Skírnir - 01.10.2009, Page 271
SKÍRNIR
SANKTI SEBASTÍAN DREKKUR BJÓR ...
525
tal. Skilyrðið var að ritað yrði á múrana: „Alexander eyddi, lags-
konan Frýne endurreisti“. Borgarráðið hafnaði boði hennar og
það kom síðar í hlut Kassandrosar Makedóníukonungs að endur-
reisa múrana tuttugu árum eftir fall borgarinnar.
Gegn jakkafötnm
Segja má að módelmótun og módelmálun hafi lotið svipuðum lög-
málum á tímum endurreisnarinnar og ríkt hafði í fornöld nema
hvað tímamörkin voru snöggtum styttri eftir miðaldir. Það sem
telja mátti í öldum fyrir okkar tímatal réðst á tugum ára eftir því
sem nær dró nútíðinni. Þannig hófst endurreisnin einmitt á nekt-
armynd af unglingi, á minnisskildi þeim sem Lorenzo Ghiberti
(1378-1455) lagði fram sem tillögu í samkeppninni við Filippo
Brunelleschi (1377-1446) um dyrnar á Skírnarkapellunni framan
við Dómkirkjuna í Flórens, 1401-02. Myndefnið var Fórn Isaks
og Ghiberti stóð eftir sem sigurvegari, ekki síst fyrir það að hafa
vogað sér að ganga lengra í átt til klassískrar módelteikningar og
tilvísana í grísk-rómverska hefð en Brunelleschi. Hitt breyttist
ekki hlutfallslega séð að nekt var bundin við karlmenn nærfellt
öldinni lengur en konur.
Þótt Sandro Botticelli (1445-1510) málaði hina þekktu Fœb-
ingu Venusar árið 1485-86, og fylgdi henni eftir með Appelles
rægbur frá 1495, varð kvenleg nekt ekki raunverulega viðtekin í
myndlist eftir miðaldir fyrr en Andrea Mantegna (1431-1506)
málaði mynd sína af Parnassos um 1496-97, fyrir einkasafn eða
studiolo Isabellu d’Este, en myndin var væntanlega síðbúið tæki-
færisverk til minningar um brúðkaup hennar og Gianfrancescos
Gonzaga, markgreifa af Mantúu, árið 1490. I léttleikandi blek-
teikningu eftir Mantegna af Díönu, Mars og Venus, frá síðasta ára-
tug 15. aldar, varðveittri í British Museum, er líklega að finna
fyrstu óbrigðulu nektarmyndina af konu frá því Rómarveldi leið
undir lok. Hvers vegna nekt karlmanna í myndlist fornaldar og
byrjun nýaldar þótti minna tiltökumál en nekt kvenna, og það svo
um munar, hlýtur að teljast merkilegt í ljósi þess viðsnúnings sem
orðinn er í þeim efnum eftir miðja 19. öld. Nú á tímum er kven-