Læknablaðið - Dec 2018, Page 58
590 LÆKNAblaðið 2018/104
Heimilisfólkið í Reykjahlíð í Mývatnssveit framan við bæinn. Anderson tók myndina árið 1893.
hrauninu ... Á þessum kafla er hraunið
láréttar klappir, og þær þræddum við, en
þess á milli urðu fyrir dyngjur og hrúgöld
af holu og alla vega sprungnu hrauni
og urðum við að klóra okkur yfir þær á
fjórum fótum. Kom það oft fyrir að hraun-
gúlar brotnuðu niður í sömu svifum og
við slepptum fótfestu á þeim en svört og
ljót gímöld göptu við.“ Sveinn lýsir síðan
strýtu sem þeir gengu á: „Það var auðsætt
að þetta voru hreinir og beinir eldgígar …
Ég skoðaði fleiri hóla þarna, og voru þeir
allir af sömu gerð. ... Slíkir gíghólar af mis-
munandi stærðum eru nær tuttugu talsins
... Hafa þeir væntanlega átt fyrsta leikinn
1783.”7
Reyndar höfðu þrír bændur frá Mör-
tungu gengið á Kaldbak þegar mest gekk
á þann 16. júní 1783 „og kunnu þar að
greina 22 stórbál eður loga, sem réttlínis
stóðu upp úr þeirri gjá”. Svo skráir eld-
klerkurinn Jón Steingrímsson.8
Lavis upplýsir að auk ferðarinnar á
gosstöðvarnar í Skaftafellssýslu og förina
þaðan að baki Mýrdalsjökuls hafi þeir
ferðast að Heklu, til Þingvalla og skoðað
Geysissvæðið. Síðan voru þeir nokkra
daga á Reykjanesskaga og ferðuðust um
Hengilssvæðið og skrifuðu grein um
ferðina.9,10
The Royal Society sendi Anderson
ásamt John Smith Flett (1869-1947) jarð-
fræðingi til að rannsaka afleiðingar eld-
gosa fjallanna Soufriere, á St. Vincent og
Pelée á eyjunni Martinique vorið 1902.
Gusthlaup rústaði bæinn Saint-Pierre
á Martinique 8. maí 1902 og fórust þar
um 28.000 manns. Þann 9. júlí voru þeir
Anderson og Flett á báti úti fyrir strönd
Martinique þegar eldský kom þjótandi
niður fjallið og lagðist yfir hafflötinn. Þeir
urðu svo gagnteknir af þessu stórkostlega
sjónarspili að hræðsla komst ekki að og
enn annað gjóskuflóð, stærra hinu fyrra,
kom í kjölfarið. Bátsverjar reyndu hins
vegar í ofboði að sigla burt. Anderson
mun vera fyrstur til að lýsa og mynda
gusthlaup og útskýra eðli þess, sem hann
bar saman við sérstök snjófljóð, sem hann
hafði kynnst.11
Anderson fylgdist með eldgosi í fjallinu
Matavanu á eyjunni Savaii í vestanverðu
Kyrrahafi á árinu 1909.5 Það sem hreif
hann mest var að sjá, sérstaklega eftir
sólarlag, glóandi hraunið renna í sjóinn
og uppljómaða gufuna stíga til himins.
Hvaða áhrif hafði þessa snögga kólnun
á hraunið? Var það ekki einmitt þannig
sem bólstraberg varð til? Anderson fékk
sér bát og fór eins nálægt hrauninu og
hann treysti bátnum og lýsir nákvæm-
lega myndun bólstrabergs.5 Guðmundur
Kjartansson jarðfræðingur birti lýsingu
Andersons á myndun bólstrabergs í sjó.12
Ég var að velta fyrir mér forvitnilegum og
fjölbreytilegum klettamyndunum á strönd
Hestfjarðar, sem mig grunaði að væru
bólstraberg, þegar ég komst í kynni við
þeirra skrif. Einnig myndun gervigíganna
við Mývatn, en Anderson hafði sett fram
þá kenningu að þeir hefðu myndast við
rennsli hrauns yfir votlendi þegar hann sá
þá 1893.
Allar myndir Andersons, teknar á
Norðurlandi, eru frá ferðinni 1893. Hann
hrífst af Jökulsárgljúfrum og þegar And-
erson kemur í Mývatnssveit myndar hann
ekki eingöngu jarðfræðifyrirbæri heldur
fær maddömurnar til að skarta skautbún-
ingi framan við burstabæinn. Rokkum,
hrífum, ljáum, netum, hjólbörum, hross-
um, börnum, hundum og köttum er tjald-
að til.13