Skírnir - 01.10.2009, Page 270
524
HALLDÓR BJÖRN RUNÓLFSSON
SKÍRNIR
þessi, sem hann kallar á latínu Venus frá Cnidus, fegursta verk
gjörvallrar listasögunnar, en um leið afdrifaríkt spor í átt til ögr-
andi og blygðunarlausrar listtjáningar. Því til sönnunar hermir
hann snemma í næstsíðasta bindi sinnar alkunnu náttúrusögu, Hi-
storia naturalis, að enn mætti sjá sletturnar á styttunni eftir heill-
um horfinn karlmann sem lokaði sig inni um nótt í hofi þar sem
styttan var geymd.
Hin stutta frásögn Pliníusar eldri af þessu merkilega verki er
þeim mun áhugaverðari sem það er vitað að Afródítustyttan var
önnur tveggja sem Praxíteles hjó í marmara af eftirlætismódeli sínu
og lagskonu, Frýne eða Mnesarete, sem var kunnasta þokkadís
Aþenu á fjórðu öld fyrir okkar tímatal. Önnur styttan, og sú
dýrari, var hulin klæðum og endaði hún á eynni Kos því það var
snöggtum efnaðra byggðarlag en Knídos, þar sem íbúarnir urðu
að gera sér nakta mynd af gyðjunni að góðu. Það var ekki tekið út
með sældinni því flestir Knídosbúar hefðu kosið að styttan þeirra
sýndi minna af holdi og vekti þar með minni hneykslun og umtal.
En viti menn, áður langt um leið hafði frægð styttunnar borist svo
víða að menn komu siglandi langt að til að líta hana augum. Enn
segir Pliníus frá því hvernig Níkomedes I Byþiníukonungur, sem
uppi var á þriðju öld fyrir okkar tímatal, reyndi að hafa styttuna
af Afródítu af Knídosbúum með því að bjóðast til að borga allar
ríkisskuldir eyjarskeggja, en hafði ekki erindi sem erfiði. Knídos-
búar voru orðnir of stoltir af þessum vandræðagrip sínum, enda
var styttan á tæpri öld orðin þekktasta kennileiti eyjarinnar og
reyndar eitt af því fáa sem bar hróður hennar út fyrir hrjóstugar
fjörurnar.
Þessi merkilega frásögn Pliníusar eldri leiðir hugann að verð-
mætamati manna til forna, á fyrstu öld okkar tímatals, og sýnir
svo ekki verður um villst að menningarafurðir voru teknar fram
yfir jafnmikilvæg stundleg gæði og viðsnúning fjárhagshalla af-
skekkts og bágstadds byggðarlags. Það er einnig athyglisvert að
Frýne, flautuleikara að mennt, skyldi bíða slík frægð og frami sem
módel og umdeild lagskona að hún gat boðið íbúum Þebu, hinn-
ar fornfrægu bötísku borgar, að greiða fyrir endurreisn múra
hennar eftir umsátur Alexanders mikla, árið 336 fyrir okkar tíma-