Skírnir - 01.10.2009, Page 228
482
STEINAR BRAGI
SKÍRNIR
fyrir mig að reka hjartað aftur inn í búrið sitt skildi ég vonina sem
hafði vaknað þegar hann kom inn í líf mitt og hvernig ég hafði
elskað hann.
En núna var það búið og svona var sorgin. Mér hafði alltaf
fundist ég vita hvað það væri að líða illa og villast alein gegnum
lífið en þetta var öðruvísi en allt annað, líkaminn dofnaði og varð
fjarlægur eins og hann væri ekki lengur í tengslum við hugann eða
sálina í mér og allt var ruglingslegt, allir hlutirnir sem ég sá í kring-
um mig eða allt sem ég gerði eða hugsaði var eins og draugurinn
af því sem það átti að vera, allt var dautt. Dyr höfðu lokast að baki
mér og ég var ein, ég og heimurinn.
Líf mitt síðan hefur verið tiltölulega fábrotið. Ég vakna, fer í
vinnuna og svo heim. Einmanalegt, líklega myndu flestir vera
sammála um það, en ég held það sé að breytast.
Ljónin eru komin aftur: ljónynjurnar fjórar og karlljónið frá
Spáni, í staðinn fyrir það sem hvarf. Ég hef gefist upp á að yrkja
ljóð. Þau minna mig of mikið á hann, upphaf sem hefur engan
endi. Ég sakna hans á hverjum degi, án þess að við höfum orðið
sérlega náin. Eða ég býst við að ég hafi verið náin honum en hann
fjarlægur, ef það er hægt. Þegar ég er að lesa eða skrifa lít ég alltaf
af og til yfir að borðinu hans og vonast til að sjá hann þar aftur
einn daginn. En hann kemur aldrei.
Eftir að hann fór er eins og ég viti alltaf hvernig sögurnar mínar
eigi að enda. Ég hef klárað söguna um konuna sem gekk í svefni
upp á krana, konuna sem fékk hárið sent í pósti, Risakirkju-
garðinn og nokkrar í viðbót. Ég veit ekki af hverju, en það er eins
og sögurnar streymi fram af sjálfu sér, án þess ég þurfi að skipta
mér sérstaklega af þeim eða hafa áhyggjur. Þær eru eins og ljónið
sem hvarf: þegar ég hætti að hugsa um rimlana veit ég hvernig það
slapp, og þegar ég hætti að hugsa um búrið veit ég hvert það fór.