Skírnir - 01.10.2009, Page 237
SKÍRNIR
HOLUR í MENN
491
Jarðarförin var í Kaupmannahöfn. Við vildum koma honum ofaní
jörðina sem fyrst, þar sem hann gæti haldið áfram að rotna í friði.
Þegar ég horfði á eftir kistunni í jörðina sló einhverju saman í
höfðinu á mér og ég mundi eftir deginum áður en hann hvarf,
þegar hann bað mig um að koma með sér út í garð og gróf holu.
Atvikið var annars þurrkað úr minninu og nú þegar ég rifjaði
það upp var ég ekki viss um hvort það hefði gerst. Mamma stóð á
milli mín og bróður míns, hún grét en við vorum þurreyg, héldum
um hana og leiddum ræðu prestsins hjá okkur.
Nokkrum dögum síðar fórum við í gáminn. Mamma þvertók
fyrir að koma með. Hún vildi ekki heyra minnst á pabba og ég skildi
að í hjarta sínu hafði mamma vonað að hann væri dáinn, að tilhugs-
unin um að hann léti sig hverfa sisvona var of mikið fyrir hana.
I pappakössum sem stóðu meðfram veggjunum voru minja-
gripir. Þeim var pakkað vandlega í dagblaðapappír og sag.
Við skoðuðum þurrkuð höfuð og fílabein frá Afríku, inka-
styttur frá Perú, geishubrúður frá Japan og allskyns undarlega
gripi sem við höfðum ekki hugmynd um hvaðan komu. Við viss-
um ekki hvort pabbi hefði braskað með þessa muni eða safnað
þeim fyrir sjálfan sig.
Við hliðina á dýnunni lá stafli af stílabókum. Þegar við lögð-
umst yfir þær sáum við að þær voru fullar af tilraunum hans til að
skrifa skáldskap. Þær voru númeraðar frá eitt til hundrað, suma
kaflana hafði hann endurskrifað oft, alltaf með þessum klunnalegu
blokkstöfum.
Skáldsagan hét Frelsi og fjallaði um mann sem sleit sig lausan úr
grárri, tilbreytingarlausri tilveru og ferðaðist um heiminn.
Frásögnin var stórkarlaleg og gekk alltaf út á hvernig aðalpersón-
an, hávaxinn og myndarlegur Islendingur sem þekktur er sem
Víkingurinn í hverri höfn, kemst í hann krappan en bjargast fyrir
kænsku sína.
Inni á milli voru blautlegar kynlífsfrásagnir. Hann sagði frá
rassmiklum negrastúlkum í Kongó, auðsveipum asískum feg-
urðardísum, vergjörnum inúítastelpum á Grænlandi, og kornung-
um vændiskonum í Ukraínu.