höfðinu
á honum, snerist kringum hann allan og enginn gat bjargað hon-
um út úr henni nema hann sjálfur — ég var viss um það. Tilraunir
allra annarra til björgunar gátu bara endað með því að hann drægi
þá með sér inn í einsemdarsírópið. Hann var hola sem stækkaði og
boraðist inn í umhverfið og meðan ég þekkti hann fannst mér eins
og einsemd hans yrði meiri með hverjum deginum sem leið, hann
varð sífellt týndari og pikkfastari inni í sjálfum sér og komst ekki
út, innilokaður og glataður í einhverju sem ég skildi ekki. Þetta
fannst mér.
Stundum datt mér líka í hug að hann væri ekkert af þessu, hon-
um þætti bara gott að koma þarna og slaka á og drekka kaffi milli
þess sem hann lifði lífinu sínu. Og að allt þetta sem ég hugsaði ætti
ekki við um neinn nema sjálfa mig.
Hvað um það. Oft langaði mig að hætta þessum eilífu vanga-
veltum mínum og setjast bara hjá honum og faðma hann eða
strjúka honum. Við hefðum bæði gott af því. Stundum óskaði ég
mér að hann hætti að koma, að hann holaði sér burt aftur á staðinn
þaðan sem hann kom. En ég meinti það ekki.