Skírnir - 01.10.2009, Page 276
530
HALLDÓR BJÖRN RUNÓLFSSON
SKÍRNIR
myndefni fyrir klæðnað dýrðlingsins, en Antonello málaði Sebastían
sinn á aðskornum nærbuxum eins og þeim sem samtíðarmenn
hans klæddust á 15. öld, en ekki mittisklæði líkt og allir aðrir mál-
arar, fyrr og síðar. Nærbuxur Antonellos eru nauðalíkar nærbux-
um og sundskýlum okkar tíma og vekja því samstundis athygli
allra þeirra sem sjá verkið. Um leið læðist sá grunur að þeim sem
sjá klæðnað Páls Björnssonar, módels Ragnars Kjartanssonar, að
það sé ekki einleikið hve líkur hann er fatnaði Sebastíans í mál-
verki Antonellos.
En hver var Antonello og hvað kemur hann Feneyjum við?
Málarinn var sjálfsagt fæddur í Messína á norðausturhluta Sikil-
eyjar, sonur steinhöggvara í þeirri borg, og mun ungur hafa kom-
ist í kynni við flæmska málaralist Jans van Eyck (um 1385-1441)
og Petrus Christus (látinn 1473 eða 1474), nemanda van Eyck. Það
er ofsögum sagt að Antonello hafi kynnt olíumálun fyrir Itölum,
en stíll hans olli engu að síður straumhvörfum, því ekki tókst hon-
um einungis að tileinka sér nákvæmni og mýkt flæmsk-hollenska
skólans á 14. öld, heldur betrumbætti hann þennan norræna stíl
með því að blanda honum saman við ítalska formfestu og tilfinn-
ingu fyrir raunverulegum massa og rýmistúlkun. Hvergi hafði
Antonello viðlík áhrif og í Feneyjum þar sem hann dvaldi um
tveggja ára skeið upp úr 1475, og hvergi kernur stílbylting hans
betur í ljós en í túlkun hans á Sebastían, herforingjanum rómverska
á þriðju öld sem neitaði að gefa kristni sína upp á bátinn og mátti
þola fyrir það píslarvætti þar sem félagar hans skutu hann örvum
bundinn við staur.
Mildileg litameðferð, raunverulegt feneyskt umhverfi og ein-
stök tilfinning Antonellos fyrir líkamsbyggingu og líkamsmassa,
og því hvernig ljósið fellur á hlutina og bræðir saman myndsviðið
gerir málverk hans að lykilverki og upphafsverki hins þekkta fen-
eyska skóla sem margir telja grundvöll raunverulegrar málaralist-
ar. Giovanni Bellini (um 1430-1516), Giorgione (um 1477-1510)
og Tizian (um 1490-1576) byggðu feneyska háendurreisn sína á
stíl og aðferðum Antonellos. Án þess að taka það nokkurn tíma
fram er það í þessa hefð sem Ragnar Kjartansson sækir styrk sinn