Skírnir - 01.10.2009, Síða 233
SKÍRNIR
HOLUR í MENN
487
að trufla hann ekki eða reita til reiði. Ef við gleymdum okkur og
höfðum hátt eða fórum að slást — eins og við gerðum stundum áður
en hann hvarf — varð hann reiður, hækkaði röddina, skellti hurðum.
Hann danglaði einusinni í bróður minn, slæmdi eftir honum í
hugsunarleysi og bróðir minn læsti sig inni á baði. Ég stóð fyrir
utan, bankaði laust en vissi ekki hvað ég átti að segja. Vissi bara að
bróðir minn var dapur og þegar hann var dapur varð ég ósjálfrátt
döpur líka.
Oft leið langur tími milli þess sem við fundum vísbendingar,
stundum fundum við nokkrar í röð. En næstu árin héldum við
áfram að finna þær, í glufum í veggjum, fellingum húsgagna.
Sú síðasta var límd föst innan í ónýtan lampaskerm sem ég fann
í bílskúrnum. Ég reif í límbandið og ljósmyndin datt í kjöltuna á
mér. Hún var tekin við Þingvallavatn, af bróður mínum og
mömmu.
Þau standa á verönd við bústað sem fyrirtækið hans pabba
leigir út á sumrin. Alvarleg á svipinn, píra augun gegn sólinni sem
skín beint á þau og býr til skarpa skugga. Bróðir minn er bara á
nærbuxunum með barnabumbuna út í loftið og heldur á tusku-
dýrinu sínu.
Mamma er grönn, sítt hárið tekið upp í hnút og ljósir hárlokk-
ar hrynja fram á ennið, hún er viðkvæmnisleg á svipinn, klædd í
daufbleikan sumarkjól.
Þegar ég horfði á mömmu á myndinni varð ég svo sorgmædd,
mér fannst hún næstum vera að fjara út þarna í sólinni og ég fékk
samviskubit.
Við vorum oft svo erfið, ég og bróðir minn, og mamma svo mátt-
laus, einsog hún hefði ekki orku í að sinna okkur, skamma og aga.
Ég stakk hendinni aftur inn í lampaskerminn, þreifaði og fann
fyrir öðru límbandi, annarri ljósmynd.
Fyrst sá ég ekki hvað var á myndinni en skildi svo að myndin
hafði upprunalega verið af mér, hvítvoðungi sem liggur í barna-
rúmi en pabbi var búinn að teikna útlínur barnslíkamans með
tippexi og þekja hann. Ég sneri ljósmyndinni við og aftan á hana
var skrifað, með sama tippexinu, hvítt á hvítt: EITUR.