Morgunblaðið - 05.12.2019, Side 53
MINNINGAR 53
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 5. DESEMBER 2019
✝ HöskuldurKristján Guð-
mundsson fæddist á
Akranesi 23. des.
1968. Hann lést á
sjúkrahúsi Akra-
ness 27. nóvember
2019.
Foreldrar hans
eru Guðmundur
Þórir Friðjónsson, f.
26. maí 1944, og
Sigríður Illuga-
dóttir, f. 30. september 1946.
Systkini Höskuldar eru: Frið-
jón, f. 1967, maki Sylvía Rós
Helgadóttir, eiga þau fjögur
börn; Jón Þórólfur, f. 1973, maki
Silja Ósk Björnsdóttir, eiga þau
fjóra syni; Sæunn Kolbrún, f.
1978, maki Jóhann Sólmundur
Andrésson, eiga þau þrjár dætur;
Sigurþór, f. 1983, maki Sigríður
Ólöf Valdimarsdóttir, eiga þau
átta börn.
Höskuldur kvæntist 3. apríl
1999 Kristjönu Jónu Jóhanns-
dóttur, f. 11. maí 1971. Foreldrar
hennar eru Hulda Ágústsdóttir,
f. 1948, og Jóhann
Örn Matthíasson, f.
1945, d. 2012. Börn
Höskuldar og Krist-
jönu eru: 1) Jóhann
Úlfar, f. 29. nóv-
ember 1992, unn-
usta hans er Lilja
Dís Benediktsdóttir,
f. 17. apríl 1997. 2)
Hafliði Már, f. 17.
janúar 1998. 3)
Hulda Sigríður, f.
10. júlí 2000.
Höskuldur ólst upp hjá for-
eldrum sínum á Hóli í Svínadal,
en þau voru bændur þar. Hann
lauk grunnskólaprófi frá Heið-
arskóla, síðan fór hann á Bænda-
skólann á Hvanneyri og lauk
þaðan prófi vorið 1990. Eftir það
vann hann ýmis störf á Akranesi
og nágrenni. Árið 1999 hóf hann
störf hjá Elkem á Grundartanga
og var þar þar til hann fékk frí
frá störfum sökum veikinda.
Útför hans fer fram frá Akra-
neskirkju í dag, 5. desember
2019, klukkan 13.
Það er erfitt að setjast niður og
semja minningargrein en ég sé
mig knúinn til þess. Höskuldur
sonur okkar hjóna háði stutta en
harða baráttu við illvígt krabba-
mein sem leiddi til fráfalls hans
um aldur fram.
Hann var næstelstur af börn-
um okkar hjóna. Grunnskólinn
var Heiðarskóli, hugur hans
stefndi til búfræðináms og fór
hann að Hvanneyri og stundaði
nám þar í tvö ár.
Örlögin urðu þannig að bónda-
starfið varð ekki lífsstarf hans,
sveitin var honum kær og að vera
innan um kindur átti við hann.
Átti hann alltaf nokkrar ær í fjár-
húsunum á Hóli. Hann var mjög
góður rúningsmaður og var mikið
leitað til hans í það starf. Það voru
skemmtiferðir hjá honum að kom-
ast í fjárhús og taka af ánum. Slát-
urhúsvinna við Laxá varð til þess
að hann varð úrvalsfláningsmað-
ur og var hann lykilmaður ef
þurfti að taka gæru af lömbum hjá
Hólsbændum. Það var okkur for-
eldrum hans gleðiefni þegar þau
hjón Höskuldur og Kristjana
þáðu að eignast sumarbústaðinn
Hólskot fyrir þremur árum, þar
voru þau búin að lagfæra heilmik-
ið, Höskuldur var nefnilega bráð-
laginn í smíðum sem öðru.
Vinnustaðir hans voru ekki
margir um ævina; sláturhúsið,
Hvalur hf. tvær vertíðar, Blikk-
smiðja Guðmundar, Sultartanga-
virkjun og síðan Elkem á Grund-
artanga í rúmlega 20 ár. Hann var
sérstaklega vel liðinn í vinnu og
eignaðist þannig marga vini.
Hann var þannig að hann vildi
ekki eiga í útistöðum við nokkurn
mann. Hlédrægur en naut sín vel í
góðra vina hópi með glas í hendi.
Hann var okkur foreldrum sínum
einstaklega tryggur og hjálplegur
sem seint verður fullþakkað. Átti
sitt sæti við eldhúsborðið á Hóli
við gluggann á móti þeim gamla.
Í sumar vorum við feðgar að
vinna mikið saman við bústaðinn
og geymsluskúrinn og voru það
góðir dagar í sól og blíðu. Ef ég
hugsa til baka til haustsins finn ég
það að starfsþrek hans var byrjað
að dala, varð fyrr þreyttur.
Nú að leiðarlokum þökkum við
foreldrar þínir fyrir tryggð, hjálp-
semi og hlýju í okkar garð í gegn-
um árin. Vertu Guði falinn á nýj-
um stað.
Elsku Kristjana, Jóhann og
Lilja, Hafliði og Hulda, Guð styrki
ykkur í sorginni við þetta sorg-
lega fráfall.
Þess óska
pabbi og mamma.
Elskulegur bróðir okkar og
mágur hefur kvatt okkur eftir
stutta og grimma baráttu við
krabbamein. Mikið getur lífið ver-
ið ósanngjarnt.
Höskuldur var gull af manni,
einstaklega ljúfur, góður og
traustur vinur vina sinna. Hann
hafði góða nærveru og það leið öll-
um vel í kringum hann.
Höskuldur ólst upp í sveit og
hafði mikla tengingu við sveitalíf-
ið og leið alltaf best í sveitaloftinu.
Eftir að þau hjónin eignuðust
Hólskot eyddi hann drjúgum tíma
þar í góðu yfirlæti með sitt kaffi
og viskítár með Bændablaðið,
naut kyrrðarinnar í sveitinni og
horfði yfir kartöflugarðinn sinn.
Hann var bóndi í húð og hár, ís-
lenskt feitt lambakjöt, helst
heimaslátrað, sviðakjammi og
slátur var hans dálæti.
Höskuldur hafði einstakt lag á
að humma verkefnin fram af sér,
hann byrjaði flest þeirra af mikl-
um krafti en hafði sig oft ekki í að
klára þau.
Sem dæmi má nefna Land-Ro-
verinn sem hann langaði svo mik-
ið að gera upp síðustu ár.
Elsku Höskuldur okkar, takk
fyrir allt, lífið verður aldrei eins
án þín.
Nú getið þið amma Steinunn
farið saman með bænina sem hún
kenndi okkur öllum.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni.
Sitji Guðs englar saman í hring
Sænginni yfir minni.
(Sigurður Jónsson frá Presthólum)
Við kveðjum með miklum trega
og sorg einstakan mann sem tek-
inn var burt frá okkur allt of
snemma.
Söknuðurinn er mikill.
Elsku Kristjana, Jóhann, Haf-
liði og Hulda, megi Guð styrkja
ykkur á þessum erfiðu tímum.
Við burtför þína er sorgin sár
af söknuði hjörtum blæða.
En horft skal í gegnum tregatár
í tilbeiðslu á Drottin hæða.
og fela honum um ævi ár
undina dýpstu að gæða
(Guðrún Jóhannsdóttir)
Friðjón og Sylvía, Jón og
Silja, Sæunn og Jóhann,
Sigurþór og Sigríður Ólöf.
Í dag kveðjum við okkar
trausta og kæra vin, Höskuld
Guðmundsson. Stórt skarð er
höggvið í vinahópinn og við sem
eftir stöndum erum sem þrumu
lostin yfir því að okkar góði vinur
sé skyndilega horfinn á braut. Um
leið erum við minnt á að lífið er
núna og að góð og dýrmæt vinátta
er fjársjóður sem við megum ekki
láta bíða eftir næsta degi, heldur
eigum við að nota daginn í dag til
að hlúa að henni og rækta. Hösk-
uldur vissi þetta og hann var
manna duglegastur að bjóða upp
á tækifæri til góðra samveru-
stunda í góðra vina hópi. Hann
var sá eini í okkar hópi sem hélt
upp á afmælið sitt á hverju ári og
afmælisboð hjá Höskuldi á Þor-
láksmessu hefur nú í mörg ár ver-
ið fastur liður í jólahaldinu hjá
okkur öllum. Gestrisni og hlýtt
viðmót hefur alltaf einkennt heim-
ili þeirra hjóna, Höskuldar og
Kristjönu, og þangað höfum við
alltaf verið velkomin, sama hvert
tilefnið hefur verið. Við minnumst
nú góðra samverustunda með
þakklæti og einsetjum okkur að
halda þeim áfram þótt missir okk-
ar sé mikill og stóll hins góða gest-
gjafa standi nú auður.
Höskuldur var okkur öllum
traustur og góður vinur, en fyrst
og fremst var hann kletturinn í lífi
hennar Kristjönu vinkonu okkar.
Það var aldrei hvassviðri í kring-
um Höskuld, heldur mátti alltaf
treysta því að hann nálgaðist öll
mál af yfirvegun og skynsemi, en
fyrst og fremst góðvild í garð
allra. Ef við ættum að velja eitt
orð til að lýsa Höskuldi, þá væri
það að hann var traustur; traust-
ur maður, traustur vinur, traust-
ur eiginmaður og traustur faðir.
Það er mikill missir að slíkum
manni og við stöndum fátækari
eftir.
Við kveðjum vin okkar með
söknuði og trega en þökkum um
leið fyrir trygga vináttu sem
auðgaði líf okkar allra. Við vottum
Kristjönu vinkonu okkar og börn-
um þeirra, þeim Jóhanni Úlfari,
Hafliða Má og Huldu Sigríði, okk-
ar dýpstu samúð. Einnig vottum
við foreldrum Höskuldar, systk-
inum hans og fjölskyldum þeirra
innilega samúð.
Íris og Valgarður,
Lilja og Björn,
Bjarki og Katrín Rós.
Það er haustmorgunn, vaktin
okkar í tarnarfríi. Undirliggjandi
í huga okkar eru veikindi þín. Með
birtingu að degi berast okkur
sorgarfregnir um að þú hafir sagt
skilið við þetta jarðlíf og á vit for-
feðranna. Þennan dag náði birtan
ekki sínu bjartasta. Þetta gerðist
allt svo hratt, þú kvaddir okkur
eftir vinnutörn, fréttir bárust svo
af veikindum þínum og svo allt í
einu varstu farinn. Það var svo
skrítið að mæta svo til vinnu og
hafa þig ekki með okkur, finna
fyrir þínum rólyndis og yfirveg-
uðu áhrifum, sjá brosið þitt og
glottið sem einkenndi þig í sam-
ræðum og hæðni. Hjálpsamur
varstu, duglegur og ósérhlífinn.
Það er svo óraunverulegt að hann
Höskuldur okkar eða „Höski“
eins og við kölluðum hann standi
ekki við kaffikönnuna og helli upp
á góða kaffið, kveðji okkur eftir
vaktina eða bauni á okkur með
orðheppni sinni. Samheldni var
Höska mikilvæg og tók hann oft
að sér að halda vaktarhitting á
sínu heimili, það voru skemmti-
legar stundir sem munu lifa í
minningum okkar. Höski var frið-
elskur maður og talaði aldrei illa
um nokkra manneskju. Hann var
einn af þessum sem eignast ekki
óvildarvini. Hann tók öllum eins
sem komu nýir á vaktina og var
duglegur að þjálfa og fræða nýliða
í starfinu, starfi sem krefst mik-
illar sérþekkingar og við aðstæð-
ur sem þarf að gæta fyllsta örygg-
is. Það voru þung skref að ganga á
fyrstu vaktina vitandi það að sjá
þig aldrei aftur, og óvissa um
hvernig andinn yrði í hópnum. En
þetta er sterkur hópur og með
mikla samheldni. Hópur með góð-
an húmor og stundum dökkan,
sem hefur einmitt skilað okkur í
gegnum fyrstu vinnutarnir án
Höska. Það fór ekki á milli mála
að Höskuldi þótt afar vænt um
fjölskyldu sína og vini.
Vaktin okkar vill votta fjöl-
skyldu Höskuldar Kristjáns Guð-
mundssonar sína dýpstu samúð.
Okkur þótti virkilega vænt um
þig, Höski.
Kveðja, D-vaktin Elkem Ís-
land,
Jón Þór Sigmundsson.
Á fallegum haustdegi árið 1974
hóf ’68-árgangurinn í Heiðarskóla
sína skólagöngu. Þarna komu
saman sveitakrakkar sem voru
eftirvæntingarfullir að kynnast
nýjum félögum, þetta var lítill
bekkur í litlum sveitaskóla.
Allt frá byrjun hefur hópurinn
verið nánast óbreyttur og með ár-
unum urðum við góðir vinir. Þetta
voru hressir og skemmtilegir
krakkar og oft var mikill galsi og
hlátur. Mögulegt er að við höfum
verið pínulítið óþekk á köflum en
það er nú samt örugglega mis-
skilningur, bara orkumiklir
krakkar.
Ekki er langt síðan við fréttum
af veikindum Höskuldar og
skuggi færðist yfir þennan hóp
sem í hjarta sínu er ungur og
ósigraður. Æðri máttarvöld hafa
tekið yfir og nú er komið að sorg-
arstund því við þurfum að kveðja
kæran félaga.
Höskuldur var einn af okkur og
hann var góður bekkjarbróðir.
Það sem kemur upp í hugann þeg-
ar við gömlu félagarnir minnumst
hans er að hann var húmoristi, ró-
legur, einstakur ljúflingur, bros-
mildur og kátur. Einnig munum
við eftir því að hann hafði einstakt
dálæti á Ursus-dráttarvélum eins
og sönnum sveitastrák sæmir.
Höskuldur hafði gaman af gaura-
ganginum í bekknum þegar mikið
gekk á og hann tók þátt í öllu því
sem við krakkarnir vorum að
brasa, hvort sem það var að spila
fótbolta í gúmmístígvélum, dansa
vals við harmonikkuspil eða berj-
ast um borðtennisborðin í nánast
öllum frímínútum. Eftir að grunn-
skóla lauk fetaði Höskuldur sína
eigin leið, líkt og við hin, fór í
framhaldsskóla, stofnaði fjöl-
skyldu og var farsæll í starfi. Við
glöddumst yfir velgengni hans í
lífinu.
Þótt tíminn hafi flogið á ógn-
arhraða höfum við bekkjarsystk-
inin haldið í tengslin, hist með
reglulegu millibili og fylgst hvert
með öðru á lífsleiðinni. Þetta hafa
verið dýrmætar samverustundir,
þar sem gamlar og góðar sögur
hafa verið rifjaðar upp og staðan
tekin á lífinu. Tengingin hefur
alltaf verið sterk þó svo að mörg
ár hafi liðið á milli funda.
Við kveðjum kæran bekkjar-
félaga sem fór alltof fljótt. Kæri
vinur, hvíl í friði.
Við sendum fjölskyldu Hösk-
uldar innilegar samúðarkveðjur.
Bekkjarsystkin úr Heiðar-
skóla,
Jóhannes I. Böðvarsson,
Laufey Helga Geirsdóttir,
Andrés Kjerúlf, Hildur
Steinunn Magnúsdóttir,
Pétur Þór Hall Guðmunds-
son, Halldóra Lára Benónýs-
dóttir, Guðmundur S. Jóns-
son, Guðjón Heiðar Guð-
mundsson og Ragnheiður
Kristinsdóttir.
Höskuldur Krist-
ján Guðmundsson
Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma,
langamma og langalangamma,
HÓLMFRÍÐUR JÓNA ARNDAL
JÓNSDÓTTIR,
Gullsmára 7, Kópavogi,
lést þriðjudaginn 19. nóvember.
Útför hennar fer fram frá Digraneskirkju í Kópavogi föstudaginn
6. desember klukkan 13.
Óskar Herbert Þórmundsson Helga Ragnarsdóttir
Ragnheiður Lilja Georgsdóttir
Þórður Rúnar Þórmunds. Ingibjörg Harðardóttir
Jóhanna Steinunn Hannesd.
Sóley Arndal Þórmundsd. Gunnar Þór Magnússon
Fanney Þórmundsdóttir Hilmar Jóhannesson
Sigurbjörn Jakob Þórmunds. Anna Guðný Friðleifsdóttir
Bjarni Gaukur Þórmundsson Sóley Ægisdóttir
barnabörn, barnabarnabörn, langalangömmustelpa
og fjölskyldur
Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma
og langamma,
SIGRÍÐUR MEKKÍN
ÞORBJARNARDÓTTIR,
Breiðagerði 19,
lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli föstudaginn
29. nóvember. Útför hennar fer fram frá
Fossvogskirkju föstudaginn 6. desember klukkan 11.
Ásgeir Egilsson Sara Sofia Roa Campo
Kjartan Egilsson Guðfinna E. Guðmundsdóttir
Unnur Egilsdóttir Þorsteinn Þorsteinsson
Pálmi Egilsson
ömmu- og langömmubörn
Eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir,
amma og langamma,
GUÐRÚN JÓNSDÓTTIR
geðlæknir,
verður jarðsungin frá Neskirkju föstudaginn
6. desember klukkan 13.
Páll Sigurðsson
Jónína Pálsdóttir Magnús Guðmundsson
Ingibjörg Pálsdóttir Helgi Þórhallsson
Dögg Pálsdóttir
Sigurður Páll Pálsson Áshildur Sólborg Þorsteinsd.
Jón Rúnar Pálsson
barnabörn og barnabarnabörn
Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma
og langamma,
GUÐRÚN MARÍA ÞÓRDÍS
SNÆBJÖRNSDÓTTIR
frá Hellissandi,
lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Gråsten
á Suður-Jótlandi 20. nóvember. Útför hennar hefur farið fram í
kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Þorsteinn Richter
Valur Richter
Kristinn Richter
tengdadætur, barnabörn og barnabarnabörn
Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar,
tengdafaðir, afi og langafi,
EDGAR GUÐMUNDSSON
verkfræðingur,
lést á líknardeild Landspítalans
29. nóvember. Útför hans fer fram frá
Lindakirkju föstudaginn 6. desember klukkan 15.
Hanna Matthildur Eiríksdóttir
Atli Edgarsson Kristín Vilhelmsdóttir
Guðmundur Edgarsson
Svava Liv Edgarsdóttir Þráinn Vigfússon
Jón Viðar Edgarsson
barnabörn og barnabarnabörn
Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar,
tengdafaðir, afi og langafi,
SÆVAR BRYNJÓLFSSON
skipstjóri,
Pósthússtræti 3, Keflavík,
lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
sunnudaginn 1. desember.
Útförin fer fram frá Keflavíkurkirkju þriðjudaginn 10. desember
klukkan 13.
Ingibjörg Hafliðadóttir
Bryndís Sævarsdóttir Einar Þ. Magnússon
Hafliði Sævarsson Jenný Lovísa Þorsteinsdóttir
Brynjólfur Ægir Sævarsson Áslaug Ármannsdóttir
barnabörn og barnabarnabörn