Skírnir - 01.10.2009, Page 261
SKÍRNIR
í SKUGGA HRUNSINS
515
ef til vill reynst auðveldara að taka upp einhvers konar frjálsa nauðasamn-
inga við lánardrottna sem þá hefðu verið tilkippilegri til þess að ræða skil-
málabreytingar og afskriftir lána.
Bók Ásgeirs er ekki gallalaus. í henni eru nokkrar villur, t.d. röng
ártöl, sem auðvelt hefði verið að leiðrétta með yfirlestri. Á stöku stað
virðist eins og hann vilji verja bankana, til dæmis þegar hann fjallar um
umfjöllun Danske Bank, en Ásgeir segir greinendur bankans hafa viljað
verða helstu álitsgjafa um Island á alþjóðlegum vettvangi. „Modesty was
not one of their virtues,“ segir Ásgeir. Manni dettur í hug að hógværð hafi
kannski ekki heldur þrúgað starfsmenn íslenskra greiningardeilda á þess-
um árum. Út frá stöðu Ásgeirs hefði verið fróðlegt að sjá úttekt á störf-
um íslenskra greiningardeilda á þessum tíma.
Eftir að bókin fór í prentun hefur margt komið fram sem varpar frek-
ara ljósi á það sem gerðist og mun breyta skoðun manna á orsökum hruns-
ins. Líklega mun höfundur síðar endurskoða sumar kenningar sínar með
hliðsjón af nýjum upplýsingum. Hér er þó komið það rit um bankahrunið
sem gerir besta tilraun til þess að skýra ástæður þess, skrifað án þess að
reyna að fegra hlut neins eða reyna að klekkja á ákveðnum mönnum.
Óbærileg veröld frjálshyggjunnar
Hvíta bókin eftir Einar Má Guðmundsson rithöfund er að stofni til safn
greina sem hann skrifaði í Morgunblaðið síðastliðinn vetur. Hann hefur
gefið sér tíma til þess að fara yfir efnið og endurskrifa í ljósi þess sem
gerðist síðar. Samt er bókin eins og ferð án fyrirheits. Höfundur svamlar
hér og þar. Kannski hugsar hann kaflana sem lög, rétt eins og lögin á
Hvítu plötu Bítlanna, sem er greinilega fyrirmynd bókarhönnunar.
Einar er reiður. Hann er ósáttur við marga. Frjálshyggjan er birting-
armynd hins illa. Hannes Hólmsteinn er kannski ekki sá svarti sjálfur, en
Einari er mjög uppsigað við þennan ára frjálshyggju og frelsis. Hannes
kemur fram sem fulltrúi auðmannanna sem vildu ekki hugsa um þjóð-
félagsmál heldur „græða á daginn og grilla á kvöldin“. Af nógu er að taka
þar sem Hannes lofsyngur einkaframtakið og margt hljómar hjákátlega
núna. Hann varaði þó stundum við hinni innhaldslausu auðhyggju. Einar
segir: „Hannes Hólmsteinn Gissurarson taldi sig geta hlegið að Svíum og
tekið Halldór Laxness í nefið.“ Þeir sem lesið hafa bækur Hannesar um
Halldór Laxness, en ekki látið sér nægja að fordæma þær, vita til dæmis
að hann er mjög hrifinn af skáldinu, þó að honum þyki eins og fleirum
lítið til um stjórnmálaskoðanir hans á yngri árum.